fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Úti að leika með Flóna

Hinn 19 ára Flóni hefur tekið íslensku rappsenuna með trompi með lögum eins og Tala saman, Trappa og Leika

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 8. febrúar 2018 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vil bara gera góða tónlist og vera þekktur fyrir það. Þegar fólk heyrir nafnið Flóni vil ég að það hugsi: „hann gerir gott stöff“, en ekki bara hvernig ég lít út eða hver ég er,“ segir rapparinn Flóni, sem undir lok síðasta árs gaf út sína fyrstu plötu.

Platan, sem er samnefnd listamanninum, „Flóni“, hefur undanfarnar vikur setið í efsta sæti Tónlistans yfir vinsælustu plötur landsins og lokalagið Ungir strákar – deep mix er mest spilaða íslenska lagið á Spotify um þessar mundir.

Á plötunni heldur síhraðari þróun íslensks hip-hops áfram. Tónlistin leikur sér á mörkum trap-tónlistar, poppaðs r’n’b og danstónlistar, hljóðheimurinn oftar en ekki kaldur, melódíurnar grípandi og textarnir tilfinningaþrungnir. Öll sjónræn framsetningin er í takt við hljóðmyndina, vel fágað útlit sem minnir kannski helst á drungalega ameríska hasarmynd. Það er myrkur og rétt glittir svo í tónlistarmanninn í gegnum eldblossa eða brotið gler, hann heldur til aftast í skugganum, alvarlegur og í þungum þönkum.

Af fiðlunni í trappið

Flóni er tæplega tvítugur, fæddur árið 1998, skírður Friðrik Jóhann Róbertsson. Pabbi hans er slóvenskur en mamma hans hálf-svissnesk og hálf-íslensk, hann hefur þó búið hér á landi alla ævi, er úr Vesturbænum og kann ekki stakt orð í slóvensku. Viðurnefnið Flóni festist snemma við hann. „Það var mikið orðagrín hjá okkur vinunum þegar við vorum yngri. Ég var til dæmis kallaður Fliðrik og það varð svo einhvern veginn að Flóni. Ég var kannski smá flón þegar ég var yngri – ég viðurkenni það – en ég er það ekki lengur.“

Tónlistin hefur lengi verið hluti af lífi Flóna og lærði hann meðal annars á píanó og fiðlu þegar hann var yngri. „Það hefur alltaf verið tónlist í kringum mig. Ég byrjaði í fimm ára bekk að æfa, pínulítill stubbur með fiðlu – frekar fyndið. Ég var aldrei sérstaklega góður í að lesa nótur, en var strax með frekar gott tóneyra þannig að þegar ég var að spila með öðrum hljóðfærum fylgdi ég bara eftir því sem hinir voru að spila,“ segir Flóni.

„Ég æfði í svona 6 ár, en þá nennti ég ekki lengur að vera í klassískri tónlist. Mér fannst þetta ekki nógu spennandi. Klassík getur verið yndisleg og flott, en þessa dagana sækist ég eftir einhverju öðru í tónlist en því sem maður fær úr klassískri tónlist.“

Þarf enga pössun

„Ég byrjaði að gera hip-hop og r’n’b tónlist fyrir svona einu og hálfu eða tveimur árum. Ég byrjaði að fikta við að gera „beats“ og eitthvað með tveimur vinum mínum, Viktori Erni og Jökli Breka. Við vorum mikið að hafa kósí, hlusta á einhver „sounds“ og reyna að búa til eitthvað svipað. Svo þegar ég var einn var ég að leika mér að setja fallegar melódíur yfir þetta. Því meira sem ég gerði því betra varð það og þetta vatt upp á sig. Á endanum var maður kominn með ákveðið „vision“ fyrir því sem maður vildi gera.“

Án þess að hafa gefið nokkuð út opinberlega fór nafn Flóna að breiðast út meðal íslenskra rappáhugamanna og óútgefin demó skiptu um hendur í tölvupóstum. „Þegar ég byrjaði að fikta fór ég að senda á strákana eitt og eitt lag. Fljótlega voru þau svo komin í frekar mikla dreifingu. Fólk var farið að deila pökkum með einhverjum 20 demóum sem áttu aldrei að koma út. Þess vegna var fólk farið að heyra eitthvað af lögunum og velta fyrir sér hver ég væri. Þannig að ég var frekar „underground“ í byrjun,“ segir Flóni.

Síðasta sumar var nafnið svo komið í meginstrauminn þegar hann birtist sem gestalistamaður á plötu Joey Christ og var þar einnig nefndur í einu vinsælasta lagi sumarsins, Joey Cypher, en þar spyr rapparinn Birnir bróðurlega: „Hver er að passa upp á Flóna?“

Flóni sjálfur gefur lítið fyrir að það þurfi eitthvað að passa upp á hann – „það ætti frekar einhver að passa upp á Binna,“ segir hann.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tónlistin sem útrás

Ólíkt flestum vinsælum röppurum um þessar mundir smíðar Flóni lögin sín að mestu leyti sjálfur frá grunni – hann „pródúserar“ tónlistina eins og það er yfirleitt kallað. Félagarnir Jökull Breki og Viktor Örn koma einnig að tónlistinni, auk þess sem Logi Pedro hefur séð um að mixa. Flóni segir hljóðvinnsluforritið Logic vera hans helsta hljóðfæri við lagasmíðarnar, en forritið segir hann sérstaklega henta vinnuaðferðum sínum.

