fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024

Ef fangar fengju að semja lög

Tónlistariðkun hefur sannað gildi sitt fyrir fanga – Nánast engin aðstaða til tónlistarsköpunar í fangelsum landsins – Stendur til að opna tónlistarherbergi á Sogni

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 16. febrúar 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru mörg vannýtt tækifæri í notkun tónlistar fyrir betrun fanga og það er nánast engin aðstaða til tónlistariðkunar í íslenskum fangelsum.

Þetta er niðurstaða Þráins Þórhallssonar, nema í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands, sem hefur að undanförnu skoðað aðstöðu íslenskra fanga og möguleika til tónlistariðkunar, auk þess sem hann hefur kynnt sér árangur ýmissa tónlistartengdra verkefna sem unnin hafa verið í erlendum fangelsum.

Sem hluta af lokaritgerð sinni ræddi hann við nokkra tónelska fanga, fulltrúa fangelsisyfirvalda og tónlistarkennara, og voru niðurstöður ritgerðarinnar kynntar á ráðstefnunni Hugarflug í LHÍ í síðustu viku.

Betra en góður sálfræðitími

Fyrir utan hin jákvæðu áhrif tónlistariðkunar á fanga – hvernig tónlistin getur aukið lífsgæði, haft góð áhrif á sálræna heilsu, verið valdeflandi og stuðlað að ýmsum eiginleikum sem nýtast þegar snúið er aftur út í samfélagið – segir Þráinn mega velta fyrir sér hvort það sé ekki hluti af réttindum einstaklinga að fá að iðka tónlist í fangavistinni. „Fangar hafa rétt til náms, og eins og ég skil það ættu þeir líka – samkvæmt mannréttindasáttmálunum – að hafa rétt til tónlistarnáms,“ segir hann í samtali við blaðamann DV.

Aðstaða til tónlistarsköpunar í íslenskum fangelsum er hins vegar langt frá því að vera ásættanleg að hans mati. „Föngum í íslenskum fangelsum býðst nánast engin aðstaða til tónlistariðkunar. Fangelsin eiga bara tvö hljóðfæri, eitt píanó á Kvíabryggju og eitt á Litla-Hrauni. Og mér skilst að þau séu afskaplega lítið notuð af föngunum,“ segir Þráinn.

Enn fremur eru engin formleg tónlistarverkefni eða -nám í boði fyrir fanga um þessar mundir en þeir mega þó – í ákveðnum tilvikum – taka með sér hljóðfæri og nota í fangelsinu. Hann segir að einhverjir nýti sér þetta og njóti góðs af. „Þeir sem hafa eitthvað verið að fást við tónlist sækja eflaust í hana, en vandamálið er auðvitað fyrir þá sem myndu vilja byrja – það er erfiðara.“

Þráinn leggur áherslu á hin jákvæðu, sálrænu áhrif tónlistariðkunar og vitnar þar meðal annars í tvo fanga sem hann ræddi við: „Viðmælendur mínir segja að þeir sæki mikið í hljóðfærin sín, gítar og upptökuforrit og fleira. Þeir tala báðir um að með því komist þeir alveg í nýjan heim, gleymi öllum áhyggjum, stað og stund – þarna fái þeir sem sagt ákveðið frelsi. Annar fanganna lýsir því að tónlistariðkunin sé betri en góður sálfræðitími.“

Upptökuver í fangelsinu

Fangar í Halden-fangelsinu taka upp og gefa út eigin tónlist
Upptökuver í fangelsinu

Víða erlendis reyna fangelsisyfirvöld að virkja betrunarmátt tónlistarinnar fyrir fanga. Eitt besta dæmið er líklega hið stórmerkilega Halden-öryggisfangelsi í Noregi – sem hefur stundum verið kallað „besta fangelsi í heimi.“ Þar er ýmis aðstaða sem nýtist föngum til ýmiss konar sköpunar. Þar er ekki bara boðið upp á námskeið og vinnusmiðjur, heldur er þar einnig fullbúið hljóðver sem fangarnir geta nýtt sér til að taka upp tónlist eða senda út útvarpsþætti. Tónlist fanganna er svo gefin út hjá þeirra eigin útgáfufyrirtæki, sem nefnist Criminal Records.

