Ungur senuþjófur

Fólkið mitt og fleiri dýr er gæðaþáttur

Þættirnir væru ekki eins án hans.
Milo Parker í hlutverki Gerrys Þættirnir væru ekki eins án hans.

Breski framhaldsmyndaflokkurinn Fólkið mitt og fleiri dýr, The Durrells in Corfu, sem RÚV sýnir á sunnudagskvöldum er mikill gæðaþáttur. Þar er fylgst með ekkjunni Louisu Durrell sem flyst árið 1935 með börn sín frá Bournemouth til grísku eyjunnar Korfú. Það tekur fjölskylduna vitanlega tíma að aðlagast nýjum stað og temja sér nýjan lífsstíl og það ævintýralega ferli framkallar góða skemmtun á sunnudagskvöldum.

Þátturinn er fullur af sjarma og húmor, en undir niðri glittir í alvarlegri hluti, eins og hlutskipti einstæðu móðurinnar sem á börn sem virðast fullkomlega áhugalaus um að rétta henni hjálparhönd. Keeley Hawes er einkar góð í hlutverki móðurinnar sem þarf að hafa alla öngla úti til að skapa sér og sínum boðlegar aðstæður. Senuþjófurinn er þó Milo Parker í hlutverki yngsta barnsins, Gerrys Durrell. Gerry er dýravinur hinn mesti, safnar dýrum, rannsakar þau og sinnir þeim af ást og umhyggju. Hann er heillandi barn, forvitinn og opinskár, og þættirnir væru ekki eins án hans.

Þessir skemmtilegu þættir sem eru við hæfi allra aldurshópa eru byggðir á bókum rithöfundarins og náttúrufræðingsins Geralds Durrell um fjölskyldu hans og líf þeirra á Korfú. Auk góðs handrits og framúrskarandi leiks er landslagið afar fallegt og heillandi og framkallar þrá eftir sól og grísku sumri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.