Bókin sem heimspekingar hafa beðið eftir í 34 ár - síðasta verk Foucault er loksins komið út

Játningar holdsins kemur út 34 árum eftir dauða heimspekingsins Michel Foucault

bað um að engin ókláruð verk yrðu gefin út eftir að hann væri allur - en nú 34 árum eftir andlát hans er síðasta bók hans komin út.
Michel Foucault bað um að engin ókláruð verk yrðu gefin út eftir að hann væri allur - en nú 34 árum eftir andlát hans er síðasta bók hans komin út.

Það þykir sæta miklum tíðindum að út komi áður óútgefið heimspekirit eftir Michel Foucault, einn allra áhrifamesta heimspeking 20. aldarinnar, enda eru tæplega 34 ár frá því að hann lést. Í dag kom út bókin „Játningar holdsins“, fjórða bókin í Sögu kynferðisins, hjá frönsku útgáfunni Gallimard.

Handrit bókarinnar var nánast tilbúið þegar Foucault lést 57 ára gamall úr alnæmi. Hann óskaði hins vegar eftir því að engin ókláruð rit hans skyldu gefin út eftir hans dag svo bókin hefur legið óútgefin í geymslu frá andláti höfundarins. En nú hefur semsagt verið ákveðið að gefa bókina út. Útgáfan hefur vakið mikla athygli meðal heimspekiáhugafólks og í franskri menningarumræðu, en menningarmiðillinn French Culture segir til að mynda að bókin sé án vafa „síðasta stóra óútgefna heimspekiverk tuttugustu aldarinnar.“

Í tilefni að hinni sögulega útgáfu rifjaði blaðamaður DV upp hver þessi Michel Foucault var og velti fyrir sér hvað „nýja“ bókin mun innihalda?

Einn áhrifamesti hugsuður 20. aldarinnar

Paul Michel Foucault var læknasonur, fæddur í Poiters árið 1926. Hann lærði sálfræði og heimspeki við hinn virta École Normale Supérieure í París, meðal annars hjá kennurum á borð við Georges Canguilhem og Louis Althusser. Á námsárunum glímdi hann við alvarlegt þunglyndi og reyndi meðal annars að stytta sér aldur, en á þessum tíma var hann enn að sætta sig við samkynhneigð sína sem var enn mikið tabú í frönsku samfélagi.

Eftir að náminu lauk ferðaðist hann milli ýmissa staða í Evrópu og skrifaði um leið. Hann vakti fljótt athygli með útgáfu bóka á borð við Sturlun og siðmenning (1961) en sló algjörlega í gegn með bókinni Orð og hlutir (1966) sem varð metsölubók þrátt fyrir að vera háfræðilegur og flókinn doðrantur. Seinna hafa bækur eins og Agi og refsing (1975) og Viljinn til þekkingar (1976) frekar haldið nafni hans á lofti meðal almennings. Um árabil var hann einn mest áberandi menntamaður Evrópu, tók þátt í opinberum umræðum og lét sig baráttumál ýmissa undirokaðara jaðarhópa varða, meðal annars samkynhneigðra, mótmælenda í kommúnistaríkjum austur-evrópu, flóttafólks og fanga.

Á ferli sínum markaði Michel Foucault sér stöðu sem einn allra áhrifamesti heimspekingur 20. aldarinnar og kenningar hans hafa haft gríðarleg áhrif inn í fjölmargar ólíkar fræðigreinar, ekki bara heimspeki og hugmyndasögu heldur einnig félagsfræði, kynjafræði, arkitektúr, bókmenntafræði svo eitthvað sé nefnt. Til marks um áhrif hans er að hann er einn af þeim höfundum, ef ekki sá, sem er vitnað hvað oftast í í hugvísindum um þessar mundir.

Þekking er vald

Að eima kenningar Michels Foucault niður í auðskiljanlega blaðagrein er að sjálfsögðu ómögulegt, en það má segja að fyrstu verk hans hafi verið rannsóknir á geðveiki, sálfræði og spítölum, þar sem hann skoðaði til dæmis hvernig hugmyndir um sturlun höfðu breyst á síðustu öldum. Þar sneri hann meðal annars á haus þeirri viðteknu hugmynd að það hafi verið óumdeild framför þegar farið var að líta á slíkt ástand sem andleg veikindi.

