Menning

4 skemmtilegar staðreyndir um Werner Herzog

Heiðursgestur RIFF í ár er sérlundaður snillingur

Kristján Guðjónsson skrifar
Föstudaginn 29. september 2017 22:00

Einn af risunum í evrópskri kvikmyndagerð á 20. öldinni, þýski kvikmyndagerðarmaðurinn og sérvitringurinn Werner Herzog, er heiðursgestur á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem hófst í vikunni. Á ferlinum hefur Herzog leikstýrt hátt í fimmtíu kvikmyndum í fullri lengd, leiknum jafnt sem heimildamyndum. Fimm af þessum myndum verða sýndar á hátíðinni og tekur Herzog þátt í umræðum eftir Into the Inferno á morgun, föstudag, og meistaraspjalli á laugardaginn. Í tilefni af heimsókninni tekur DV saman nokkrar skemmtilegar staðreyndir um þennan einstaka og sérlundaða kvikmyndagerðarmann.

1. Hann stal kvikmyndatökuvél til að hefja ferilinn

Herzog hefur sagt frá því að hann hafi stolið 35mm myndavél frá kvikmyndaskólanum í München til að gera sína fyrstu kvikmynd, en hann átti eftir að nota hana áfram við gerð mun fleiri mynda – meðal annars meistaraverksins Aguirre, the Wrath of God sem sýnd er á RIFF. „Ég lít ekki á þetta sem þjófnað heldur algjöra nauðsyn,“ sagði Herzog eitt sinn í viðtali. „Ég vildi gera kvikmyndir og þurfti myndavél. Mér fannst ég eiga rétt á þessu tæki. Ef þú ert lokaður inni í herbergi og getur ekki andað átt þú rétt á því að taka hamar og brjóta niður vegginn.“

2. Hann hefur lent í skotbardaga við tökur

Í frægu viðtali við BBC frá 2006 lenti Herzog í því að vera skotinn með loftbyssu af manni sem átti leið framhjá. Þrátt fyrir að það blæddi duglega úr sárinu hló Herzog og gerði lítið úr skotinu.

Hann hafði nefnilega lent í mun raunverulegri skotbardaga þegar hann var að mynda ólöglegt ferðalag yfir landamæri Hondúras og Níkaragva. „Augnablikið sjálft var mjög óþægilegt, en það var mjög spennandi að lenda í skotárás þar sem maður slapp óskaddaður.“

Þess má geta að við tökur á Aquirre lagði Herzog sig fram við að pirra aðalleikarann og vin sinni Klaus Kinski til að ná fram tilfinningunni sem hann vildi. Að lokum hafði hann reitt Kinski til svo mikillar reiði að hann greip byssu, skaut í átt að kvikmyndatökuliðinu og sagðist hættur. Rifrildið endaði reyndar ekki fyrr en Herzog beindi sjálfur byssunni að Kinski og hótaði að skjóta hann fyrst og svo sjálfan sig ef leikarinn sneri ekki aftur.

3. Hann hefur þurft að borða skóinn sinn

Herzog er maður stórra yfirlýsinga, en einnig maður orða sinna. Hann lofaði því eitt sinn að hann myndi éta skóinn sinn ef kvikmyndagerðarmaðurinn Errol Morris myndi nokkurn tímann klára heimildamyndina sína Gates of Heaven. Þegar það gerðist loksins árið 1980 stóð Herzog við orð sín og borðaði skó sinn á frumsýningunni.

4. Hann elskar Snorra-Eddu

„Lestu, lestu, lestu, lestu, lestu … Ef þú lest ekki munt þú aldrei verða kvikmyndagerðarmaður,“ er eitt ráðið sem Herzog hefur gefið ungum kvikmyndagerðarmönnum. Ein þeirra bóka sem hann hefur reglulega mælt með að kvikmyndagerðarmenn kynni sér er Snorra-Edda – og þá sérstaklega Völuspá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Menning
Fyrir 4 dögum síðan
4 skemmtilegar staðreyndir um Werner Herzog

Rocky Horror Show: Frelsun eða fordjörfun?

Menning
Fyrir 6 dögum síðan
Rocky Horror Show: Frelsun eða fordjörfun?

The Grizzled: Friðarboðskapur fórnarlambs Charlie Hebdo-árásarinnar

FréttirMenning
Fyrir einni viku síðan
The Grizzled: Friðarboðskapur fórnarlambs Charlie Hebdo-árásarinnar

Partý í Hörpu: Sextugir undirheimastrákar á Sónar Reykjavík

Menning
Fyrir einni viku síðan
Partý í Hörpu: Sextugir undirheimastrákar á Sónar Reykjavík

Hljóðrænn hernaður Kode9

Menning
Fyrir 9 dögum síðan
Hljóðrænn hernaður Kode9

Daníel og Nýdönsk hlutu flest tónlistarverðlaun

Menning
Fyrir 9 dögum síðan
Daníel og Nýdönsk hlutu flest tónlistarverðlaun

Á vígvelli hljóðanna

Menning
Fyrir 12 dögum síðan
Á vígvelli hljóðanna

Fólkið í blokkinni

Menning
Fyrir 14 dögum síðan
Fólkið í blokkinni

Orðrómur í Víetnam ógnar nashyrningum: „Oft lifandi þegar hornið er hoggið af“

Mest lesið

Ekki missa af