„Ég vinn ótrúlega hratt. Ég skrifa til dæmis eiginlega aldrei textana mína niður áður en ég tek upp, heldur „freestyle-a“ bara og skrifa svo út frá því. Ég er alltaf bara „catching the vibe,“ að fanga það hvernig mér líður og hvernig hlutirnir eru á því augnabliki.“

Hvað er það sem þú vilt ná fram með tónlistinni, hvenær veistu að þú sért með eitthvað í gott í höndunum?

„Ef mér finnst ég hafa myndað þá tilfinningu sem ég er að reyna að gefa frá mér. En það getur líka verið ef ég næ að finna einhverja fallega laglínu, eða gera eitthvað „sánd“ sem enginn annar á Íslandi er að gera. En það er mikilvægast að lagið nái til manns á einhverju tilfinningalegu „leveli“, þá fer manni að þykja vænt um það. Þá sér fólk að þetta er frekar einlægt og gott og tengir kannski við það.“

Það er áhugavert að þú talar um einlægni og tilfinningar, því rapptónlist í gegnum tíðina hefur oftar verið tengd við töffaraskap og harkalega karlmennsku. Mér sýnist þú – eins og æ fleiri rapparar i dag – vera óhræddur við að sýna viðkvæmni og semja um eigið óöryggi.

„Já, fyrir mig snýst þetta ekki um að vera eitthvað að sýna mig eða reyna að vera nettur fyrir annað fólk. Tónlistin er meira eins og útrás fyrir mig: „svona leið mér á ákveðnu tímabili og þess vegna birtist það svoleiðis í einhverju lagi.“ Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að vera fyrir framan eitthvert fólk. Mér er alveg sama um það, ég er bara að þessu fyrir tónlistina.“

Það má segja að alveg frá upphafi hafi eitt helsta umfjöllunarefni popptónlistarinnar verið þeir kraftar sem toga okkur út úr leiðigjörnum hversdagsleikanum: þrá og algleymi, vellíðan og annað vitundarstig, ást og ölvun, losti og víma. Það er þó langt síðan að augljósar vísanir í vímuefni voru jafn alltumlykjandi í íslensku poppi og þær eru í rapptónlistinnii í dag – og þar eru textar Flóna engin undantekning. En af hverju eru íslenskir rapparar að syngja svona mikið um dóp?

„Maður syngur bara um „sjittið“ sem er í gangi í lífi manns á hverjum tíma, og maður dílar bara við það eins og það er. Ég er samt ekki að sýna þetta eins og eitthvað sem fólk ætti að líta upp til. En lífið er bara fokking lífið. Fólk glímir við hluti og það er alls konar sjitt í gangi hjá alls konar fólki og manni sjálfum. Lífið er bara rússíbani og það eru alls konar „distractions“ allt í kringum mann.“

Heimur Flóna

Þú talar um að þú sért ekkert mikið fyrir það að sýna þig fyrir öðru fólki. Er það ástæðan fyrir því að í allri sjónrænni framsetningu á tónlistinni ert þú sjálfur frekar ógreinilegur og dularfullur í bakgrunninum? Sem minnir mig líka á það að þú ert ekki búinn að gera mikið af tónlistarmyndböndum eins og margir aðrir rapparar i senunni.

„Já, Ég er ekkert mikið fyrir það að allir viti hvernig ég lít út eða eitthvað þannig. Ég hef bara viljað vera „low-key“. Myndbandið við „Alltof hratt“ var til dæmis ekki hugsað eins og týpískt tónlistarmyndband sem átti að verða mjög vinsælt. Hugmyndin var freka að gefa fólki ímynd af því „vision-i“ sem ég hafði með plötunni, þannig að þetta myndi meika sens sem hluti af einhverri heildarmynd. Þarna getur fólk séð hvað „mood“ ég er að vinna með og tengir kannski betur.“

Þrumur og eldingar yfir regnvotri og myrkri Reykjavík, veipgufur og óveðurský, innan um blikkandi led-ljós dansar Flóni í glansandi pleðurúlpu, hraðar klippingar, endurkast, brotnir speglar. Litapalletan er fábrotin, nánast bara svört, grá og köld hvít birta. Þetta er heimur Flóna.

Og þetta er heimurinn sem hann heldur áfram að þróa í stúdíóinu þessa dagana. Hann vill þó engu lofa um hvað taki við – hvort hann sé byrjaður að huga að næstu plötu eða öðrum stórum verkefnum. Hann einbeitir sér bara að því að semja tónlist og svo kemur allt annað í ljós. „Eina sem ég geri þessa dagana er að vera niðri í stúdíói að gera tónlist. Maður er alltaf að vinna að nýrri tónlist, og ég geri það svo hratt að ég gæti jafnvel verið búinn að gefa út sex, sjö plötur – en maður verður að hafa einhvern hemil á sér.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum