Menning

Alþjóðlegur vettvangur listrænnar samvinnu

Listahátíðin Cycle er haldin þriðja árið í röð í Gerðarsafni

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 10. september 2017 16:00

Listahátíðin Cycle er haldin þriðja árið í röð í Gerðarsafni – Listasafni Kópavogs. Yfirskrift hátíðarinnar er Fullvalda/Nýlenda og er hún haldin í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands á næsta ári og miðast sérstaklega við Grænland, Færeyjar og Ísland og tengsl þessara landa við Danmörku í nútíð og fortíð.

Guðný Þóra Guðmundsdóttir er listrænn stjórnandi og stýrir sýningunni ásamt Söru S. Öldudóttur. „Við höfum boðið hingað fræða- og listafólki sem hefur verið að rannsaka og vinna með málefni tengd vestnorræna svæðinu og samskiptin við Dani. Við bjóðum einnig almenningi til leiks, m.a. til þátttöku í opnum kynningum og vinnusmiðjum þar sem gestir geta fræðst og lagt sitt til málanna. Hugmyndin er að skapa hér umræðuvettvang þar sem ólíkir hópar geta deilt sýn sinni og orðið fyrir áhrifum hver af öðrum. Við munum svo rækta samtalið áfram með þátttakendum og leggja drög að sköpun nýrra listaverka fyrir næsta fasa verkefnisins.

Sýningin hér í Gerðarsafni er eins og rammi utan um þá dagskrá sem verður hér næstu vikurnar. Í einum salnum erum við með verk eftir hinn bandaríska Andrew Ranville og þar sýnir hann fána örríkja sem á einhverjum tímapunkti í sögunni hafa sóst eftir sjálfstæði en misst það eða ekki fengið. Það verk rammar inn vinnustofu þar sem fólk talar saman. Það situr þá inni í þessum fánahring. Uppstillingin minnir kannski dálítið á Sameinuðu þjóðirnar, en þarna eru sameinaðar þjóðir sem ekki urðu varanlegar.“

Hann sýnir fána örríkja sem á einhverjum tímapunkti í sögunni hafa sóst eftir sjálfstæði en misst það eða ekki fengið.
Verk eftir Andrew Ranville Hann sýnir fána örríkja sem á einhverjum tímapunkti í sögunni hafa sóst eftir sjálfstæði en misst það eða ekki fengið.

Mynd: Brynja

Hendur verða vísir að valdi

Vídeóverk og myndbandsverk eru áberandi á sýningunni. „Salurinn sem geymir þau verk er einnig notaður fyrir viðburði,“ segir Guðný. „Gjörningaklúbburinn, Ensamble Adapter og tónskáldið Juliana Hodkinson vinna saman sviðsverk sem verður í vinnslu meðan á hátíðinni stendur. Þetta er verk sem mun samanstanda af tónlist, sviðsmynd og áhorfendum.

Við sýnum vídeóverk eftir Darra Lorenzen sem rímar við það sem við höfum verið að gera áður á hátíðinni og er sambland af nútímatónlist og myndlist. Í myndbandinu sjáum við stjórnanda stjórna kammersveit. Áhorfandinn sér einungis hendur stjórnandans sem verða nokkurs konar vísir að valdi. Þetta vald tengist við hin myndbandsverkin sem við sýnum. Annað er eftir danska konu sem heitir Jeannette Ehlers sem er af karabísku bergi brotin en búsett í Danmörku. Í verkinu fjallar hún um gleymskuna í kringum nýlendusögu Dana og þrælahald undir stjórn þeirra. Í myndbandinu sést móta fyrir henni þar sem hún dansar afrískan dans. Hitt myndbandið er eftir Ragnar Kjartansson frá 2003 og þar sést hann vera lúbarinn af dönskum nýlenduherra. Það má segja að þessi þrjú myndbönd myndi þríhyrning.“

Jeannette Ehlers dansar afrískan dans.
Vídeóverk Jeannette Ehlers dansar afrískan dans.

Mynd: Brynja

Í Gerðarsafni má í fyrsta sinn sjá opinberlega fimm íslenskar stjórnarskrár. „Þetta er gjörningur Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar.“ Auk þess að sýna íslenskar stjórnarskrár sýna þau einnig handrit og fyrstu útgáfur af dönsku stjórnarskránni sem var einnig stjórnarskrá Íslands fyrir fullveldi. Þarna eru líka afrit af tilraunum til breytinga á stjórnarskrá. Þann 22. september mun svo forseti Íslands opna lýðræðislegan umræðufund um stjórnarskrárnar.

Pólitísk spurning

Sýningin stendur til 1. október og alls kyns viðburðir verða á næstu vikum. „Um helgina erum við meðal annars með vinnustofu í samvinnu við Listaháskólann þar sem fjallað er um hvernig þjóðarsjálfsmyndir birtast í gegnum tónlist. Við verðum einnig með kvikspuna sem mun eiga sér stað á árinu 2031 og fengist verður við þá pólitísku spurningu hvort að Ísland eigi að sækja um aðild að „The Great Nordic Union“ og hvort Færeyjar og Grænland eigi einnig að vera þar eða hvort við eigum að búa til okkar eigið bandalag.“

Guðný skilgreinir Cycle sem alþjóðlegan vettvang listrænnar samvinnu, sköpunar og rannsókna. „Það er spennandi að fylgja verkefnum eftir og geta tekið þátt í að auka menningartengsl Íslands við önnur lönd,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir einni viku

Plötusnúðurinn Dóra Júlía sendir frá sér myndband við sitt fyrsta lag

Plötusnúðurinn Dóra Júlía sendir frá sér myndband við sitt fyrsta lag
Menning
Fyrir einni viku

Adrift hvorki sekkur né siglir: Þrautseigja og geispi með golunni

Adrift hvorki sekkur né siglir: Þrautseigja og geispi með golunni
Menning
Fyrir 9 dögum

Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju

Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju
Menning
Fyrir 9 dögum

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai
Menning
Fyrir 13 dögum

Tónlistarkonan Karlotta Laufey úr Vicky: Tryllt í „eitís“ og þolir ekki Coldplay

Tónlistarkonan Karlotta Laufey úr Vicky: Tryllt í „eitís“ og þolir ekki Coldplay
Menning
Fyrir 13 dögum

Íslensk kóratónlist mun hljóma í Sagrada Familia

Íslensk kóratónlist mun hljóma í Sagrada Familia
Menning
Fyrir 15 dögum

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“
Menning
Fyrir 15 dögum

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?