Garðar Eyfjörð: „Ég vil myrða rappara“

„Ég vil myrða rappara“ – Þekktari fyrir snappið – Byrjaði að veipa vegna ömmu sinnar

„Ég er besti rappari á Íslandi.“
Kíló „Ég er besti rappari á Íslandi.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hann heitir Garðar Eyfjörð Sigurðsson, en er kallaður Gæi eða Gassi. Í rappheiminum gengur hann undir listamannsnafninu Kilo og á Snapchat er hann KiloKefCity. Kilo hefur rappað lengi en ýmislegt hélt aftur af honum í upphafi ferilsins. Núna er hann rísandi stjarna í íslenskri tónlist og ein af vinsælustu Snapchat-stjörnum landsins. Hann hefur einnig riðið öldu veipsins og þreytist ekki á að fræða fyrrverandi reykingafólk og aðra áhugamenn um kosti þess. Þann 10. ágúst kemur út fyrsta plata hans, „White Boy of the Year“.

Kom undir í fiskikari

Kilo er fæddur í Keflavík árið 1982. Hann var slysabarn, foreldrar hans voru aldrei par en störfuðu saman í fiskverksmiðju í Grindavík. Kilo segir kíminn: „Ég frétti að þau hefðu „bang“-að í einhverju fiskikari.“ Móðir hans hóf seinna sambúð með bandarískum manni og þau fluttu á stöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þar bjuggu þau í eitt ár en fluttu síðan út til Bandaríkjanna.

„Ég bjó í New Orleans í Louisiana, svo bjó ég í fjölda smábæja í Pennsylvaníu. Titusville, Centerville, ég bjó meira að segja í bæ sem hét Pleasantville, alveg eins og bíómyndin. Það var hræðilegt. Þar bjuggu 167 manns, allt eldri borgarar.“

Kilo flutti aftur til Íslands 14 ára gamall og hann segist elska landið. Þá sérstaklega hreina loftið og öryggið. Fjölskylda hans býr ennþá úti í Bandaríkjunum og hann heimsækir hana reglulega. Nú býr hann með afa sínum og ömmu í rauðu einbýlishúsi í Keflavík. Hann hefur unnið sem næturvörður á hóteli í nokkur ár. „Ég er mjög vel liðinn í hótelbransanum hérna.“

Var í sukki um tíma

„Ég var í rosalegu sukki frá því ég var 19 ára þar til ég varð 26 ára. Eyddi lífi mínu í kjaftæði. Var að vorkenna sjálfum mér og kenna öðrum um vandamál mín. Ég þroskaðist afskaplega seint, náði ekki að skilja hvað ég hafði það slæmt.“ Kilo drakk mikið, dópaði og umgekkst fólk sem dró hann niður.

„Ég eyddi lífi mínu í kjaftæði.“
Var í sukki um áraskeið „Ég eyddi lífi mínu í kjaftæði.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þegar þú ert svona hár persónuleiki eins og ég þá laðast fólk að þér, hangir á þér. Það var í febrúar í fyrra sem ég ákvað að skera allt þetta pakk úr lífi mínu. Fólk sem var að draga mig niður, nota mig. Þá fór ég að finna mér stefnu.“
Kilo þakkar Bjarka „Balatron“ Hallbergssyni að hafa náð að rífa sig upp. „Hann er minn Miyagi og sýnir enga meðvirkni. Ef ég væli og kvarta yfir einhverju þá sparkar hann í mig og segir mér satt. Enginn filter. Ég öðlaðist sjálfstraust mitt vegna hans.“ Balatron er lagasmiður, framleiðandi og plötusnúður sem hefur meðal annars unnið fyrir Pál Óskar. Hann og Kilo starfa nú saman í rappinu.

Rapp er íþrótt

Kilo hefur rappað í næstum því 16 ár. Tvítugur byrjaði hann að semja texta. „Ég skrifaði hvern einasta dag fyrstu sex árin, að minnsta kosti eitt vers. Eins og með hljóðfæraleik. Ef þú ætlar að verða góður gítarleikari, þarftu að spila á hverjum einasta degi.“ Hann segist vera heppinn að hafa alist upp á tíunda áratugnum, gullöld hip-hopsins. Hann hafi lært mikið áður en hann byrjaði að þróa sinn eigin stíl.

