Jack White stýrir upptökum á nýju lagi eftir Guðbjörgu og My

Sænsk-íslenski þjóðlagadúettinn My Bubba gerir það gott vestanhafs

Mynd: My Bubba

Rokkstjarnan Jack White sem sló í gegn með hljómsveitinni The White Stripes stýrir upptökum og spilar á trommur í nýjasta lagi sænsk-íslenska dúettsins My Bubba sem kom út í dag. Þær Guðbjörg Tómasdóttir og My Larsdotter sem skipa dúettinn fengu boð um að taka upp lag með White eftir að sameiginlegur vinur þeirra sendi lag með þeim til tónlistarmannsins fjölhæfa.

Lagið sem þau tóku upp í sameiningu nefnist Gone og kemur það út í smáskífuröðinni Blue Series sem gefin er út af plötufyrirtæki White, Third Man Records – en um er að ræða 7 tommu vínylplötur sem teknar eru upp í snöggum upptökulotum þegar hinir ýmsu tónlistarmenn eiga leið framhjá stúdíói White í Nashville. Á B-hlið plötunnar er ábreiða þeirra stúlkna af laginu „You‘re Gonna make me Lonesome when you go“ sem Bob Dylan gerði frægt á plötunni Blood on the Tracks.

Nokkrir aðrir hljóðfæraleikarar komu að lögunum og má þar helst nefna bassaleikarann Jack Lawrence og hljómborðsleikarinn Dean Fertita úr hljómsveitinni Dead Weather á smáskífunni.

Hér fyrir neðan má heyra afrakstur samvinnunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.