AmabAdamA fékk 4500 kr frá Spotify fyrir 11000 spilanir: „Það meikar engan sens“

Haraldur Leví segir tónlistarunnendur ekki geta borgað aðeins 1500 krónur fyrir aðgengi að tónlist

Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

„Skilaboðin sem ég vil koma áleiðis er að við eigum ekki að venjast því að greiða 1.500 krónur á mánuði fyrir tónlistarveituna sem við viljum nota. Það meikar engan sens, það er ódýrara en ein plata. Það er meira að segja ódýrara en heildsöluverð á einni plötu!“ Þetta segir Haraldur Leví Gunnarsson eigandi og framkvæmdastjóri Record Records í grein á Nútímanum í dag.

Í greininni fjallar Haraldur Leví um tónlistarveitur á við Spotify og bendir á að greiðslurnar sem tónlistarmenn fá frá Spotify séu afar takmarkaðar. Spotify segist greiða um 70% af tekjum sínum til tónlistarmanna, en mánaðarlegt gjald notenda Spotify er um 1500 krónur á mánuði. Haraldur bendir í greininni á að hljómsveiting AmabAdamA, ein vinsælasta hljómsveitin á Íslandi í dag, hefur fengið um 4500 krónur á þremur vikum frá Spotify. Notendur hafa streymt plötunni yfir 11000 sinnum.

„Á sama tíma hefur platan verið fáanleg á Spotify og er nú búið að streyma henni tæplega 11.000 sinnum, þ.e. 11.000 spilanir á lögum. Það eru 10 lög á plötunni svo þetta gerir 1.100 hlustanir á plötunni. Mér finnst frekar raunsætt að gefa mér að á bakvið þessar 1.100 hlustanir séu sirka 140 virkir hlustendur, sem eru búnir að renna plötunni sirka 8 sinnum í gegn. Þessar 11.000 spilanir laga hefur skilað hljómsveitinni AmabAdamA rétt um 4.500 kr. í tekjur. Ef þessir 140 virku hlustendur hefðu farið út í plötubúð og keypt plötuna á föstu formati eins og geisladiski, þá væri sveitin búin að fá um 100 þúsund krónur í tekjur. Þú þarft að hlusta 173 sinnum á plötuna svo að hljómsveitin fái sömu tekjur og ef þú ferð og kaupir geisladiskinn út í búð. Það er fáránlegt!“ segir hann. Á sama tíma er AmabAdamA í þriðja sæti vinsældalistans á Íslandi og hefur selt um 150 eintök af plötum.

„Þessi færsla er ekki skrifuð til að reyna að blása lífi í geisladiskinn eða annað fast format tónlistar, heldur er ég að koma því til skila að við, tónlistarunnendur, getum ekki vanist því að greiða 1.500 krónur á mánuði fyrir aðgang að nánast allri tónlist í heiminum! Ég elska Spotify og aðrar sambærilegar tónlistarveitur, sem tónlistarunnandi. Nú er ég í þeirri stöðu að vera tónlistarútgefandi en ég er líka tónlistarunnandi. Ég er ekki bara að hugsa um að búa til peninga og verða ríkur feitur kall. Ég vil að tónlistarfólk geti lifað á því að skapa tónlist. Tónlistarsköpun er ekki hobbý, það er atvinna fyrir marga,“ segir Haraldur og veltir því fyrir sér hvað sé sanngjarnt að greiða.

Haraldur segir þessar tölur sýna að tónlistarmenn þurfi að sætta sig við mikla tekjuminnkunn í framtíðinni.
„Þetta má ekki vara lengi ef við tónlistarunnendur viljum geta grúskað í góðri tónlist!“ segir hann, en pistilinn má lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.