fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Farandleikhús í fjarkennslu

Bryndís Schram fjallar um sýningu Gaflaraleihússins, Í skugga sveins

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 19. febrúar 2018 09:10

Skugga Sveinn Kristjana Skúladóttir og Karl Ágúst Úlfsson í hlutverkum sínum í Í skugga Sveins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Bryndís Scrhram.

Það er alveg satt, sem einhver hafði á orði um daginn, að þótt Íslendingar standi sig illa í Pisa-könnunum og geti, að sögn, hvorki lesið sér til gagns né leyst stærðfræðiþrautir, þá virðast þeir búa yfir óvenjulegri sköpunarþörf – ástríðu sem finnur sér birtingarform í tónlist, myndlist, leiklist – jafnvel í klæðaburði, framkomu, hispurleysi, áræði….

Þessi gróska í mannlífinu vekur strax athygli erlendra gesta – það er að segja ef þeir gefa sér einhvern tíma til að glugga í samfélagið, í stað þess að glápa upp í himininn í leit að norðurljósum. Þúsundir Airwaves-gesta vitna um þetta. Og ef þeir skildu nú tungumálið okkar líka, þá yrðu þeir enn meira hissa, því að hér spretta upp leikhús eins og blóm á vori. Mönnum liggur mikið á hjarta, og vilja láta til sín taka í þjóðfélagsumræðunni. Koma sínum skoðunum á framfæri, breyta þjóðfélaginu. Gera lífið betra og heilbrigðara. Því að leikhúsið er í sjálfu sér skóli, vettvangur þjóðfélagsumræðu, eins konar spegilmynd af þjóðfélaginu hverju sinni.

Þetta er mér efst í huga, eftir að hafa séð pælingar Karls Ágústar Úlfssonar á sviði Gaflaraleikhússins í Hafnarfirði um helgina – Í skugga Sveins. Já, honum liggur mikið á hjarta, honum Karli Ágústi. Líklega ofbýður honum firringin, fáviskan og tómlætið gagnvart forfeðrum okkar og mæðrum, sem löptu dauðann úr skel og áttu hvorki til hnífs né skeiðar, stálu sér til matar og urðu að gjalda þess, fjarri mannabyggð – útlagar, dæmdir menn.

„Fátæklingar stálu sér til matar, en hinir ríku arðrændu fátæklingana“. Ef við lærum ekkert af sögu eigin þjóðar, þá eigum við enga framtíð heldur. Fortíðin verður ekki umflúin. Framtíðin verður því aðeins skárri, að við lærum af fortíðinni.

Karl Ágúst Úlfsson er löngu þjóðkunnur maður, sem lætur þó lítið yfir sér – kannski óþarflega. Hann er ástríðufullur rithöfundur, þýðandi, leikskáld og leikari, sem jafnframt pælir í þjóðmálum. Hver man ekki eftir Spaugstofunni, sem í tuttugu ár samfellt sló öll áhorfsmet í ríkissjónvarpinu okkar? Karl Ágúst var sá, sem lagði þar mest til mála. Ekkert var honum óviðkomandi, samfélagið allt lá undir. Það var stungið á kýlum, gagnrýnin var miskunnarlaus – en átti samt rétt á sér. Það er eftirsjá af slíkri umfjöllun á opinberum vettvangi.

Og hver var svo þessi Skugga Sveinn, sem Karli Ágústi er svo hugleikinn um þessar mundir? Hann er líklega einhver frægasta persóna íslenskra sagna – eins konar samnefnari fyrir hina ólánsömu fátæklinga allra tíma, sem er refsað að ósekju og gerast „ógnvaldur byggðafólksins“ – utangarðsmenn sem allir óttast og fyrirlíta. Um leið er þetta ástarsaga, sem fær góðan endi. Þetta er líka saga um stéttskiptingu, menntamannahroka og auðmýkt hinna forsmáðu. – Matthías Jochumsson segir sjálfur, að hann hafi „sullað saman“ sér til gamans, þessu leikverki um Svein, þegar hann var í fimmta bekk Latínuskólans. Geri aðrir betur!

