Menning

Mother! Er þetta alvöru fólk?

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 24. september 2017 22:00

Maður veit sjaldnast að hverju maður gengur þegar leikstjórinn Darren Aronofsky sendir frá sér nýja kvikmynd. Hann fer ávallt sínar eigin leiðir í kvikmyndagerð, bæði hvað varðar söguuppbyggingu og stíl. Á þessum tímum er það mjög sjaldgæft að leikstjórar hafi slíkt frelsi, sérstaklega þegar um er að ræða kvikmyndir sem skarta Hollywood-stjörnum og kosta tugmilljónir dollara í framleiðslu. Hryllingsmyndin Mother! er sjöunda verk Aronofskys og mikil leynd hvíldi yfir verkefninu til frumsýningardags.

Uppáþrengjandi gestir

Myndin gerist öll á endurbyggðu sveitasetri á ónefndum stað í Bandaríkjunum. Aðalsögupersónurnar eru barnlaus hjón sem töluverður aldursmunur er á. Þau eru aldrei nefnd á nafn en eiginmaðurinn (Javier Bardem) er þekktur rithöfundur sem glímir við mikla og óútskýrða ritstíflu. Eiginkonan (Jennifer Lawrence) er heimavinnandi og starfar við að endurgera húsið sem skemmdist illa í bruna mörgum árum áður.

Snemma í myndinni kemur ókunnugur læknir (Ed Harris) á heimili þeirra. Hann er nokkuð hæverskur til að byrja með en færir sig sífellt upp á skaftið með leyfi og samþykki eiginmannsins. Eiginkonunni finnst nærvera hans strax nokkuð óþægileg og það óþol vex með hverri mínútunni. Spennan og átroðningurinn eykst enn frekar þegar kona læknisins (Michelle Pfeiffer) mætir óboðin og gerist jafn vel enn frakkari en hann.

Þessi atburðarás vindur upp á sig og tekur krappar og ófyrirséðar beygjur. Einnig er fylgst með versnandi heilsufari eiginkonunnar og sambandi hennar við húsið sjálft sem virðist vera annaðhvort lifandi eða reimt.

Hvað er um að vera?

Mother! er öll séð frá sjónarhorni eiginkonunnar og myndavélinni er að stórum hluta beint að andliti hennar í nærmynd. Þetta getur valdið áhorfandanum nokkurri velgju sem var sennilega ætlunin til að fylgja hennar líkamlega og andlega ástandi.

Strax í byrjun myndarinnar fær maður það á tilfinninguna að hér sé ekki verið að segja sögu af alvöru fólki heldur sé myndin öll myndlíking en maður áttar sig ekki alveg á fyrir hvað. Þegar læknahjónin birtast með sína undarlegu hegðun renna ótal spurningar í gegnum kollinn. Eru þetta draugar? Sögupersónur sem eiginmaðurinn er að skrifa um? Eða er þetta venjulega fólkið og eiginkonan orðin geðveik?

Myndin er að hluta til sögð í hefðbundnum hryllingsmyndastíl. Konan er oft ein á ferli í ískrandi timburhúsinu og í myrkvuðum kjallaranum er ógnvekjandi kyndingarkerfi. Í myndinni koma einnig fyrir nokkur ódýr „bregðuatriði“ en aldrei er gengið of langt í þeim efnum. Hryllingurinn er ekki fólginn í þessum atriðum heldur nærveru gestanna og hvernig eiginmaðurinn bregst við þeim. Það er gert á mjög frumlegan og athyglisverðan hátt.

Niðurstaða

Mother! er hollt og gott innlegg í hryllingsmyndagerð sem hefur staðnað mjög á undanförnum árum. Þetta er ekki hefðbundin afþreyingarmynd því hún krefst þess að áhorfandinn hugsi og efist allan tímann. Gallarnir við hana eru hins vegar þeir að í seinni hlutanum verður hún yfirgengileg og einnig tilgerðarleg. Aronofsky hefur sjálfur sagt að verkið hafi fæðst og hann viti ekki svörin við öllum spurningunum. Var þá engin sýn bak við myndina og eru engin svör?

Á framleiðslu myndarinnar er ekkert út á að setja. Leikararnir standa sig allir með prýði, sér í lagi Pfeiffer og Bardem (sem aldrei klikkar). Leikmyndin, tæknibrellurnar, klippingin og kvikmyndatakan eru fullkomin fyrir mynd af þessu tagi. Það hefði þó óneitanlega verið skemmtilegra að hafa tónlist Jóhanns Jóhannssonar undir, eins og ætlunin var.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Dauði Denise
Menning
Fyrir 4 dögum

Boðsmiðaleikur: Hversu vel þekkir þú Mamma Mia og ABBA? – Taktu prófið!

Boðsmiðaleikur: Hversu vel þekkir þú Mamma Mia og ABBA? – Taktu prófið!
Menning
Fyrir 4 dögum

Ný stikla fyrir Bohemian Rhapsody er komin út

Ný stikla fyrir Bohemian Rhapsody er komin út
Menning
Fyrir 5 dögum

Mannfræði á krakkamáli – Börn vinna með fyrirbærið þjóð

Mannfræði á krakkamáli – Börn vinna með fyrirbærið þjóð
Menning
Fyrir 5 dögum

SKÚLPTUR 2018 – Sköpunarkraftur Gerðar Helgadóttur leiðarstef

SKÚLPTUR 2018 – Sköpunarkraftur Gerðar Helgadóttur leiðarstef
Menning
Fyrir 1 viku

Rokkhátíðin Eistnaflug fer vel af stað – Eftirpartý í Blúskjallaranum

Rokkhátíðin Eistnaflug fer vel af stað – Eftirpartý í Blúskjallaranum
Menning
Fyrir 1 viku

Meistarar dauðans hita upp fyrir Skálmöld á tvennum tónleikum

Meistarar dauðans hita upp fyrir Skálmöld á tvennum tónleikum