Sjálfstraust, stolt og bætt samskipti

Þráinn nefnir að svokallaðar tónlistarsmiðjur hafi sannað gildi sitt í mörgum erlendum fangelsum og nefnir meðal annars rannsóknir sem bresku samtökin Music Behind Bars hafa framkvæmt: „Rannsóknir á áhrifum tónlistarvinnusmiðja í fangelsum erlendis sýna að þær skila ótrúlega miklum árangri. Árangurinn felst aðallega í betri líðan fanga, auknu sjálfstrausti og betri sjálfsmynd. Þessi námskeið hafa líka bætt samskipti fanganna, bæði þeirra á milli og gagnvart starfsmönnum, en svo líka við fjölskyldu og vini utan múranna.“

Er eitthvað hægt að segja um af hverju tónlistarsmiðjurnar hafa þessi áhrif?

„Allar listasmiðjur eiga það sameiginlegt að þær hvetja fólk til að skapa eitthvað nýtt, maður er að taka við upplýsingum og bregðast við þeim til að skapa eitthvað nýtt. Þetta er gott í sjálfu sér. Eitt af því sem tónlistin hefur svo fram yfir aðra listsköpun er að hún byggist oft upp á hópvinnu. Ef menn eru í skartgripagerð vinnur hver og einn að sínum hlut, en þarna sameinast allir um að búa eitthvað til í sameiningu. Þá þarf að vinna saman og komast að einni sameiginlegri niðurstöðu, hver og einn er háður því að hinir geri sitt vel. Þetta er mjög gott upp á samskipti.

Í tónlistinni er líka vettvangur til að segja sögu – það eru svo ótal margar sögur sem þessir einstaklingar geta sett fram í formi tónlistar. Í þessum smiðjum er oft unnið að einu lagi í sameiningu og svo þegar traustið er komið hafa fangar getað komið með sínar eigin hugmyndir – þar þurfa menn að opna sig og læra að treysta öðrum fyrir einhverju. Þetta eru alveg nýjar aðstæður fyrir marga fanga.

Tónlistarsmiðjurnar enda svo yfirleitt á tónleikum. Þá fær fólk að miðla þessari sköpun sinni. Það gefur þátttakendunum bæði stolt og hugrekki.“

Í gegnum tíðina hafa verið nokkur vel heppnuð tónlistarverkefni í íslenskum fangelsum að sögn Þráins. Hann bendir á hljómsveitina Fjötra sem var stofnuð af föngum á Litla-Hrauni snemma á níunda áratugnum og gaf út plötuna Rimlarokk árið 1982, en öll umgjörð hennar var unnin af föngum. Þá var Fangakórinn, kór skipaður átta til tíu föngum, starfræktur á Litla-Hrauni frá 2004 til 2006. Árið 2006 kom Sigrún Sævarsdóttir með hóp nemenda úr Listaháskóla Íslands sem vann tónlistarverkefni með föngum – verkefnið var svo endurtekið tveimur árum síðar að frumkvæði fanganna sjálfra.

Rimlarokk á Hrauninu

Rokksveitin Fjötrar var einungis skipuð föngum á Litla-Hrauni

Hljómsveitin Fjötrar var á forsíðu DV 31. ágúst 1982

Hljómsveitin Fjötrar var á forsíðu DV 31. ágúst 1982

Það eru þó nokkur dæmi um að fangar í íslenskum fangelsum hafi samið eða tekið upp tónlist þegar þeir sátu inni. Það eru þó fáar hljómsveitir sem hafa verið stofnaðar og starfað að öllu leyti innan rimlanna – kannski sú eina, eða að minnsta kosti sú allra þekktasta, er hljómsveitin Fjötrar sem gaf út plötuna Rimlarokk árið 1982.

„Bubbi kom einhvern tímann í heimsókn á Litla-Hraun og var svona ofboðslega ánægður með hvað það var mikil tónlistargróska í fangelsinu. Hann fór að tala um að hann þyrfti nú að fá einhverja fanganna með sér á næstu plötu. Svo varð eitthvað lítið um efndir í þessum efnum og fangarnir voru orðnir langþreyttir á að bíða eftir símtali frá Bubba svo þeir fóru bara sjálfir í að stofna hljómsveit,“ segir Þráinn.

„Það var mikið komið móts við þá. Svo var öll umgjörðin unnin af föngum, umslagið og allt gert inni á Litla-Hrauni. Í viðtali við DV lýsir Sævar Ciesielski gítarleikari tónlistarlífinu í fangelsinu og það virðist vera sem nánast hver einasti maður sé að gutla á hljóðfæri eða pæla í tónlist. Þetta virðist vera það sem menn hafa fyrir stafni þegar það er frítími.