Og það er ekki að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, að leika sér með texta sjálfs þjóðskáldsins, Matthíasar. En það verður að segjast eins og er, að textarnir í söngleiknum reynast vera hagleikssmíð og hljóma vel í munni leikenda.

Og nú eru þau öll gengin aftur á sviðinu í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði – Skugga Sveinn, Ketill skrækur, Grasa-Gudda, Gvendur smali, Laurenzius sýslumaður, Jón sterki, Ásta og Haraldur. Allt þjóðkunnar persónur, átta manns. – En aðeins þrír leikendur, þau Karl Ágúst, Kristjana og Eyvindur.

Þar með hefst galdraverkið – spuninn. Aldeilis ótrúlegt! Hún Ágústa, leikstjórinn, hefur haft úr nógu að moða, umkringd listafólki, sem kann vel til verka, fólki, sem tekur stjórn, en er jafnframt frjótt og skapandi. Flæðið rennur fyrirhafnarlaust, ekkert hik, engar tafir. Gaman.

Leikmyndin sjálf og lýsingin eru afar lagi þægileg fyrir augað, skapar viðeigandi umgerð, sem er ævintýraleg, en um leið hrollvekjandi. Leikmunir allir bera vott um frjótt ímyndunarafl og hagkvæmni, þannig að Grasa-Gudda og Ketill skrækur geta með einni höfuðskreytingu breyst í íðilfagra Ástu, sem dregur Harald, yrðlinginn í helli Sveins, á tálar og kennir honum á lífið. Og Haraldur réttir út höndina og verður á svipstundu aftur sögumaður eða bara Helgi stúdent.

Karl Ágúst þekkjum við frá fornu fari. Hann getur brugðið sér í allra kvikinda líki, sungið eins og engill, spilað á hljóðfæri, dansað, ef svo ber undir, verið undirgefinn og ljúfur eða forhetur og grimmur.

En Kristjönu höfum við ekki séð áður – hún er greinilega upprennandi stjarna. Eins og Karl Ágúst getur hún líka allt – hefur fallega rödd, volduga og tónvissa, hreyfir sig eins og dádýr, fislétt og fjaðurmögnuð, ýmist sem hin ástfangna Ásta, brosandi og fögur, mjóróma Ketill, ávallt til þjónustu reiðubúinn eða hinn hégómlegi Laurenzíus sýslumaður, sem bregður fyrir sig latínu í tíma og (einkum) ótíma.

En hvað með Skugga-Svein sjálfan? Ógnvekjandi nærvera hans og drynjandi bassarödd í bakgrunni sviðsins minna okkur á, að líf útlagans var ekki leikur, heldur dauðans alvara. Eyvindur Karlsson var bara eins og fæddur í hlutverkið – og tónlist hans gefur gjörningnum dýpri og dramatískari merkingu.

Þegar upp er staðið, er augljóst, að þetta leikrit – eða söngleikur – á erindi við alla – einkum í skólum landsins, þangað sem við leggjum leið okkar til að ná jarðsambandi við fortíðina. Það mundi gefa kennslunni í skólastofunni líf og lit. Menntamálayfirvöld,sem þessi misserin sæta þungum ákúrum fyrir dauðyflishátt og lélegan árangur nemenda, mundu gera margt vitlausara en að hleypa lífi í það, sem fram fer í skólastofunni með því að opna dyr sínar fyrir þessu farandleikhúsi Skugga-Sveins.

Karl Ágúst notar aðeins fimm setningar úr Skugga-Sveini Matthíasar, að eigin sögn, en nýtir sér engu að síður skilaboðin, sem það verk flytur okkur. Um misréttið, stéttskiptinguna, forréttindi hinna ríku, vesöld hinna fátæku. Hver er þessi þjóð, Íslendingar? Hvaðan kom hún, á hvaða ferðalagi er hún? „Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur? Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?“ Það er hin stóra spurning, sem þjóðskáldið Jónas spurði í upphafi þessarar vegferðar í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar.

Og það er okkar að finna svarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“