Gott ár hjá tónleikahöldurum þrátt fyrir mikið framboð

Fjöldi stórra tónleika á Íslandi í sumar - Sterk króna góð fyrir tónleikahaldara - Offramboð af rapptónleikum

Bandaríska rapphljómsveitin er ein þeirra fjölmörgu sem koma fram á tónleikum á Íslandi í sumar
Migos Bandaríska rapphljómsveitin er ein þeirra fjölmörgu sem koma fram á tónleikum á Íslandi í sumar
Mynd: 2016 Kevin Mazur

Nú er orðið ljóst að það seldist ekki upp á Secret Solstice, hætt hefur við tónlistarhátíðina Night and Day sem átti að fara fram á Skógum, miðar á tónleika Young Thug eru á 2 fyrir 1-tilboði í gegnum símafyrirtækið Nova og miðar á tónleika rokksveitarinnar Dinosaur Jr. í Hörpu eru á tilboði á Hópkaup.is. Þetta virðist gefa til kynna að Íslendingar séu ekki að mæta á tónleika í sama mæli og tónleikahaldarar hafa búist við.

Blaðamaður DV tók púlsinn á þremur tónleikahöldurum og spurði hvort það væri orðið offramboð af tónleikum með erlendum stórstjörnum á Íslandi.

Erlendar poppstjörnur á Íslandi sumarið 2017

Listinn er ekki tæmandi

Rammstein – 20. maí.

Kool and the Gang – 10. júní.

Foo Fighters, The Prodigy, Rick Ross og fleiri (á Secret Solstice Festival) – 15. til 18 júní.

Dr. Hook – 24. júní.

Engelbert Humperdinck – 26. júní.

Young Thug – 7. júlí.

The Dillinger Escape Plan, Neurosis og fleiri (á Eistnaflugi) – 5. til 8. júlí.

Post Malone –11. júlí.

Herbie Hancock – 20. júlí.

Dinosaur Jr. – 22. júlí.

Red Hot Chili Peppers – 31. júlí.

Migos – 15. ágúst.

„Eins og síðasta ár hefur þetta verið mjög gott ár hjá mér,“ segir Þorsteinn Stephensen, tónleikahaldari hjá Mr. Destiny, sem hefur staðið fyrir vel heppnuðum risatónleikum Rammstein, tónleikum Kool and the Gang og rapphátíð þar sem bandaríski rapparinn Young Thug er aðalnafnið. Hann segist telja að mögulega sé örlítið of mikið framboð á rapptónleikum í ár en fyrir utan Secret Solstice-hátíðina sem leggur sérstaka áherslu á hip hop koma Young Thug og Migos fram á tónleikum – í vor bárust þá fréttir af því að rapparinn Lil Wayne myndi spila á Íslandi í ágúst en ekkert hefur heyrst meira um þann viðburð. „Maður finnur fyrir smá ofhitnun svo ég er bara feginn að vera ekki með fleiri viðburði. Þetta gerðist líka 2006 og 2007 þegar krónan var svona sterk. Þá myndaðist svolítil yfirpressa á markaðnum og margir fóru illa út úr því – mér finnst ekkert ósennilegt að það gerist líka núna. Ætli menn muni ekki leyfa markaðinum aðeins að kæla sig núna,“ segir Þorsteinn.

Mynd: Abu Dhabi Festival

Guðbjartur Finnbjörnsson, hjá Tónleikur, hefur meðal annars staðið fyrir tónleikum Dr. Hook og Herbie Hancock, sem fara fram síðar í sumar. Hann segist ekki telja að hér sé offramboð á tónleikum með erlendum listamönnum. „Ég held að flestir tónleikahaldarar séu bara nokkuð ánægðir með tónleikasumarið. Þegar það er svona mikið af tónleikum má auðvitað búast við því að einhverjir þeirra nái ekki því flugi sem þarf – en þótt eitthvað eitt gangi ekki vel þýðir það ekki að allt gangi illa. Svo þarf heldur ekki endilega að vera uppselt til að dæmið gangi upp,“ segir hann. „Ég hef trú á því að þetta sé komið til að vera á meðan krónan helst svona sterk. Í kjölfar velgengninnar í sumar held ég að menn muni jafnvel fyllast meiri eldmóði. En þá er aðalatriðið að missa sig ekki í of mikilli bjartsýni. Það þarf ekki rosalega mikið til að þetta floppi,“ segir Guðbjartur.

„Þetta er ekki alveg svart og hvítt en ég held að það sé rétt að það sé ákveðið offramboð í gangi,“ segir Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu Live, sem stendur fyrir fjölda tónleika í sumar, meðal annars með Red Hot Chili Peppers, Post Malone og Dinosaur Jr. „Þetta gerist ansi oft á Íslandi, einfaldlega vegna þess hversu ofboðslega lítill markaðurinn er – það þarf bara einu eða tveimur giggum of mikið til að markaðurinn verði þungur,“ segir hann. „Það er líka óhjákvæmilegt að tónleikahaldarar misreikni sig af og til og bóki til dæmis aðeins of stóran sal fyrir tiltekna hljómsveit. En á Íslandi er heldur ekki sérstaklega mikið val um tónleikastaði og maður er því fastur í ákveðnum stærðum, 1.200, 2.500 eða 5.500 manna salir – það er ekkert mikið annað í boði,“ segir Ísleifur. Hann segir spurningar um offramboð hins vegar vera afstæðar og segist til að mynda telja að stórtónleikar með poppstjörnu á stærð við Justin Bieber myndi ganga mjög vel – og segist hann raunar stefna á að halda að minnsta kosti eina slíka risatónleika á næsta ári.

Mynd: EPA

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.