Læra að spyrja frekar en svara

Alexander Roberts stýrir nýju alþjóðlegu framhaldsnámi í sviðslistum við LHÍ

Fagstjóri og einn af hugmyndasmiðum alþjóðlegs meistaranáms í samtíma sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Hér stendur hann við hlið spurningameistarans Sókratesar eins og hann birtist í verki Guðrúnar Heiðar Ísaksdóttur.
Alexander Roberts Fagstjóri og einn af hugmyndasmiðum alþjóðlegs meistaranáms í samtíma sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Hér stendur hann við hlið spurningameistarans Sókratesar eins og hann birtist í verki Guðrúnar Heiðar Ísaksdóttur.
Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Nú í vikunni voru frumsýnd lokaverkefni fyrsta útskriftarárgangsins í nýju framhaldsnámi við Listaháskóla Íslands, alþjóðlegu meistaranámi í samtíma sviðslistum.

Útskriftarverkin sex eru jafn ólík og þau eru mörg: leiklestur, raunveruleikagjörningur, hljóðinnsetning, bókaútgáfa og svo framvegis.

Fjölbreytnin er ekki tilviljun heldur afleiðing af þeim hugmyndum sem liggja náminu til grundvallar – enda er það óvenjulegt og allrar athygli vert.

Blaðamaður DV forvitnaðist um þetta nýja nám hjá fagstjóra þess og einum af hugmyndasmiðunum, breska sviðslistafræðingnum og listræna stjórnandanum Alexander Roberts.

Útskriftarverkefnin

Savage Scenes

Saga Sigurðardóttir

Performans og sýningar á teikningum og ljósmyndum í Skugganum og Tunglinu við Lækjargötu.

-

Pillow Talk

Sonja Kovacevic

Hljóðinnsetning þar sem gestum gefst færi á að hlusta á sögur flóttamanna liggjandi í rúmum Rauða krossins víða um borg.

-

The necromancy of Socrates

Guðrún Heiður Ísaksdóttir

Lifandi gjörningur í Myndlistardeild LHÍ þar sem Sókrates er vakinn til lífsins með höggmynd og heimspeki.

-

Systems of Movement

Lisa Homburger

Útgáfa bókar þar sem nýtt leiðbeiningamál fyrir dansara er þróað og samhangandi gagnvirk sýning á Sölvhólsgötu 13.

-

My House

Hrefna Lind Lárusdóttir

40 daga raunveruleikagjörningur sem fer meðal annars fram á Karolina Fund, Youtube, í fjölmiðlum og Sólvallagötu.

-

Svarthol

Álfrún Helga Örnólfsdóttir

Leiklestur á nýju leikverki í Tjarnarbíói en verkið hverfist um mörk ímyndunar og raunveruleika og allar þær víddir sem hugur okkar heimsækir á ævinni.

Annars konar rými

„Þegar þetta nám var búið til og staðan auglýst fannst mér hún ríma fullkomlega við allt það sem ég hafði áður tekið mér fyrir hendur,“ segir Alexander sem hóf listferilinn í pönkhljómsveitum en færði sig smám saman yfir í sviðslistir og sviðslistafræði.

Hann kom upphaflega hingað til lands árið 2008 þegar hann tók þátt í sviðslistaverki á listahátíðinni Art Fart. Síðan þá hefur hann verið viðloðandi landið og búið hér síðan 2012. Undanfarin ár hefur hann verið virkur þátttakandi í sviðslistalífi Reykjavíkur, verið listrænn stjórnandi og ein aðalsprautan á bak við Reykjavík Dance Festival ásamt samstarfskonu sinni Ásgerði G. Gunnarsdóttur.

