Menning

Blóðpeningar knýja listaheiminn

Hinn heimsþekkti ljósmyndari Nan Goldin segir helstu verndurum lista í samtímanum, Sackler-fjölskyldunni, stríð á hendur – Bera ábyrgð á og græða á ópíumfaraldrinum

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 27. janúar 2018 19:00

Þeir eru eflaust ófáir listunnendurnir sem hafa rekist á nafn Sackler-fjölskyldunnar á menningarrúnti sínum á undanförnum árum. Til dæmis ef þeir hafa heimsótt nýjan forgarð Victoria & Albert-safnsins eða nýlega álmu Serpentine-gallerísins í London, þann hluta Metropolitan-safnsins sem hýsir gamlar egypskar minjar eða menntamiðstöð Guggenheim-safnsins í New York. Allt ber þetta skýrt og greinilega nafn helsta velgjörðafólks umræddra stofnana; Sackler.

Í gegnum árin hafa fjölskyldumeðlimir fengið að baða sig í sviðsljósinu vegna gjafa sinna til vísinda-, háskóla- og menningarmála, en nú er athyglin hins vegar fljótt og örugglega að færast yfir á uppruna auðæfanna. Ríkidæmi Sackler-anna byggist nefnilega að miklu leyti á sársauka og fíkn annarra. Verkjalyfið OxyContin sem fjölskyldufyrirtækið framleiðir er af mörgum álitið einn helsti orsakavaldur ópíumfaraldursins sem geisað hefur í Bandaríkjunum undanfarin ár og hefur orðið 200 þúsund manns að bana frá aldamótum.

Einn þekkasti ljósmyndari heims, Nam Goldin, er á meðal þeirra sem ánetjuðust verkjalyfinu. Hún hefur nú hafið herferð þar sem markmiðið er að neyða Sackler-fjölskylduna til að bera ábyrgð á viðskiptum sínum. „Til þess að fanga athygli þeirra verðum við að ráðast á góðgerðarstarfsemina. Þau hafa þvegið blóðpeninga sína á göngum safna og háskóla víðs vegar um heiminn,“ skrifar Goldin í opnu bréfi í tímaritinu Artforum.

Blóðugar blekkingar

Auður Sackler-fjölskyldunnar varð til í fjölskyldufyrirtækinu Purdue Pharma. Það voru bræðurnir Arthur, Mortimer og Raymond sem keyptu fyrirtækið á sjötta áratugnum, byggðu upp og arfleiddu börn sín að því þegar þeir létust (sá fyrsti árið 1987 og síðasti í fyrra). Fyrirtækið fór fyrst að skila stjarnfræðilegum hagnaði eftir að það byrjaði að framleiða og selja verkjalyfið OxyContin árið 1995.

Lyfið þótti byltingarkennd nýjung á verkjalyfjamarkaðnum. Töflurnar voru gerðar úr oxýkódoni, verksmiðjuhannaðri afleiðu af ópíum – svokölluðum ópíóðum – sem hefur verið kölluð efnafræðileg frænka heróíns. Læknar voru hins vegar smeykir við að skrifa upp á svo ávanabindandi efni nema sem allra síðasta úrræði þannig að Purdue Pharma lagðist í mikla markaðsherferð til að breyta viðhorfunum. Fyrirtækið fjármagnaði rannsóknir og borgaði læknum sem voru jákvæðir í garð efnanna rausnarlega.

Um áratug seinna viðurkenndu þrír yfirmenn í fyrirtækinu við sakamálarannsókn að hafa blekkt eftirlitsyfirvöld, lækna og sjúklinga, logið til um hversu ávanabindandi lyfið væri og hversu auðvelt væri að misnota það. Árið 2007 þurfti fyrirtækið því að greiða 600 milljónir dollara í sekt fyrir blekkingarnar – en þá var skaðinn löngu skeður.

Mynd: Reuters

Medici-ætt nútímans

OxyContin var ávísað frjálslega í upphafi og varð neysla þess og misnotkun strax mikil, æ fleiri urðu háðir lyfinu. Auðvelt var að brjóta töflurnar niður í duft, sjúga upp í nef, gleypa eða sprauta efninu í æð til að það virkaði hraðar og kröftugar.

Eftir því sem eftirlitsyfirvöld reyndu að hemja neysluna og misnotkunarmöguleika sneru notendur sér í auknum mæli að öðrum skyldum vímuefnum á borð við heróín. Fjórir af hverjum fimm heróínneytendum í Bandaríkjunum í dag eru sagðir hafa leiðst þangað út frá neyslu lyfseðilsskyldra verkjalyfja. Fíkn í ópíumefni hefur aukist gríðarlega frá því að OxyContin kom á markað og hafa 200 þúsund Bandaríkjamenn látist vegna fíknarinnar frá árinu 1999. Tvö nýleg og áberandi dæmi um þetta eru tónlistarmennirnir Prince og Tom Petty.