„Núna eru allir að gera sama skítinn. Allir geta rappað vegna þess að allir nota bara sama „flow“-ið, svokallaðan Memphis-stíl.“ Kilo hefur oft verið kallaður „bófa-rappari“ en hann segist einfaldlega hafa árásargjarnan stíl. „Ég er „old-school“, ég vil myrða rappara. Ég vil að rapparar séu hræddir við mig og mína hæfileika.“

Rapp er orðin ein vinsælasta tónlistarstefnan á Íslandi í dag, en Kilo kallar eftir meiri samkeppni milli rappara. „Það er ekkert að heilbrigðri samkeppni á milli fólks. Rapp er íþrótt. Ef þú ert alvöru MC, alvöru spittari, verður að líta á þig sem íþróttamann. Það þýðir að þú þarft að æfa þig og hlusta á aðra.“ Þá gagnrýnir hann einnig þá stemningu að allir eigi að vera vinir í rappinu og saknar þess að menn sendi pillur milli sín í textum, svokallað „beef“.

„Ég er besti flæðarinn. En allir rapparar eiga að segja það. Eins og í boxinu. En ég er besti rapparinn þegar allt er tekið með í reikninginn.“ Eini rapparinn sem Kilo telur ógna sér er Herra Hnetusmjör en þeim hefur einmitt oft verið líkt saman hvað varðar hraða og flæði. „En það er gaman, það heldur mér á tánum. Ég ber mikla virðingu fyrir Herra Hnetusmjöri.“

Sker sig úr fjöldanum

Kilo sker sig úr í rappsenunni að því leyti að hann rappar á ensku en langflestir íslenskir rapparar rappa á íslensku. „Ég er bara svona mikill Kani, ég er betri í ensku en íslensku. Þú getur leikið þér miklu meira með enskuna.“ Í upphafi íslenska rappsins á tíunda áratugnum voru til hljómsveitir eins og Subterranean og Quarashi sem röppuðu á ensku en XXX Rottweiler hundar mörkuðu kaflaskil með því að nota íslensku í kringum aldamótin.

„Þú verður að fallbeygja rétt!“

Kilo segist hafa verið undir miklum þrýstingi um að rappa á íslensku. „Fólk sagði: Móðurmálið Kilo, þú verður að rappa á móðurmálinu, þú verður að fallbeygja rétt!“. Hann telur þó að það sé að slakna á þessari stefnu og íslenskir rapparar séu byrjaðir að sletta mun meira en þeir gerðu áður. Hann segist einnig hafa horft til enskunnar sem farvegar fyrir tónlist sína erlendis. Nú einbeiti hann sér hins vegar einungis að velgengni hér heima.

Í fyrrahaust gaf hann út lagið „Magnifico“ sem sló heldur betur í gegn. Fyrstu vikuna á Youtube var horft á það 22.000 sinnum og er það nú komið í um það bil 54.000. Á Spotify er hlustun komin yfir 100.000. „Ég er búinn að vera neðanjarðargoðsögn í 15 ár. Nú er ég kominn í almenna spilun sem ég er mjög ánægður með. Magnifico er samt eina fræga lagið mitt.“

Hann segist hafa verið mikið gagnrýndur fyrir um tíu árum fyrir að bera gullkeðjur og annað glingur. Þá var hann kallaður „póser“. „Núna eru allir krakkarnir með grill í tönnunum. Loksins eru Íslendingar búnir að ná Kananum. Ísland hefur hingað til alltaf verið svolítið eftir á í tónlist, nema þá helst í rokki. En ekki í dag.“

Þekktari sem snappstjarna

Kilo byrjaði að snappa fyrir tveimur árum sem KiloKefCity. Það var snappstjarnan Gæi (Iceredneck) sem hjálpaði honum til að byrja með. „Hann reddaði mér mínum fyrstu 100 vinum á Snapchat. Hann var orðinn frægur, kominn með 700 fylgjendur. Við þekktumst vel, ég keypti minn fyrsta bíl af honum. Hann var kallaður Gæi steri, ég var kallaður Gæi feiti. Við gerum alveg gjörólík snöpp en hann tók mig undir væng sinn um tíma.“

„Ég gleymdi í smá stund að ég væri rappari.“
Snappstjarna „Ég gleymdi í smá stund að ég væri rappari.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Aðspurður hvort hann sé snappstjarna segir Kilo: „Já. Ég fattaði það í fyrra að ég væri snapstjarna.“ Hann segir marga snappara ljúga til um fjölda fylgjenda en hann sé sjálfur með um 7.500–8.000 í dag og þeim fari ört fjölgandi. Í dag sé hann mun þekktari sem snappari en rappari.