„Grunnhugmyndin með þessu nýja námi er að skapa vettvang fyrir starfandi listamenn – hvort sem þeir hafa verið virkir í tvö eða tuttugu ár – þar sem þeir geta prófað sig áfram og gert rannsóknir sem þeir gætu líklega ekki leyft sér í hinum harða heimi atvinnulífsins. Listiðnaðurinn er drifinn áfram af stöðugri þörf fyrir afurðir, en hugmyndin er að bjóða upp á annars konar rými fyrir listamennina,“ segir Alexander um nýju námsleiðina, tólf mánaða alþjóðlegt framhaldsnám í sviðslistum samtímans þar sem sex til átta listamenn vinna náið með fjölbreyttum hópi gestakennara, þekktum sviðslistamönnum alls staðar að úr heiminum. Ein ástæðan fyrir því að námið er aðeins eitt ár er að það er hugsað fyrir listamenn sem eru nú þegar starfandi og oftar en ekki virkir í listasenum í öðrum löndum. Alexander segir hættuna hafa verið að með lengra námi tækist ekki að halda sama ákafa og athygli og vonast var eftir.

Uppbygging námsins var skipulögð af Unu Þorleifsdóttur, Ragnheiði Skúladóttur, Karl Águst Þorbergsson og Alexander sjálfum í samvinnu við Steinunni Knútsdóttur, deildarforseta sviðslistadeildarinnar. Hann segir sitt hlutverk sem fagstjóra vera eins og staða listræns stjórnanda námsins, hann velji inn listamenn í hlutverk nemenda og aðra í hlutverk kennara, reyni að skilgreina hvers eðlis samband þeirra skuli vera og skapa kringumstæður fyrir þá til að mætast í.

Eitt af útskriftarverkefnunum er 40 daga upplifunarverk Hrefnu Lindar Lárusdóttur um húsnæðismarkaðinn í Reykjavík, en verkið hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum að undanförnu.
Húsið mitt Eitt af útskriftarverkefnunum er 40 daga upplifunarverk Hrefnu Lindar Lárusdóttur um húsnæðismarkaðinn í Reykjavík, en verkið hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum að undanförnu.
Mynd: Laufey Elíasdóttir

Hvorki alvitrir kennarar né galtómir nemendur

„Fyrst og fremst viljum við taka þá sem skrá sig í námið alvarlega sem listamenn. Við erum ekki að reyna að gera nemendurna að ákveðinni tegund listamanna – heldur eru það þeir sjálfir sem munu segja okkur hvað það er sem listamenn eru og gera. Þeir eru sjálfir listamenn sem hafa verið að skapa list í einhvern tíma og koma því inn með sína eigin þekkingu, bæði í formi ákveðinna vinnuaðferða og listrænna spurninga.

Þær grunnspurningar sem þessir tilteknu listamenn eru að takast á við í sinni eigin listsköpun verða alltaf leiðarstefið í því sem við gerum, hvort sem það eru vinnustofur, vinnustofudvöl, fyrirlestrar eða eitthvað allt annað. Það er því ekki verið að hamra á því að til að útskrifast úr náminu þurfi listamennirnir að vita x, y og z. Þvert á móti lítum við svo á að öll þekkingin sé nú þegar til staðar hjá þeim, en markmið námsins sé að hjálpa þeim að reyna að nálgast og virkja hana.

Þetta er líka eitthvað sem við höfum í huga þegar við veljum listamenn til að taka þátt í kennslunni. Hugmyndin er ekki að fá alvitra kennara til að kenna nemendum sem ekkert vita, heldur að skapa umhverfi fyrir þessa listamenn til að gera eigin tilraunir. Við viljum fá kennarana og nemendurna til að vinna í sameiningu að hlutum þar sem úrlausnin er ekki gefin. Hvernig þetta er gert getur verið mjög mismunandi. Við ráðum sem sagt ekki bara kennara inn til að fylla í ákveðið gat í stundatöflunni heldur byrjum við á því að velta fyrir okkur með hverjum listamanna hvað hann vilji fást við, hvað hann komi til með að kenna og finnum svo form sem hentar.“

Drifið áfram af spurningum

Þegar hann er beðinn um dæmi um hvernig slík kennsla fer fram nefnir hann nokkra ólíka listamenn sem hafa tekið þátt í verkefninu, til að mynda sviðslistamanninn Ant Hampton og svissneska tónskáldið Christophe Meierhans: „Þeir komu inn með tiltekið verkefni sem þeir voru sjálfir að vinna að fyrir ákveðinn skilafrest. Þeir takast þá á við vandamálin sem þeir eru að kljást við í verkefninu með hjálp nemendanna. Verk kennaranna er þannig ekki dæmi um það rétta eða fullkomna heldur notað sem dæmi um vandamálin sem þessir listamenn þurfa stöðugt að eiga við í listsköpuninni,“ segir Alexander.