Hann notaðist við það sem hann kallaði fornminjafræðilega aðferð á sviði hugmynda, sökkti sér ofan í skjalasöfn og skoðaði þar hin ólíklegustu skjöl til að skilja hvernig fyrirbæri á borð við sturlun pössuðu á mismunandi hátt inn í hugmyndakerfi hvers tíma.

Hann hélt því fram að á hverjum tíma mótaðist hugsun einstaklinga af því hugsana- og hugmyndakerfi sem var allsráðandi. Hann taldi að ómeðvitað fylgdum við fjölda hugsunaregla og -lögmála, bjuggum við ákveðna djúpþekkingu, sem mótaði svo hvað það er sem er samþykkt sem fræðileg orðræða eða vísindalega þekking hverju sinni. Það má því segja að þessi dýpri þekking skilgreini sjóndeildarhring mögulegra hugmynda okkar, afmarki það hvað við getum hugsað á hverjum tíma. Reglulega eiga sér svo stað mikil umbrot í hugmyndaheimi okkar, ný fyrirbæri koma fram á sjónarsviðið sem setja allt þekkingarnetið í uppnám, reglurnar breytast og ný vísindi verða möguleg – nýtt hugsanakerfi fæðist af hinu gamla.

Valdið er alls staðar

Foucault fór smám saman að einbeita sér að því hvernig þekkingin tengist valdi alltaf órofa böndum. Þá er ekki (bara) átt við í þeim margþvælda skilningi að sá sem verði sér úti um þekkingu öðlist vald, heldur einnig að sá sem hafi vald skilgreini hvað þekking er, og að notkun þekkingar sé raunar í eðli sínu tilraun til að stýra.

Á áttunda áratugnum fór hann í auknum mæli að velta fyrir sér eðli þessa valds. Í bókinni Ögun og refsing sem er líklega hans þekktasta verk í dag skoðar hann til að mynda hvernig hugmyndir um mannúðlegri refsingu glæpamanna - frá pyntingum og aftökum til fangelsunar og betrunar - var ekki bara hluti af almennri þróun í átt að mannúðlegra samfélagi heldur fyrst og fremst skilvirkari leið til ögunar þegnanna. Dæmið sem Foucault gerði að táknmynd þessarar þróunar var Alsjáin, 18. aldar fangelsishönnun sem fólst í því að einn fangavörður gæti fylgst með hverjum og einum fanga fangelsins án þess að fanginn vissi hvort nokkur fylgdist með honum á tilteknu augnabliki. Þessi stöðugi sjáanleiki og vitneskja fangans um það til hvers væri ætlast að honum leiddu til sjálfs-ritskoðunar sem gerði líkamlegar refsingar allt að því óþarfar. Alsjáin átti þó ekki bara að útskýra arkitektúr fangelsa heldur taldi Foucault hana sýna hvernig hin ýmsu ögunarkerfi virkuðu í samfélaginu sjálfu.

Foucault varpaði þar með ljósi á að vald fælist ekki bara í því að setja lög og reglur sem banna tiltekna hegðun og refsa fyrir brot, heldur er hægt að beita mýkra, en skilvirkara, valdi með því hvetja til ákveðinnar hugsunar og hegðunar: stýra fólki. Í huga Foucaults voru allar þær athafnir sem stefna að því að stýra athöfnum annarra einhverskonar valdbeiting. Vald og valdbeiting var ekki bara fræðilegt umhugsunarefni Foucaults heldur ku hann einnig hafa nýtt reglulegar kennsludvaldir sínar í Bandaríkjunum til að gera tilraunir með þessi fyrirbæri í BDSM-kynlífsklúbbum í San Francisco.

Vald felst ekki bara í því að setja lög og reglur sem banna tiltekna hegðun og refsa fyrir brot, heldur er hægt að beita mýkra, en skilvirkara, valdi

Foucault gerði 18. aldar fangelsishönnun Jeremy Benthams að táknmynd fyrir ögunarkerfi nútímans. Hönnunin fólst í því að einn fangavörður gæti úr turni sínum í miðju fangelsisins fylgst með hverjum og einum fanga fangelsins án þess að fanginn gæti séð inn í turninn, og vissi því aldrei hvort nokkur fylgdist með honum. Þannig finnur fanginn stöðugt fyrir mögulegu augnaráði varðarins og hagar sér í samræmi við það.
Alsjáin (e. Panopticon) Foucault gerði 18. aldar fangelsishönnun Jeremy Benthams að táknmynd fyrir ögunarkerfi nútímans. Hönnunin fólst í því að einn fangavörður gæti úr turni sínum í miðju fangelsisins fylgst með hverjum og einum fanga fangelsins án þess að fanginn gæti séð inn í turninn, og vissi því aldrei hvort nokkur fylgdist með honum. Þannig finnur fanginn stöðugt fyrir mögulegu augnaráði varðarins og hagar sér í samræmi við það.
Mynd: Getty

