Fjórar vikur af verkfalli tónlistarkennara

Tónlistarkennarar eru komnir að samningaborðinu á nýjan leik en hægt hefur þokast í viðræðum hingað til.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Samninganefnd sveitarfélaganna lagði fram tilboð á samningafundi með tónlistarkennurum í gær. Boðað var nokkuð óvænt til fundarins í gær en vika var frá síðasta fundi deiluaðila. Ekki náðust þó samningar en fundað verður áfram í dag.


DV heyrði í Sigrúnu Grendal í liðinni viku og tók saman um hvað deilan stendur og niður á hvaða hópum verkfallið kemur verst. Krafa kennaranna virðist ekki mjög flókin en svo virðist sem laun tónlistarkennara hafi dregist verulega aftur úr launum annarra sambærilegra hópa síðustu ár.

Drógust aftur úr

Sem dæmi má nefna að í janúar árið 2008 voru laun 45 ára tónlistarkennara með 15 ára starfsreynslu um fimm prósentum hærri en laun grunnskólakennara tvö, með sambærilega menntun og reynslu. Síðan 2008 hefur kjarabarátta almennra kennara svo skilað þeim skör hærra í launaflokk en kollegar þeirra við tónlistarkennslu.

„Ef við tækjum svo þeirri 7,5 prósenta hækkun sem að okkur er rétt værum við, þrátt fyrir það, að horfa fram á að laun tónlistarkennara yrðu um sextán prósentum lægri en almennra kennara í byrjun næsta árs og ef vinnumat verður samþykkt verða þetta um tuttugu og sjö prósent. Við þetta boð verður ekki unað,“ segir Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarkennara, og segir það ekki ósanngjarna kröfu að fara fram á sambærileg laun og aðrar kennarastéttir. Þá séu tónlistarskólakennurum enn settir óaðgengilegir afarkostir í kjaraviðræðunum og slíkt ógni faglegri getu þeirra til að uppfylla skilyrði að starfa samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.

Sigrún segir jafnframt með öllu óásættanlegt að félagsmönnum innan Kennarasambandsins sé mismunað í launum eftir skólagerð. „Slíkt stríðir í raun gegn megin samningsmarkmiðum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ber að tryggja sambærileg laun fyrir sambærileg störf,“ segir Sigrún.

Áhrifanna gætir víða

Áhrifanna gætir víða

Það dylst engum að Íslendingar eru stoltir af mikilli grósku í tónlistarlífi landans. Sköpun og iðkun tónlistar er sögð auðga menningu þjóðarinnar auk þess sem hún skapar tekjur í ríkissjóð. Nærtækt dæmi er Airwaves-hátíðin og opinber kynningarför hljómsveitanna Retro Stefson og Young Karin til Toronto í Kanada á vegum utanríkisráðuneytisins.

Þrátt fyrir almenna ánægju með tónlist virðist þó lítið þokast í deilum tónlistarkennara við sveitarfélögin. Verkfall kennaranna hefur nú staðið yfir í fjórar vikur og hefur slíkt alvarlegar afleiðingar fyrir þúsundir tónlistarnema.

„Fyrir mörgum er árið ónýtt og óvíst hversu margir koma til með að heltast úr lestinni,“ segir Sigrún Grendal.

Gjafmildasta stéttin

Árið 2011 var undirritað samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga þar sem sveitarfélögin voru gerð að ábyrgðaraðila tónlistarkennslunnar og ber þannig, samkvæmt áðurgreindum samningi, að standa straum af öllum kennslukostnaði tónlistarskóla. Sigrún segir að þetta samkomulag hafi verið virt að vettugi.

„Ég hef löngum sagt það að við erum fórnfúsasta og gjafmildasta stétt landsins. Tónlistarfólk gefur oft á tíðum vinnu sína og framlag til hvers kyns góðgerðarmála, en það er valkvætt. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því nú að innan sveitarfélaganna standi hreinlega til að kosta, að hluta til, rekstur tónlistarskólanna með okkar vinnuframlagi,“ segir Sigrún.

Hún segir það sveitarfélaganna að ákveða hvort tónlist sé í raun eitthvað sem þau kjósi að hafa aðgengilegt öllum.
„Þarna verða sveitarfélögin bara að verða heiðarleg. Það að reka skólana er ekki skylda. Sveitarfélögin verða því að axla ábyrgð á því hvort þeim finnist tónlistarnám rekstursins virði. Þangað til er ekki stórmannlegt að leggja það á herðar einnar stéttar að halda niðri kostnaði við námið með kjaraskerðingum.“

Fjölmargir hafa lýst yfir stuðningi með tónlistarkennurum. Send hafa verið út myndbönd þar sem sjá má listamenn á borð við Ásgeir Trausta, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Jakob Frímann Magnússon, Brynhildi Guðjónsdóttur, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, Harald Ólafsson, Ágúst Einarsson og Bjarka Karlsson lýsa yfir eindregnum stuðningi við kjarabaráttuna.

Fimm prósent félagsmanna Kennarasambandsins

Í lok október náðust samningar við hluta tónlistarkennara sem eru í Félagi hljómlistamanna. Spurð hvers vegna FT vilji ekki við sömu samninga una segir Sigrún það margþætt.

„Okkar hluti er innan kennarasambandsins. Okkar viðfangsefni er kennsla auk faglegra málefna kennara. Flestir hér hafa kennsluna að sínu aðalstarfi. Ég skil það mjög vel að fyrir tónlistarmenn sem hafa kennsluna að aukastarfi skipti kennaralaunin ekki öllu upp á lífsafkomuna að gera.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.