fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Stríðið um Volksbühne

Þekktasta framúrstefnuleikhús Evrópu tekið yfir af mótmælendum sem gagnrýna stefnu nýs leikhússtjóra

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 30. september 2017 14:00

Þekktasta framúrstefnuleikhús Evrópu tekið yfir af mótmælendum sem gagnrýna stefnu nýs leikhússtjóra

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á föstudag í síðustu viku tók hópur mótmælenda yfir Volksbühne-leikhúsið í Berlín og hefur þar stofnað sitt eigið alþýðuleikhús. Hústökufólkið kveðst óttast að nýr leikhússtjóri muni gera þetta víðfræga framúrstefnuleikhús of poppað og peningamiðað.

Framúrstefna og skítur

Volksbühne-leikhúsið er rúmlega einnar aldar gamalt og hefur markmið þess frá upphafi verið að færa metnaðarfulla leiklist til berlínskrar alþýðu á viðráðanlegu verði. Frá 1992 hefur Frank Castorf verið listrænn stjórnandi leikhússins, en á þeim 25 árum hefur Volksbühne orðið eitt allra framsæknasta og róttækasta sviðslistahús Evrópu, þekkt fyrir ágengar, epískar, tilraunakenndar og oftar en ekki maraþonlangar sýningar sem í anda póstmódernismans hafa reynt að brjóta allar reglur hefðbundins frásagnarleikhús. Á sama tíma hefur þróast nokkuð auðþekkjanleg nálgun og fagurfræði sem hefur haft áhrif langt út fyrir leiksviðið á Rosa Luxemburg Platz.

„Þetta voru oft og tíðum sex eða sjö tíma verk sem voru eiginlega ferðalög hugrenningatengsla þar sem verkið hverju sinni var bara notað sem stökkpallur,“ segir Þorleifur Örn Arnarson leikstjóri sem er einn þeirra sem hafa orðið fyrir áhrifum frá Castorf: „Leikhúsið mitt væri í rauninni ómögulegt án þess sem hann gerði í Volksbühne. Hann skóp nýtt rými innan leikhússins sem gerði póstmódernískt og póstdramatískt leikhús mögulegt. Þetta leikhús var því eins og ísbrjótur.“

Allt frá því að Tim Renner, þáverandi menningarmálaráðherra Berlínarborgar og opinskár gagnrýnandi Castorfs, tilkynnti að hann yrði ekki endurráðinn og belgíski listsagnfræðingurinn Chris Dercon myndi taka við starfinu hafa óánægjuraddir ómað hátt í þýska leikhúsheiminum. Gagnrýnendur hafa margir hverjir séð leikhússtjóraskiptin sem árás borgaryfirvalda á þá gagnrýnu rödd og tilraunamennsku sem hefur átt sér heimili í leikhúsinu og hefur verið einn helsti listræni fáni hinnar menningarlegu framsæknu og róttæku Berlínarborgar.

Tæplega 200 starfsmenn og aðilar tengdir leikhúsinu skrifuðu undir opið bréf þar sem varað var við eyðileggingu „frumleikans og óþekktarinnar“ sem hafði getið leikhúsinu nafn um allan heim.
Á móti þessu hefur verið sagt að Castorf hafi í raun verið orðinn stærri en leikhúsið og listaverkin – leikhússtjórinn hafi verið orðinn að vörumerki sem stóð fyrir róttækar sviðslistir, en var kannski ekki endilega lengur svo róttækt. Þorleifur Örn segist ekki vera sammála þessari greiningu og segist álíta að Castorf hafi enn verið á hápunkti ferils síns þegar honum var sagt upp: „Síðustu sýningarnar hans voru sýndar fyrir fullu húsi, en þær voru ekkert síður erfiðar en þær sem voru sýndar fyrir tómu húsi fyrstu árin. Hann hefur alltaf haldið áfram í stöðugri rannsókn.“

Með enga reynslu úr leikhúsi

Hinn nýráðni Dercon hefur enga reynslu úr leikhúsi heldur kemur úr myndlistarheiminum, þar sem hann stýrði um árabil nútímalistasafninu Haus der Kunst í München. Hann er þó þekktastur sem safnstjóri Tate Modern nútímalistasafnsins í London, einnar áhrifamestu listastofnunar heims, frá 2010 til 2016. Eins og Castorf hefur Dercon haft mikinn áhuga á listsköpun sem gagnrýnir kapítalískt samfélag og því að tengja listrýmið við ýmiss konar samfélagsleg verkefni.

