Kom sá og sigraði á Grammy-verðlaununum

Bruno Mars hlaut flest verðlaun á Grammy-verðlaunahátíðinni í nótt

Mynd: 2018 Kevin Mazur

Grammy-tónlistarverðlaunahátíðin fór fram í nótt. Það var bandaríski R'n'B-tónlistarmaðurinn Bruno Mars sem hlaut flest verðlaun eða sex talsins, fyrir breiðskífu ársins (24K Magic), smáskífu ársins, lag ársins (That’s What I Like), besta R'n'B-flutninginn, bestu R'n'B-plötuna, besta R'n'B-lagið, auk þess sem teymi hans var verðlaunað fyrir hljóðvinnslu á plötunni 24K Magic.

Velgengni Mars kom nokkuð á óvart en flestir höfðu búist við því að rappararnir Kendrick Lamar og Jay-Z myndu sópa til sín helstu verðlaununum. Lamar fékk raunar fimm verðlaun og var með fullt hús í rappflokknum, þar sem hann var verðlaunaður fyrir bestu plötu, besta lag og besta flutninginn, bæði rappaðan og sunginn. Bretinn Ed Sheeran var sigursælastur í flokki popptónlistar, Christ Stapleton í flokki sveitatónlistar og platan A Deeper Understanding með The War On Drugs var valin rokkplata ársins.

Engir Íslendinganna sem voru tilnefndir hlutu verðlaun í sínum flokkum. Kaleo þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Leonard Cohen heitnum sem var verðlaunaður fyrir besta rokkflutning, og tónlist Justin Hurwitz fyrir kvikmyndina La La Land var verðlaunuð í stað kvikmyndatónlistar Jóhanns Jóhannssonar úr Arrival í flokknum besta tónlist fyrir sjónrænan miðil. Þá má nefna að heiðurstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Finninn Osmo Vänskä, var einnig tilnefndur fyrir besta klassíska flutning á fimmtu sinfóníu Mahlers með sinfóníuhljómsveit Minnesota en tókst ekki að landa sigri.

Hægt er sjá lista yfir alla Grammy-verðlaunahafana í ár á vefsíðu verðlaunahátíðarinnar.

Sjá einnig: Grammy verðlaunin 2018: Báru hvítar rósir til stuðnings #metoo

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.