fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Smekkleysan allsráðandi í Deadpool 2: Sprell og endurvinnsla í hámarki

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 26. maí 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

NÝTT Í BÍÓ

Leikstjóri: David Leitch
Framleiðendur: Ryan Reynolds og félagar
Handrit: Paul Wernick, Rhett Reese, Ryan Reynolds
Klippari: Elísabet Ronaldsdóttir, Craig Alpert, Dirk Westervelt
Kvikmyndataka: Jonathan Sela (hinn sami og skaut John Wick og Max Payne)
Aðalhlutverk: Ryan Reynolds, Zazie Beetz og Þanos

Í stuttu máli: Deadpool 2 kitlar sína fíkla á réttum stöðum með hressandi töktum og en hefur ekki sama bit og brakandi ferskur forveri sinn.

 

Það tók Ryan Reynolds heilar fjórar mislukkaðar tilraunir til þess að leika í bíómyndum byggðum á hasarblöðum (Blade Trinity, Wolverine, Green Lantern, R.I.P.D.) áður en hann loksins fann eina sem small, en leikarinn og Deadpool-fígúran fara saman eins og hnetusmjör og súkkulaði.

Árið 2016 voru umræður víða komnar á flug um að ofurhetjufaraldurinn væri orðinn eitthvað einsleitur, of „Disney-væddur“ og knúinn af leikfangasölu og þá kom Deadpool eins og kallaður; kjaftfor, sjálfmeðvitaður, taumlaus í hasarnum auk þess að reita af sér typpabrandara eins og líf hans velti á því.

Það má bæði segja að Deadpool 2 leyfi sér að fikta við breiðari og villtari striga en áður með trylltari hugmyndum og eigin reglum, eins og oft einkennir traustar viðbætur, en á sama tíma fellur hún í sömu gildrur og grínframhöld eiga til með að gera; endurvinna brandara. Myndin nær ómögulega að skáka eða jafna ferskan andblæ forvera síns, en nóg er til af sniðugum uppákomum til að myndin komist hjá því að vera of sjálfumglöð eða þreytandi, þó aldrei sé langt í það. Á ýmsum sviðum lítur myndin miklu betur út en sú fyrri; með flottari litapallettu, meiri dýnamík í hasar og klippingu. Þar kemur David Leitch (John Wick, Atomic Blonde) sterkur inn með stílbrögð sín í steypuna.

Hann Deadpool er klárlega Flashdance-aðdáandi.

Helst fellur myndin í sundur þegar handritið hamrar á hlýju, tilfinningum og móral persóna, sem hér er oftar gert en fyrr. Sem fígúra kemst Deadpool upp með margt, eins og að rjúfa endalaust fjórða vegginn og benda á klisjur en kemst hann ekki upp með að taka sig alvarlega á sama tíma. Hins vegar er spilað skemmtilega með sjálfseyðingarhvöt andhetjunnar, því dramatískur dauðdagi hetja er víst „inn“ í dag en erfiðara fyrir karakter sem bókstaflega getur ekki dáið.

Karakterinn minnist nokkrum sinnum á „leti“ í handritsgerðinni, en þó höfundar segist vera meðvitaðir um klisjurnar afsakar það ekki tilfellin þar sem þeir falla í þær sjálfir. Á móti snýst notagildi áhorfenda eingöngu um þol hans fyrir smekkleysunni og einfalda spurningu: Hversu fyndið er þetta?

Útkoman er skondin en sjaldan sprenghlægileg. Tímasetning húmorsins var meðhöndluð af meira sjálfsöryggi aðstandenda í fyrri myndinni, sjálfsagt vegna þess að handritið var einfaldara, skarpara og hnyttnara. Deadpool 2 er jaðrandi við það vera ofpökkuð en tekur óvenjulega langan tíma að koma stemningunni (og dirfist maður að segja sögunni?) á gott ról. Síðari hlutinn verður sterkari þegar Josh Brolin og Zazie Beetz fá loksins eitthvað að gera. Hundfúlt er annars hversu lítið er gert úr frekar breiðu úrvali kvenna.

Josh Brolin á fína innkomu sem hinn grjótharði Cable.

Myndin er uppfull af földum tilvísunum, einkabröndurum og skotum á dægurmenningu og myndasögur sem aðeins hnefafylli af fólki í sal mun ná. Hægri og vinstri eru tekin skot á ofurhetjugeirann eins og hann stendur í dag. Hæpið er að Deadpool myndirnar eldist vel í framtíðinni og þessi seinni þá sérstaklega, miðað við hvað tölvubrellurnar eru illa slípaðar og ljótar á tíðum.

Allir sem ypptu öxlum yfir fyrstu myndinni hafa lítið með þessa að gera. Framhaldið ætti að skemmta flestum hörðustu aðdáendum, bæði persónunnar og Ryan Reynolds. Eins er ómögulegt að smella ekki lágmarksmeðmælum á bíómynd sem blandar saman blóðsúthellingum við stórhressandi söng Dolly Parton um vinnutímann níu til fimm.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar