Jamie XX spilar á óvæntum Boiler Room tónleikum í Reykjavík kvöld

Horfðu á viðburðinn í beinni á netinu

Hinn gríðarlega vinsæli tónlistarmaður Jamie XX er einn þeirra plötusnúða og tónlistarmanna sem munu koma fram á sérstökum Boiler Room tónleikum í Reykjavík í kvöld, en auk hans koma Plútó, Orang Volante, Kelsy Lu og JFDR fram.

Boiler Room er eitt áhrifamesta merkið í miðlun raf- og jaðartónlistar í heiminum í dag. Eftir að hafa byrjað sem vikulegur dansviðburður í London fyrir sjö árum hefur teymið á bak við Boiler Room staðið fyrir þúsundum viðburða um allan heim og er þeim ávallt streymt í beinni útsendingu á netinu.

Ekki er greint frá nákvæmri staðsetningu tónleikanna að öðru leyti en að þeir fari fram á þaki í Reykjavíkurborg. Aðeins lítill fjöldi gesta fær að vera viðstaddur tónleikana í eigin persónu og hægt er að sækja um það á vefsíðu Boiler Room. Ásóknin er hins vegar mikil og fékk blaðamaður höfnun þegar hann sótti um að fá miða fyrr í dag. Eftir sem áður verður hægt að horfa á DJ-settið hér fyrir neðan og á vefsíðu Boiler Room klukkan 21.00 í kvöld.

Jamie kemur aftur til Íslands í næsta mánuði en þá mun hann standa fyrir þriggja daga tónlistarhátíð sem nefnist Night and Day við Skógarfoss á Skógum ásamt hljómsveit sinni The XX.

Lestu meira um tónlistarhátíðina Night and Day.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.