„Á blaði var það ekkert slæm hugmynd að fá mann úr öðru fagi til að stýra leikhúsinu en málið er að Castorf hefur örugglega gert meira til að brjóta múrana og tengja sviðslistir og myndlist en nokkur annar leikhúsmaður – en hann hefur alltaf gert það á forsendum leikhússins,“ segir Þorleifur.

Dercon hefur sagt að hann sé meðvitaður um sögu leikhússins og hann muni halda þróun þess áfram, en hefur þó verið gagnrýndur fyrir að tala á niðrandi hátt um starf og arfleifð Castorfs, meðal annars sagt nálgun hans „sveitalega“ og sjálfhverfa.

Belgíski listsagnfræðingurinn og fyrrverandi safnstjóri Tate Modern, Chris Dercon, tók nýlega við starfi leikhússtjóra Volksbühne, en hann hefur enga reynslu úr sviðslistum. Hér er hann með tónlistarkonunni Patti Smith.
Umdeildur Belgíski listsagnfræðingurinn og fyrrverandi safnstjóri Tate Modern, Chris Dercon, tók nýlega við starfi leikhússtjóra Volksbühne, en hann hefur enga reynslu úr sviðslistum. Hér er hann með tónlistarkonunni Patti Smith.

Mynd: EPA / JOERG CARSTENSEN

Leikhúsið sem viðburðahola

Til að byrja með var Dercon sjálfur ekki skotspónn gagnrýninnar heldur stjórnmálamennirnir sem tóku ákvörðun um að endurráða ekki Castorf. En eftir því sem áform hans í leikhúsinu urðu skýrari fór gagnrýnin í auknum mæli að beinast að honum og listrænni sýn hans.

Dercon hefur sagt að í stað þess að hafa aðeins fastan „ensemble“ leikhóp sem standi að nánast öllum sýningum hússins eins og undanfarna áratugi vilji hann gera Volksbühne að alþjóðlegri og þverfaglegri listamiðstöð og opna leikhúsið meira. Það virðist því vera að hann vilji nálgast leikhússtjórastarfið meira eins og listrænn stjórnandi í galleríi en leikstjóri.

Þetta hefur fallið í grýttan jarðveg hjá fjölmörgum en þetta er þróun sem virðist vera æ meira áberandi í leikhúsheiminum þar sem húsin taka minni þátt í frumsköpun verka og velja þess í stað inn sýningar sem hafa verið framleiddar annars staðar, meðal annars fyrir ýmsar listahátíðir.

Önnur reiðialda skall svo á Dercon þegar hann tilkynnti loks um dagskrá vetrarins. Þorleifur segir að þá hafi honum sjálfum orðið endanlega ljóst að gagnrýnin ætti rétt á sér. Þrátt fyrir langan tíma og gríðarlega fjármuni sem hann hefði fengið í undirbúninginn væru aðeins tvær af ellefu sýningum hússins nýjar en restin væri aðkeypt efni. „Það lítur út fyrir að með þessu verði besta leikhúsi í Evrópu lokað og því breytt í útleigustöð fyrir alþjóðlegar danshátíðir,“ segir Þorleifur Örn. Hann segir þó að það leiki eflaust hlutverk að fjölmargir leikhúslistamenn – og þar á meðal hann sjálfur – hafi hafnað boði um að taka þátt í verkefnum leikhússins undir stjórn Dercons.

Fjármála- og uppavæðing listalífsins

Það sem hefur einnig blandast inn í umræðurnar eru áhyggjur fjölmargra af framtíð hinnar villtu, frjálsu og skapandi Berlínarborgar. Margir sjá ráðningu Dercons sem enn eitt skrefið í síauknum áhrifum fjármagns- og hnattvæðingar í borginni á síðasta áratug, þróun sem kennd hefur verið við nýfrjálshyggju og uppavæðingu (e. gentrification). Alþjóðlegar fjármála- og menningarstofnanir hafa flust til borgarinnar á meðan hún hefur orðið skipulagðari, staðlaðri og snyrtilegri. Þar af leiðandi hafa óskipulögð rými sem hafa á undanförnum áratugum nýst í fjölbreytta nýsköpun á sviði lífshátta og listar smám saman verið að hverfa – frjálsræðið og stjórnleysið sem áður einkenndi borgina er á hröðu undanhaldi.

Sú staðreynd að Dercon komi úr myndlistarheiminum þar sem peningaöflin hafa verið meira áberandi og haft meiri áhrif en í leikhúsheiminum hefur eflaust eitthvað með óánægjuna að gera – og hann hefur orðið að táknmynd fyrir þá uppavæðingu (e. gentrification) sem hefur umbreytt Berlín að undanförnu.

„Það er ekki síst verið að mótmæla því að arfleifð leikhússins og saga sé lögð undir alþjóðlegt túristamerki,“ segir Þorleifur.

Deilan hefur farið stigvaxandi og orðið virkilega heiftúðug í sumar, þar sem skít var meðal annars dreift fyrir utan skrifstofu hins nýráðna leikhússtjóra á hverjum degi í tvær vikur.

Áður óséður hroki

Leikhússtjóratíð Dercons hófst þó þrátt fyrir allt í byrjun september með tíu klukkutíma dansviðburði á Tempelhof-flugvellinum.

Það leið þó ekki á löngu þar til aðgerðasinnar gripu til rótgróinnar berlínskrar mótmælaaðferðar og gerðu hústöku í leikhúsbyggingunni. Þeir lýstu því yfir að þeir hefðu stofnað listasamfélag sem þeir nefna Úr öskunni í glimmerið og ætli að breyta Volksbühne í lýðræðislega rekið leikhús næstu mánuðina og standa þar fyrir leiksýningum og ýmsum öðrum ókeypis viðburðum.

Í samtali við New York Times segir einn talsmaður hópsins að hústakan hafi verið vel skipulögð á undanförnum mánuðum og framkvæmd með samþykki stórs hluta starfsmanna leikhússins. Fyrsti opinberi fundur hópsins var haldinn á laugardag og þá voru stuðningsmenn hústökunnar hvattir til að koma við í leikhúsinu með ýmsar nauðsynjar á borð við mat, drykk og klósettpappír. Fljótlega fylltist húsið hreinlega af stuðningsmönnum sem mættir voru til að styðja hústökufólkið og þurfti lögreglan að loka aðgangi að húsinu.

Í yfirlýsingu hefur leikhússtjórinn umdeildi og aðrir aðstandendur leikhússins gagnrýnt hústökufólkið og biðlað til stjórnmálamanna að bregðast við á einhvern hátt: „Hústökufólkið hefur ákveðið að setja eigin áhyggjur ofar öryggi starfsfólksins og áhorfenda. Þau staðsetja sig fyrir ofan listamennina okkar og listaverk þeirra með áður óséðum hroka.“

Nýjustu friðarumleitanir leikstjórans hafa meðal annars falist í að bjóða þeim einn hluta hússins til afnota í vetur, en þegar þetta er skrifað hefur enn ekki tekist að semja um frið. Þorleifur Örn segist hins vegar ekki sjá fram á að gagnrýnisraddirnar muni þagna svo auðveldlega.

Á undanförnum árum hefur Volksbühne brúað bilið milli ólíkra listgreina og hafa Íslendingar notið góðs af þeirri tilraunastarfsemi, en Ragnar Kjartansson hefur sett upp þrjár sýningar í leikhúsinu. Ein þeirra hefur þegar verið sett upp á Íslandi en önnur, Stríð (þ. Krieg), verður sýnd í Þjóðleikhúsinu næsta vor.
Stríð Ragnars Á undanförnum árum hefur Volksbühne brúað bilið milli ólíkra listgreina og hafa Íslendingar notið góðs af þeirri tilraunastarfsemi, en Ragnar Kjartansson hefur sett upp þrjár sýningar í leikhúsinu. Ein þeirra hefur þegar verið sett upp á Íslandi en önnur, Stríð (þ. Krieg), verður sýnd í Þjóðleikhúsinu næsta vor.

Mynd: Thomas Aurin

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“