„Hefur alltaf verið jaðarhátíð og viljum halda henni þannig“

Extreme Chill tónlistarhátíðin er haldin í áttunda sumarið í röð, en í fyrsta skipti í Reykjavík

Breski raftónlistardúettinn The Orb sem var ein áhrifamesta raftónlistarsveit tíunda áratugarins spilar á Extreme Chill í Reykjavík um helgina.
Áhrifavaldar Breski raftónlistardúettinn The Orb sem var ein áhrifamesta raftónlistarsveit tíunda áratugarins spilar á Extreme Chill í Reykjavík um helgina.

„Þetta er líklega stærsta hátíðin hingað til - fjórir dagar og sex tónleikastaðir,“ segir Pan Thorarensen, einn skipuleggjenda Extreme Chill tónlistarhátíðarinnar sem hefst með opnunarpartýi í Lucky Records á morgun.
Þekktir erlendir raf- og sveimtónlistarmenn á borð við The Orb, Courtesy, Mixmaster Morris og Studnitzky auk nokkurs fjölda íslenskra listamanna koma fram á hátíðinni, sem er nú haldin í áttunda sumarið í röð - en í fyrsta skipti í Reykjavík.

Í fyrsta skipti í Reykjavík

Pan Thorarensen heldur Extreme Chill festival áttunda sumarið í röð.
Aldrei stærri hátíð Pan Thorarensen heldur Extreme Chill festival áttunda sumarið í röð.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Hugmyndin var aldrei að halda hátíðina alltaf á sama stað, hins var stemningin bara góð úti á Snæfellsnesi þegar við héldum hana fyrst svo við ílengdumst þar til 2013,“ segir Pan. „Eftir að hafa haldið hátíðina eitt ár úti í Berlín fórum við aftur á Hellissand árið 2015. Þá varð hins vegar þessi hryðjuverkaárás frá lögreglunni og allt fór í rugl. Þannig að við misstum algjörlega áhugann á að vera þar,“ segir hann og vísar til þess þegar lögregla fór fram með miklu offorsi í leit sinni að fíkniefnum.

„Í fyrra prófuðum við að vera á Vík í Mýrdal. Það var rosalega gaman, æðislegt landslag og allt það! Þannig að það hefði verið gaman að fara þangað aftur, en eftir fjölda áskorana frá vinum og ættingjum ákváðum við að prófa að halda í Reykjavík. Það er lítið í gangi í borginni á þessum tíma en mikið af flottum stöðum sem er hægt að nýta. Nú verður bara spennandi að sjá hvernig þetta kemur út!“ segir Pan en viðburðirnir munu fara fram í Fríkirkjunni, Mengi, Húrra, Lucky Records, Miðgarði Center Hotels og Bíó Paradís.

Alls ekki týpísk tónlistarhátíð

Eins og áður er lögð sérstök áhersla á raftónlist og ambient - það sem væri hægt að kalla sveimtónlist á íslensku - auk myndbandslistar sem unnin er við tónlistina.

Stærsta nafnið á hátíðinni í ár er vafalaust breski dúettinn The Orb sem eru miklir frumkvöðlar í rafrænni sveim- og hústónlist. Hljómsveitin var stofnuð í London árið 1988 af Alex Paterson úr síð-pönksveitinni Killing Joke og Jimmy Cauty.

„The Orb var ein stærsta raftónlistarsveit heims á tíunda áratugnum og er ennþá ein af þeim stóru. Hljóðheimurinn er einhver ambient-house hrærigrautur. Þeir hafa haft alveg ótrúlega mikil áhrif á aðra listamenn, ekki bara á aðra raftónlistarmenn heldur einnig haft mikil áhrif út í rokkið. Þeir hafa til dæmis unnið með listamönnum á borð við Youth og David Gilmour úr Pink Floyd. Þó þeir séu búnir að vera starfandi í þrjá áratugi eru þeir mjög ferskir þessa dagana, gáfu út plötur í fyrra og hittífyrra og hafa verið að spila um alla Evrópu – núna síðast á Glastonbury-hátiðinni."

Þrátt fyrir að The Orb sé nokkuð þekkt segir Pan þó alls ekki vera stefnt á að gera hátíðina að einhverri popphátíð. „Þetta er alls ekki poppað line-up, heldur er þarna mun sérstakari tónlist og meira artí en flestir eiga að venjast. Þannig að þetta er ekki þessi týpíska tónlistarhátíð. Þetta hefur alltaf verið jaðarhátíð og við viljum halda henni þannig.“

Extreme Chill hátíðin fer fram 6. til 9. júlí víðsvegar um Reykjavík. Miðasala fer fram á Miði.is.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.