Páll Winkel fangelsismálastjóri, sem er einn viðmælenda minna í ritgerðinni, segir að ástandið á Litla-Hrauni hafi breyst mikið frá þessum tíma. Hann segir að það sé „miklu harðari kjarni“ sem sé í fangelsinu og aðstæðurnar í því öðru vísi. Ég hugsa reyndar líka að aðgangur að afþreyingu sé orðinn allt annar í dag. Árið 1982 var ekki einu sinni sjónvarp á fimmtudögum. Í dag geta menn verið í tölvuleikjum og öðru slíku. Ég held að þetta spili stóran þátt.“

Skortur á fjármagni

Þráinn segir fangelsisyfirvöld vita af árangri þessara smiðja og þau séu mjög opin og spennt fyrir slíkum verkefnum, það sé ekki við þau að sakast heldur liggi vandamálið annars staðar.

„Ástæðan fyrir því að þetta hefur ekki verið í boði er kannski tvíþætt,“ segir hann.

„Í fyrsta lagi er það skortur á peningum. Fangelsin hafa varla nóg fjármagn í grunnkostnað til að reka fangelsið, og þurfa þá að réttlæta hverja einustu krónu sem er notuð aukalega og sýna fram á árangur. Þarna skapast svo ákveðin sjálfhelda. Það þarf strax að vera hægt að að sýna fram á árangur áður en fjármagn fæst í verkefnið. Þannig þarf einhver annar að kosta verkefnið fyrst og sýna fram á árangurinn bara til þess að eiga einhvern möguleika á fjárveitingu – það eru fáir sem stökkva á þetta,“ útskýrir Þráinn.

„Hitt vandamálið er að það þarf að vera mjög ákveðin týpa sem getur séð um þetta, þú gengur ekki bara inn í fangelsi og byrjar með listasmiðju, þetta þarf að vera mjög skýr einstaklingur – með regluverkið á hreinu – en líka mjög skemmtilegur og áhugaverður. Listamenn og aðrir þeir sem hafa menntun til að gera þetta velja sér hins vegar mun frekar einhvern auðveldari starfsvettvang, vinnu með börnum eða annað slíkt.“

Þráinn segir þó ýmis teikn á lofti hvað varðar aðstöðu fanga og til standi að Lionsklúbburinn í Mosfellsbæ gefi fangelsinu á Sogni hljóðfæri sem verði aðgengileg í kennslustofunni þar. Gjöfin, sem er að undirlagi Andrésar Arnalds, verkefnastjóra hjá Landgræðslunni og föður tónlistarmannsins Ólafar Arnalds, mun gjörbylta aðstöðu fanganna til tónlistariðkunar, að sögn Þráins. Hún mun til að mynda gera tónlistarkennslu og tónlistarsmiðjur mögulegar á Sogni í framtíðinni.

Fangar tilnefndir til Grammy

Malavískir fangar vöktu mikla athygli fyrir tónlist sína

Tilnefnd til Grammy-verðlaunanna

Tilnefnd til Grammy-verðlaunanna

Það vakti nokkra athygi þegar platan I have no everything here var tilnefnd til Grammy-verðlaunanna árið 2016. Það sem var sérstakt við plötuna var að tónlistin var öll samin og flutt af föngum í hinu yfirfulla Zomba-öryggisfangelsi í Malaví. Í tónlistinni, sem var tekin upp af upptökustjóranum Ian Brennan, fengu raddir fanganna að heyrast og þeir fengu möguleika til að segja heiminum sögu, sína sem er – eðli málsins samkvæmt – oft harmræm og dramatisk, með lagatitlum á borð við „Ég drep ekki aftur“ og „Ég sé heiminn farast úr eyðni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Skilaboð unga drengsins segir allt um hörmungarnar í vetur

Skilaboð unga drengsins segir allt um hörmungarnar í vetur
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Lögreglan skýrir frá óhugnanlegum upplýsingum varðandi morð

Lögreglan skýrir frá óhugnanlegum upplýsingum varðandi morð
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Liverpool að hætta í Nike og fara líklega í Adidas – Fá þó ekki sömu kjör og United

Liverpool að hætta í Nike og fara líklega í Adidas – Fá þó ekki sömu kjör og United
Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

KSÍ skoðar að fara í herferð vegna veðmálafíknar

KSÍ skoðar að fara í herferð vegna veðmálafíknar