„Ég hef svo gaman af þessu. Ég fékk ekki frið á Secret Solstice í sumar. Um 300–400 manns vildu fá „selfie“ með mér. Ég fékk meiri athygli en Aron Mola sem er með fleiri fylgjendur. Ég gleymdi í smá stund að ég væri rappari.“

Fær sendar myndir af heimili sínu

Rapparinn Kilo og snapparinn KiloKefCity gætu vart verið ólíkari persónur, eins og doktor Jekyll og herra Hyde í sögu Stevenson. Rapparinn er árásargjarn og fjandsamlegur en snapparinn ávallt hress og örlítið ruglaður. Á Snapchat er hann þekktur fyrir leikrit sem hann setur upp. „Þetta kemur allt í einu. Fólk heldur að ég skrifi þetta. Þetta byrjar að rúlla þegar mér leiðist. Frumlegi heilinn virkar á allt annan hátt en venjulegi heilinn. Það slökknar aldrei á honum. Ég er bara heppinn.“

Líkt og aðrar snappstjörnur hefur Kilo fengið sinn skerf af óþægilegum uppákomum. „Fólk tekur myndir af húsinu mínu og sendir mér þær og krakkar eru að banka hérna upp á. Sumir taka myndir af hótelinu sem ég vinn á.“ Hann segir þennan fylgifisk frægðarinnar frekar óþægilegan.

„Frumlegi heilinn virkar á allt annan hátt en venjulegi heilinn“

Hann hefur þó ekki oft lent í því að fá hatursskilaboð frá fylgjendum sínum. Þau séu teljandi á fingrum annarrar handar sem sé mjög sjaldgæft í snappheiminum. Hann telur að þessi skilaboð séu sennilega flest send af krökkum. Meirihluti fylgjenda hans sé uppkomið fólk. Kilo svarar flestum skilaboðum sem hann fær en hann lendir þó í því að fólk klínir sér á hann og hann eigi erfitt með að losna við það.

Byrjaði að veipa vegna ömmu sinnar

Amma Kilo veiktist af lungnaþembu fyrir jólin árið 2015. Hún var lögð inn á gjörgæslu og henni var ekki hugað líf. Heilbrigðisstarfsfólkið sagði fjölskyldunni að hún myndi sennilega kveðja um Þorláksmessu. „En hún er hörkutól, með nautshjarta, og lifði þetta af.“ Hún fékk að fara af sjúkrahúsinu í febrúar árið 2016.

Fram að þessu hafði Kilo reykt einn til tvo sígarettupakka á dag í 17 ár samfellt. „Salem Lights. Á djamminu keðjureykti ég þrjá til fjóra pakka.“ En hann lofaði sjálfum sér og ömmu sinni að hætta þegar hún kæmi heim af sjúkrahúsinu. Þá kynntist hann veipinu.

„Veip er tískubóla fyrir fólk sem hefur ekki reykt, en þetta bjargar mannslífum. Án gríns. Þetta er 95 prósent minna skaðlegt en sígarettutóbak og reykingar hafa minnkað heilmikið á landinu vegna þess. Þetta er ekki alveg skaðlaust en þú þarft ekki að vera kjarneðlisfræðingur til að sjá að þetta er mun betra en að reykja tóbak.“

Kilo er duglegur að auglýsa veip í gegnum Snapchat-reikning sinn og þær helstu græjur og vökva sem til eru á markaðinum. „Ég er frægasti veiparinn á landinu, það er pottþétt mál. Ef ég mæli með einhverju þá selst það upp á einni viku.“ Hann er í samstarfi við veip búðina Djáknann á Suðurlandsbraut. „Þetta er ekki einu sinni spons. Djákninn er minn staður. Þeir koma best fram við mig.“

„Veip bjargar mannslífum.“
Reykti tóbak í 17 ár „Veip bjargar mannslífum.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Finnst hræðilegt að sjá krakka veipa

Hann telur veipið þó einnig hafa sínar myrku hliðar. „Ég fæ stundum snöpp frá 11–12 ára krökkum að veipa. Það er hræðilegt, þetta eru börn. Maður er orðinn svo þekktur fyrir veipið að maður hefur ekki stjórn á þessu. Það hefur pottþétt fjöldi krakka byrjað að veipa út af mér og mér líður mjög illa yfir því.“

Veip er ekki einungis leið fyrir fólk til að hætta að reykja, heldur er það orðið að lífsstíl eða áhugamáli. Kilo segist eiga fimm græjur núna sem hann noti að staðaldri. Hann hafi hins vegar átt yfir 30 í gegnum tíðina. „Þú getur keypt þér veip-græju sem eru eins og Toyota Corolla, svo geturðu keypt þér veip-græju sem er eins og Rolls Royce.“ Kilo veipar vitanlega einungis á Rolls Royce-týpunni. Hann segist fá margar spurningar um veip á Snapchat, og þá sérstaklega um vökvann. „Ég veipa ekki djús nema hann sé framleiddur í Kaliforníu. Það er Mekka djússins.“ Uppáhaldið hans er Vapor Maid og Juice Roll-Upz.

Einnig er hægt að veipa án nikótíns. „Fólk sem reykir ekki ætti ekki að byrja að veipa með nikótíni. Sumir vilja bara veipa til að vera með, upp á félagslega þáttinn. Það eru til vökvar með engu nikótíni sem eru ekkert ávanabindandi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.