Menning

Tónlistarkonan Karlotta Laufey úr Vicky: Tryllt í „eitís“ og þolir ekki Coldplay

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 9. júní 2018 18:30

Hljómsveitin Vicky hefur komið saman aftur eftir langt hlé, en nafn hljómsveitarinnar kemur frá persónunni Vicky Pollard úr grínþáttunum Little Britain. Bandið var stofnað árið 2007 og hljómsveitina skipa þau Orri Guðmundsson, Baldvin Freyr Þorsteinsson, Ástrós Jónsdóttir, Eygló Scheving og Karlotta Laufey Halldórsdóttir.

„Það var komin einhver stöðnun í þetta hjá okkur,“ segir Karlotta Laufey og segir hljómsveitina hafa þurft á breytingu að halda eftir samfellda spilamennsku hverja helgi í nokkur ár. „Fólk fór í nám, barneignir, Sauðfjárrækt og bara hitt og þetta. Svo fyrir tveimur árum ákváðum við að hittast aftur og taka smá æfingar. Bara núna í lok síðasta árs ákváðum við að spila aftur og byrja að taka upp.“

Karlotta segir hljómsveitina nú hafa sent frá sér tvö lög á hálfu ári og þau héldu fyrstu tónleika sína síðustu helgi á Gauknum eftir pásuna. Næst stefna þau að tónlistarhátíðinni Secret Solstice og segir Karlotta að það sé auðvelt að muna. „Ef Ísland-Nígería leikurinn er nýbyrjaður, þá stígum við á svið, svo það er engin afsökun að gleyma sér og mæta ekki.“

Áður þekkt sem Minx

Að sögn gítarleikkonunnar hefur mórallinn hjá hljómsveitinni ekkert breyst. „Miðað við stemninguna er eins og við höfum aldrei tekið okkur pásu, en auðvitað eru hlutir aðeins öðruvísi þegar fólk er komið með tvö eða þrjú börn eða rúmlega þrjú þúsund rollur.“

Karlotta segir tónlistaráhuga sinn og draum hafa kviknað snemma. „Pabbi minn er gítarleikari og það kom aldrei annað til greina en að ég myndi enda í tónlist,“ segir hún. „Hann kenndi mér á gítar þegar ég var 13 ára og svo hef ég kennt sjálfri mér eftir það, með nokkrum misheppnuðum stoppum í tónlistarskólum. Ég byrjaði svo ekki í bandi fyrr en stelpurnar í Vicky, þá Minx, buðu mér trommarastöðu á sínum tíma sem ég tók, en vék sem trommari fyrir Orra Guðmundssyni stuttu síðar og fór yfir á gítarinn. Sem betur fer, segi ég bara.“

Gítarleikkonan segir margar minningar hafa orðið til hjá hljómsveitinni, en ekki fer á milli mála að með því eftirminnilegasta á liðnum árum voru tónleikar sem haldnir voru í Kína. „Eftir það breyttist algjörlega tilfinningin hjá manni fyrir tónleikahaldi og stemningu tengdri tónleikum. Þetta var alveg fáránlega þroskandi ferðalag fyrir bandið,“ segir Karlotta.

„Þarna breyttist þetta hjá okkur úr að spila einungis á börum í Reykjavík, eins sjúklega gaman og það var, yfir í að spila í nýrri heimsálfu fyrir fólk sem hafði allt aðra menningu tengda tónleikum. Í Kína var fólk bara gjörsamlega tryllt.“

Í tveimur hljómsveitum og flytur inn föt

Áhrifavaldar hljómsveitarinnar Vicky koma úr öllum áttum að sögn Karlottu: „allt frá Pantera, Kiss, Van Halen til Manson, Queen og jafnvel Cher. Svo er Eygló alveg tryllt í Aron Can þessa dagana, en sem betur fer erum við öll mjög ólík á margan hátt, en það kemur allt saman í eina klessu þegar við hittumst og spilum saman,“ segir hún.

Þegar Karlotta spilar ekki á gítarinn eða spreytir sig í tónlistarsköpun með uppáhaldsfólkinu segist hún vera sérlega mikið gefin fyrir húðflúr, mótorhjól, vinina og bjór: „þetta klassíska bara,“ eins og hún segir. „Einnig tvinnast vinnan inn í áhugamálin þessa dagana þar sem ég sé um að flytja tískufatnað til landsins sem verslunarstjóri í Rokk & Rómantík.“

Karlotta er mikil fjöllistakona sem segir músíkunnandann í sér vera „tryllt í eitís, þá aðallega glamið,“ en gítarleikarinn er einnig í hljómsveitinni The Retro Mutants sem spilar svonefnt „synth-popp í eitís-stíl“. Aðspurð hvort það sé einhver tegund af tónlist sem hún þolir ekki var svarið hjá Karlottu skýrt og auðsvarað: „Coldplay!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir einni viku

Skjárýnirinn: „Undanfarið hef ég legið yfir Peep Show“

Skjárýnirinn: „Undanfarið hef ég legið yfir Peep Show“
Menning
Fyrir 8 dögum

Jói G. leikur í sænskum spennuþáttum: Rig 45 – Agatha mætir Alien

Jói G. leikur í sænskum spennuþáttum: Rig 45 – Agatha mætir Alien
Menning
Fyrir 10 dögum

Borgarbókasafnið í Grófinni komið í HM búning

Borgarbókasafnið í Grófinni komið í HM búning
Menning
Fyrir 11 dögum

Heimskort Söguhrings kvenna afhjúpað

Heimskort Söguhrings kvenna afhjúpað
Menning
Fyrir 11 dögum

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður
Menning
Fyrir 12 dögum

Horfðu á HM í bíó: HÚ í Paradís

Horfðu á HM í bíó: HÚ í Paradís
Menning
Fyrir 16 dögum

Einu sinni var í Hollywood: Þetta eru leikararnir í nýjustu mynd Quentin Tarantino

Einu sinni var í Hollywood: Þetta eru leikararnir í nýjustu mynd Quentin Tarantino
Menning
Fyrir 16 dögum

Sýna bréf sem voru um borð í flugvélum sem fórust

Sýna bréf sem voru um borð í flugvélum sem fórust