Hann nefnir líka Finnann Satu Herrala og Grikkjann Manolis Tsipos sem voru í viku í vinnustofudvöl á Kolstöðum og áttu þar í ítarlegum samræðum við nemendurna, skipulögðu þriggja tíma samtal við hvern nemanda þar reynt var að finna kjarnann og mikilvægustu spurningarnar í listsköpun þess nemanda. „Þrátt fyrir að aðferðirnar séu ólíkar er það sem sameinar þetta allt, að það er drifið áfram af spurningum og tilraunum til að þróa aðferðir til að takast á við þær, hvort sem það eru spurningar listamannanna sem eru beðnir um að taka þátt eða spurningar listamannanna sem hafa skráð sig í námskeiðið.“

Það var fjölbreyttur hópur listamanna sem tók þátt í kennslunni í ár, úr ólíkum listgreinum með ólíka snertifleti við sviðslistir. Á næsta ári verða bæði ný andlit – til að mynda franski sviðslistamaðurinn Phillippe Quesne sem mun vinna verk með nemendunum – og aðrir listamenn sem koma í annað skipti. „Mér finnst mikilvægt að við vinnum aftur með sömu listamönnunum því þannig gerum við þetta að eins konar miðstöð fyrir ákveðna gerð menningar.“

Saga Sigurðardóttir, dansari og danshöfundur, er á meðal þeirra listamanna sem útskrifast úr fyrsta árgangi alþjóðlegs framhaldsnáms í samtíma sviðslistum. Lokaverkefnið hennar er verkið Savage Scenes.
Saga Sigurðardóttir, dansari og danshöfundur, er á meðal þeirra listamanna sem útskrifast úr fyrsta árgangi alþjóðlegs framhaldsnáms í samtíma sviðslistum. Lokaverkefnið hennar er verkið Savage Scenes.
Mynd: Saga Sigurðardóttir

Ekki nám endanlegra afurða

„Það er ákveðið viðhorf sem við biðjum alla um að mæta með í farteskinu en við höfum enga stjórn á því sem kemur út úr vinnunni. Niðurstaðan úr þessari tólf mánaða vinnu er ekki bara þessi tilteknu útskriftarverkefni sem hafa verið sýnd heldur er það umfram allt færni listamannanna í að átta sig á þeim spurningum sem eru miðlægar í sköpun þeirra, að geta talað um þær og mótað vinnuaðferðir sem gera þeim kleift að takast á við þessar spurningar.

Ef það er eitthvað róttækt við þetta nám þá er það eflaust það að þetta er ekki nám endanlegra afurða, ekki nám fullkomnunar. Ef ég tala út frá eigin reynslu af menntun sem nemandi þá er það yfirleitt ákvörðun að ofan hvað er álitið mikilvægt – þér er sagt hvað þú átt að læra. Við tökum listamennina hins vegar alvarlega sem listamenn sem geta starfað á eigin forsendum, bæði í náminu og eftir það.“

Er það þá kannski bara táknrænt að þú ert ungur maður, 31 árs gamall, og margir nemendanna eru eldri og jafnvel lengra komnir á sínum listamannsferli en þú?