Vald yfir lífi og dauða

Árið 1976 sendi Foucault frá sér fyrsta hluta Sögu kynferðisins, litla bók sem nefndist Viljinn til þekkingar og átti einungis að vera stuttur inngangur að verkefninu. Saga kynferðisins átti að fjalla um það hvernig hugmyndir okkar um kynferði í nútímanum urðu til, bera saman stöðu kynferðisins í mismunandi hugsanakerfum sögunnar, rannsaka hvernig þeir sem gefa sig út fyrir að hafa þekkingu á viðfangsefninu hafa í raun verið að stýra hugsunum fólks og hegðun á sviði kynferðisins.

Það sem hefur þó kannski haft hvað mest áhrif úr þessi litla en merkilega riti er greining hans á því hvernig yfirvöld hafa í auknum mæli séð hag sinn í að greina og stýra kynhegðun heilla þjóðfélaga- og þjóðfélagshópa. Á miðöldum skáru yfirvöld úr um það hvort þegn skyldi lifa eða deyja, en í nútímanum vilja yfirvöld sem sagt stýra því hvernig þegnarnir lifa lífinu – slíka stýringu nefndi Focault lífvald (fr. biopolitique).

Þð má segja að Foucault hafi á þessum tíma verið kominn í ákveðið pólitískt öngstræti með kenningar sínar. Mótandi valdið og síaukin normalísering virtist samkvæmt kenningum hans svo alltumlykjandi að ef þær voru raktar til enda virtist frelsi einstaklingsins nánast ekkert – hverju gat einstaklingurinn vonast til að breyta þegar öll hans tilvera, vonir hans og langanir voru mótaðar af ráðandi öflum? Þetta gæti verið ein ástæðan fyrir því að undir lok ferilsins beindi hann sjónum sínum í auknum mæli að sjálfinu og möguleikum einstaklingsins til að spyrna gegn stýringu.

Á miðöldum skáru yfirvöld úr um það hvort þegn skyldi lifa eða deyja, en í nútímanum vilja yfirvöld sem sagt stýra því hvernig þegnarnir lifa lífinu

Grískt og kristið kynlíf

Annað bindi Sögu kynferðisins átti fyrst að fjalla um það hvernig kristnir tókust á við syndir holdsins þegar þeir játuðu syndir sínar fyrir prestinum. Efnið lagði hann fljótlega til hliðar enda taldi hann sig þurfa að gera samanburð á þessari sjálfskoðun kristninnar og því hvernig hugmyndalegir forverar hinna kristnu, forngrikkir, litu á kynlíf og sjálfið. Bækur tvö og þrjú komu út árið 1983 og var þar lagt upp með að rannsaka kynferði í forngrísku og rómversku samfélagi.

Ólíkt hinni kristnu afstöðu sem áleit kynlíf slæmt í eðli sínu en í einstaka tilfellum óhjákvæmilegt, álitu Grikkir að kynlífið þyrfti að nálgast – eins og allt annað – af hófsemi. Það varð ljóst að afstaðan til kynlífs var bara einn angi af fagurfræðilegri afstöðu Grikkjanna til lífsins og sjálfsins. Einstaklingur velti því ekki bara fyrir sér hvort tiltekin kynferðisleg hugsun væri syndsamleg eða tiltekin athöfn væri bönnuð, heldur fyrst og fremst hvort að hegðunin myndi stuðla að fagurri tilveru. Samkvæmt þessari nálgun var lífið eins og listaverk sem hver manneskja þarf að móta samkvæmt eigin fegurðarskyni. Bækurnar fjölluðu að mestu leyti um þessa fagurfræðilegu afstöðu sem Foucault fannst kristallast í þeim einkunnarorðum að einstaklingu skyldi huga að sjálfinu.

Foucault heillaðist enn fremur að hinni forngrísku nálgun á heimspeki sem lífsmáta frekar en bara sem fræðilegar spurningar um eðli veruleikans. Hann hafði lengi velt fyrir sér hvernig valdaaðilar notuðu sannleikann til að stýra fjöldanum – en í forngrikklandi fann hann hugtak yfir það hvernig hinn valdalitli lifði sannleikann til að ögra valdinu. „Parrhesia“ er notað yfir það þegar einstaklingur setur sjálfan sig í hættu til að sýna valdhöfunum sannleikann. Honum tókst því miður ekki að þróa þessar hugmyndir sínar áfram nema í fyrirlestrum sem ekki voru hugsaðir til útgáfu.