Á meðan ópíumfaraldurinn hefur geisað hefur Sackler-fjölskyldan verið dugleg að fjármagna ýmiss konar mennta- og menningarstarfsemi og fengið nafn sitt veggfóðrað á virtustu listastofnanir beggja vegna Atlantshafsins. Raunar hefur fjölskyldan verið svo aðsópsmikil í listalífinu að hún hefur stundum verið kölluð Medici-fjölskylda samtímans – og er þá líkt við flórenska viðskiptafjölskyldu sem hélt uppi listalífi Ítalíu á seinni hluta miðalda. Fjölskyldunni hefur verið hampað sem dæmi um hvernig ríkir kapítalistar geti gert heiminn að betri stað. Nú er hin jákvæða ímynd fjölskyldunnar óðum að molna, meðal annars eftir ítarlega grein um fjölskylduna í The New Yorker undir lok síðasta árs.

Ljósmyndarinn hefur sagt Sackler-fjölskyldunni stríð á hendur.
Nan Goldin Ljósmyndarinn hefur sagt Sackler-fjölskyldunni stríð á hendur.

Mynd: Nan Goldin

Þrýstingur á söfnin

Sem fyrr segir er Nan Goldin í hópi þeirra sem hafa ánetjast hörðum vímuefnum eftir að hafa fengið uppáskrifað OxyContin hjá lækni. Hún er einn áhrifamesti ljósmyndari samtímans og segir frá reynslu sinni í opnu bréfi í ArtForum og viðtali við breska dagblaðið The Guardian.

Goldin hefur frá áttunda áratugnum tekið opinskáar heimildaljósmyndir af jaðarsamfélögum, meðal annars gefið magnaða innsýn í heim dragdrottninga og samfélög samkynhneigðra. Í upphafi níunda áratugarins var hún hluti af og ljósmyndaði hóp fólks sem var í harðri vímuefnaneyslu og lifði óhefðbundnu og óhefluðu lífi. Berskjaldaðar myndir hennar af ofbeldi, kynlífi og vímuefnaneyslu hafa haft gríðarleg áhrif langt út fyrir ljósmyndaheiminn.

Árið 2014 skrifaði læknir upp á OxyContin fyrir hana vegna sinabólgu í úlnlið. Hún var óvirkur fíkill og varð umsvifalaust háð verkjalyfinu og þegar læknar hættu að vilja skrifa upp á það leitaði hún, eins og svo margir aðrir, á svarta markaðinn – og svo að öðrum vímugjöfum. Eftir að hún kom úr meðferð í mars í fyrra sökkti hún sér ofan í rannsóknir á ópíumfaraldrinum og ástæðum hans. „Mér finnst ég skulda þeim sem faraldurinn hefur haft áhrif á að ég geri þessa persónulegu reynslu pólitíska,“ segir hún.

Eftir að Goldin komst að því að Sackler-fjölskyldan bæri ábyrgð á útbreiðslu OxyContin fór hún af stað með herferð þar sem markmiðið er að neyða fjölskylduna til að gangast við ábyrgð sinni. Hún vill að fjölskyldan noti auðæfi sín til að fjármagna forvarnir og meðferðarúrræði fyrir fíkla, frekar en í að fá nýbyggingar í virtum listasöfnum nefnd eftir sér.

Um leið vill hún að menningarstofnanirnar hætti að taka við fjármunum frá fjölskyldunni: „Ég er ekki að biðja söfnin um að skila peningunum, en ég vil ekki að þau taki við meiru frá Sackler-fjölskyldunni, og ég vil að þau sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu við herferð mína.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 3 dögum

Mannfræði á krakkamáli – Börn vinna með fyrirbærið þjóð

Mannfræði á krakkamáli – Börn vinna með fyrirbærið þjóð
Menning
Fyrir 3 dögum

SKÚLPTUR 2018 – Sköpunarkraftur Gerðar Helgadóttur leiðarstef

SKÚLPTUR 2018 – Sköpunarkraftur Gerðar Helgadóttur leiðarstef
Menning
Fyrir 5 dögum

Rokkhátíðin Eistnaflug býður upp á fleira en rokk – Sjósund, jóga, fyrirlestrar, hlaup

Rokkhátíðin Eistnaflug býður upp á fleira en rokk – Sjósund, jóga, fyrirlestrar, hlaup
Menning
Fyrir 5 dögum

Flytja tónlist eftir David Bowie í Hörpu: „Þetta var mikið áfall en við urðum að fara aftur á sviðið og halda áfram að spila“

Flytja tónlist eftir David Bowie í Hörpu: „Þetta var mikið áfall en við urðum að fara aftur á sviðið og halda áfram að spila“
Menning
Fyrir 6 dögum

Kvikmyndir í vinnslu um fótboltastrákanna í Taílandi: „Ég neita að leyfa Hollywood að hvítþvo þessa sögu“

Kvikmyndir í vinnslu um fótboltastrákanna í Taílandi: „Ég neita að leyfa Hollywood að hvítþvo þessa sögu“
Menning
Fyrir 1 viku

Rokkhátíðin Eistnaflug fer vel af stað – Eftirpartý í Blúskjallaranum

Rokkhátíðin Eistnaflug fer vel af stað – Eftirpartý í Blúskjallaranum
Menning
Fyrir 1 viku

Til hamingju með stórafmælið Helgi – „Þú ert eins og gott burgundy, verður bara betri með hverju árinu“

Til hamingju með stórafmælið Helgi – „Þú ert eins og gott burgundy, verður bara betri með hverju árinu“
Menning
Fyrir 1 viku

John Grant gefur út lag af væntanlegri plötu – Love is Magic kemur út 12. október

John Grant gefur út lag af væntanlegri plötu – Love is Magic kemur út 12. október