„Já, ætli það ekki. Ég hugsa að þegar stefnt er á að móta flatan strúktúr sé áhættan oft að skriðþunginn, stofnunin og umhverfið þrýsti því í aðra átt og skapi þannig ójafnvægi. Þar sem ég er ungur finnst manni eiginlega ólíklegra að ég fari að misskilja stöðu mína, fari að telja mig miklu reynslumeiri og noti það til að réttlæta aukið stigveldi. Vissulega sækja listamennirnir í náminu í einhverja þekkingu hjá mér en ég sæki ekki síður þekkingu til þeirra. Það er því mjög merkilegt að útskrifa sex listamenn sem eru kannski meiri sérfræðingar í því sem þeir gera en ég mun nokkurn tímann verða,“ segir Alexander, sem er þessa dagana að taka á móti öðrum árgangi námsins. Í þetta skipti koma nemendurnir víðar að, meðal annars frá Brasilíu, Mið-Evrópu, Mexíkó, Norður-Ameríku, Mexíkó, Ástralíu og Íslandi.

Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Tengsl út í samfélagið

Heldur þú að tilkoma svona náms hafi einhver áhrif út í sviðslistasamfélagið, listasamfélagið hér á landi eða jafnvel samfélagið í víðari skilningi?

„Já, við erum alltaf meðvitað að reyna að finna holur eða opnanir þannig að það sem á sér stað í náminu leki út og hafi áhrif víðar. Þannig höfum við átt í samtali eða samvinnu við leikhús, sýningarrými, tónleikastaði, unnið með unglingum, eldri borgurum og fólki þar á milli, átt í samtali við fólk frá góðgerðasamtökum, vísindamenn og þá sem stýra húsnæðismarkaðnum. Ég tel að við höfum áhrif með því að hafa virka nærveru í samfélaginu og leyfa þessum samtölum að leka út. En þar að auki, ef við útskrifum sex til átta listamenn sem hafa fundið fyrir uppörvun, eru orðnir sjálfsöruggari í því að orða þær spurningar sem þeir vilja fást við, geta barist fyrir því sem þeir vilja stunda – listamenn sem eigna sér það sem þeir eru að gera – þá held ég að það hljóti að hafi einhver áhrif.“

Varðandi þessi tengsl sem þú nefnir, þá er eitt sem ég tók eftir í kynningu námsins og ég hef tekið eftir í kynningu framhaldsnáms í listum víðar. Þetta er sérstök áhersla á tengslamyndun, meðal annars inn í listasenuna. Ég get eiginlega ekki komist hjá því að líta þetta svolítið gagnrýnum augum. Að einhverju leyti finnst mér eins og nemendur séu þá að kaupa sér aðgang að tengslaneti til að hjálpa sér að komast áfram á framabrautinni – efnahagslegum auði er breytt í félagslegan auð sem ætti að skila sér í velgengni. En kannski er þetta alls ekki hugmyndin?

„Það er vissulega rétt að þetta er eitthvað sem maður vill að sé hluti af masternámi sínu, það er að maður verði ekki jafn mikið eyland og þegar maður skráði sig. Þannig að þetta er einn þráður en alls ekki meginþráðurinn í náminu. Það er frekar verið að skoða hvernig þínar listrænu spurningar og athafnir leiða þig í tengsl við heiminn utan þessa örheims masternámsins. Þetta eru rosalega ólík tengsl við fjölbreytt fólk í hverju tilfelli – og þetta sést augljóslega þegar þakkarlistar nemendanna eru skoðaðir. Á þessum listum eru bæði listamenn og fólk úr senunni en stór hluti þeirra sem þau hafa unnið með er fólk sem tengist listalífinu ekki á nokkurn hátt. Í þokkabót væri það nú líka svolítið kaldhæðnislegt fyrir erlenda listamenn að koma til Íslands til þess að reyna að tengjast heiminum. Ég held að þetta námskeið sé ekkert sérstaklega líklegt til að laða að sér fólk sem er bara að gera list til að öðlast frama: „fyrst tökum við Reykjavík og síðan heimsfrægð!““

--+

Árétting: Í fyrstu útgáfu vefgreinarinnar féll nafn Karls Ágústs Þorbergssonar út í upptalningu á þeim sem hönnuðu MFA námið í samtíma sviðslistum. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.