Úr listheiminum

Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Skrifar undir útgáfusamning

Á miðvikudag var tilkynnt að Högni Egilsson, tónskáld og tónlistarmaður, sem meðal annars hefur gert garðinn frægan með hljómsveitunum Hjaltalín og GusGus, hefði skrifað undir útgáfusamning við breska útgáfufyrirtækið Erased Tapes. Útgáfufyrirtækið leggur sérstaka áherslu á framúrstefnutónlist og meðal listamanna sem gefa út hjá fyrirtækinu eru Nils Frahm, Ólafur Arnalds og Kiasmos. „Ég hef fylgst mikið með fyrirtækinu á undanförnum árum og get ekki beðið eftir að starfa með þeim í framtíðinni. Spennandi tímar framundan,“ skrifaði Högni á opinbera Facebook-síðu sína.

Vilja inn í senuna

Austurríski orkudrykkjaframleiðandinn Red Bull er nú að gera sig líklegan til að færa sig inn á íslenskan tónleika- og viðburðamarkað í auknum mæli með nýráðnum viðburðastjóra og nokkuð reglulegu tónleikahaldi. Ein helsta auglýsing fyrirtækisins á heimsvísu felst í skipulagi list- og íþróttaviðburða sem flagga merki fyrirtækisins í hvívetna. Á tónlistarsviðinu heldur Red Bull úti svokallaðri tónlistarakademíu sem stendur fyrir kennslu, tónleikum, netútvarpsstöðvum og fjölmörgu öðru tónlistartengdu efni. Í sumar hefur Red Bull Music Academy orðið meira áberandi í íslensku tónlistarlífi en áður, meðal annars haldið rapptónleika á Kex Hostel og nú um helgina stendur fyrirtækið fyrir fyrirlestri og klúbbakvöldi með bandaríska teklife-plötusnúðinum DJ Earl á Húrra.

Nafnið þótti of pólitískt

Artgallerí-Gátt er nýtt nafn listamannarekna gallerísins sem áður hét Anarkía. Galleríið hefur verið starfrækt í Kópavogi undanfarin fjögur ár og hefur bæði sýnt verk eftir lærða listamenn og leikna. Nafnbreytingin var ákveðin á aðalfundi gallerísins í júní. „Erlendum listamönnum finnst Anarkía einfaldlega of pólitískt tengt og eru þess vegna hikandi við að sýna hjá okkur. Það var því ákveðið á síðasta aðalfundi að taka upp ARTgallerý-Gáttar nafnið og nú strax á sumarsýningum gallerísins erum við að fá marga erlenda listamenn sem sýna hjá okkur undir nýju nafni,“ segir í tilkynningu frá galleríinu. Næsta sýning í galleríinu verður opnuð 20. júlí þegar Monique Becker og Hugo Mayer opna sýningu á verkum sínum auk Jóhönnu Þórhallsdóttur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.