Einstaklingur velti því ekki bara fyrir sér hvort tiltekin kynferðisleg hugsun væri syndsamleg eða tiltekin athöfn væri bönnuð, heldur fyrst og fremst hvort að hegðunin myndi stuðla að fagurri tilveru

Foucault var sérstaklega áhugasamur um hvernig kristnir einstaklingar voru hvattir til að kafa djúpt ofan í sálarlíf sitt í leit að syndsamlegri hugsun um kynlíf.
Játað fyrir prestinum Foucault var sérstaklega áhugasamur um hvernig kristnir einstaklingar voru hvattir til að kafa djúpt ofan í sálarlíf sitt í leit að syndsamlegri hugsun um kynlíf.

Farið á svig við síðustu óskir

Michel Foucault lést úr alnæmi í júní 1984, 57 ára gamall. HIV-veiran var ekki enn orðin á allra vitorði eins og síðar varð og því greindist sjúkdómurinn seint. Áætlað hafði verið að fjórða bókin í Sögu kynferðisins – þessi um kristnina – skyldi gefin út í lok árs 1984 og var handritið nánast tilbúið þegar Foucault féll frá. Bókin hefði líklega verið gefin út ef ekki hefði verið fyrir skýra ósk höfundarins um að engin ókláruð verk hans skyldu gefin út eftir hans dag.

Fljótlega eftir andlátið var þó byrjað að gefa út ritgerðasöfn, viðtöl og blaðagreinar sem höfðu birst annars staðar – og voru því ekki ókláruð. Og eftir því sem fjær hefur dregið frá dauða spekingingsins hefur
smám saman verið farið örlítið meira á svig við óskir hans, æ meira efni hefur verið grafið upp og gefið út, þar mikilvægastar eru árlegar fyrirlestraraðir sem hann flutti í College de France á áttunda og níunda áratugnum til að gefa almenningi innsýn í rannsóknir sínar. Þegar byrjað var að gefa fyrirlestrana út á bók, einn á eftir öðrum, voru þeir ekki túlkuð sem ókláruð verk því hann hafði gefið leyfi fyrir því að áheyrendur tækju þá upp á segulband.

Eftir því sem lengra hefur liðið frá andláti hans hefur frægðarsól Foucaults risið æ hærra, og á sama tíma hefur handritið sem hann skyldi eftir nánast tilbúið á dánarbeðinu, „Játningar holdsins,“ (fr. Les aveux de la chair), öðlast allt að því goðsagnakenndan sess í fræðunum – tilbúin en óútgefin bók. Einhvers konar Chinese Democracy eða Smile heimspekisögunnar. Pressan hefur því auksit á lífsförunaut Foucaults, Daniel Defert, að gefa bókina út. Það skal látið ósagt hvort pressan hafi haft tilætluð áhrif, en eflaust vill Defert sjá til þess að rétt sé staðið að útgáfunni áður en hann sjálfur fellur frá, en hann er sjálfur orðinn áttræður.

Það er ansi ólíklegt að innihald bókarinnar muni gjörbylta hugmyndum okkar um heiminn eða heimspeki Michels Foucault, það hversu mikið efni frá síðustu árum hans hefur nú verið gefið út, gerir það að verkum að hægt er að gera sér nokkuð vel í hugarlund hvað hann var að pæla á ritunartímanum, en hún mun þó auðvitað fylla í fjölmargar eyður.

Í bókinni notar hann að öllum líkindum frumkristna texta, lífsreglur úr klaustrum og annað slíkt til að sýna hvernig hin fagurfræðilega nálgun Grikkjanna á sjálfið þróaðist yfir í hina kristnu sjálfsskoðun. Sjálfið var því ekki lengur í huga fólks hlutur sem hægt var að móta í fagurt listaverk með lífsákvörðunum sínum heldur var það óbreytanlegt fyrirbæri sem bjó innra með okkur. Einstaklingur þurfti að leita að því, afkóða og hreinsa með játningum fyrir prest, sjálfan sig eða guð. Það er einmitt í þessum athöfnum sem Foucault telur að hin nútímalega hugmynd um einstaklinginn og sjálfsveruna hafi fæðst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.