Bubbi: „Eins og er vil ég sem minnst tala um þetta”

Bubbi Morthens sendir frá sér nýja plötu - Syngur um misnotkun sem hann varð fyrir - Ljóðabók um verbúðarlíf á leiðinni

„Ég er farinn að temja mér skoðanir Tíbet-búddista.“
Lífsskoðanir Bubba „Ég er farinn að temja mér skoðanir Tíbet-búddista.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Túngumál er nýr diskur frá Bubba Morthens og geymir þrettán lög. Spurður um kveikjuna að disknum segir Bubbi: „Þegar ég var ungur maður kynnti elsti bróðir minn, sem nú er látinn, fyrir mér tónlist frá Chile. Þá, í kringum 16–17 ára aldur, fór ég að hlusta á tónlist frá Mið- og Suður-Ameríku. Síðan hef ég alltaf sótt dálítið í þessa tónlist. Þegar ég fór að spekúlera í að gera þessa plötu þá hugsaði ég með mér að það væri gaman að vinna með áhrifin frá Suður-Ameríku, en ekki sem eftiröpun heldur miklu fremur að bræða saman áhrifin í sköpun sem yrði minn hljóðheimur og mín sýn á þessi áhrif. Þetta er kveikjan að þessari plötu, Túngumál.“

Það er greinilegt að ástin er þér hugleikin. Skynjarðu ástina á annan hátt eftir því sem þú verður eldri?

„Ég er búinn að uppgötva að það er til margs konar ást. Ein af þeim er hin skilyrðislausa ást til barnanna og síðan óhjákvæmilega sú ást sem við berum til móður okkar sem bar okkur. Síðan koma alls konar tilbrigði, eins og hin eigingjarna lostafulla ást unga mannsins, sem getur varað lengi og er að mörgu leyti síst allra ásta. Svo kemur að því að maður uppgötvar þá ást sem kannski skiptir mestu máli, vegna þess að hún gerir mann hæfan og færan til að gefa af sér, og það er ástin sem maður þarf að bera til sjálfs sín, það sem maður getur kallað sjálfskærleikur. Þessi ást er kannski sú mikilvægasta í öllu þessu ferli en ég er ekki viss um að maður finni hana fyrr en maður er orðinn nokkuð fullorðinn – ef maður er heppinn.“

Heiðarleg plata
„Mér finnst skipta máli að syngja um hluti sem alla jafna er ekki sungið um.“
Bubbi „Mér finnst skipta máli að syngja um hluti sem alla jafna er ekki sungið um.“

Í þessum lögum ertu að fjalla um svo ótalmargt, ekki bara ástina heldur hrunið, misnotkun, flóttafólk og reiðina í netheimum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

„Mér finnst skipta máli að syngja um hluti sem alla jafna er ekki sungið um. Tónlist er svo miklu meira en bara tónlist því hún býður upp á það að spegla samfélagið á svo margvíslegan hátt. Með því að binda saman tónlist eins og þessa við aðeins öðruvísi lýrík en ég geri kannski venjulega þá skapast dýnamík og hæfileg þensla og spenna sem verður aldrei óþægileg.

Þarna kennir ýmissa grasa. Eitt lag heitir Konur og er óður til konunnar en um leið hylling mín, með ást og kærleika í huga, til allra þeirra kvenna sem hafa runnið í gegnum líf mitt, frá móður minni og fram á daginn í dag. Svo er hylling til Leonards Cohen í lagi sem heitir einfaldlega Cohen-blús. Þarna er lag sem fylgir diskinum sem bónuslag, fjallar um hrunið og heitir einfaldlega Guð blessi Ísland.

Þannig að það er ýmislegt þarna að finna en fyrst og fremst held ég að þetta sé afar heiðarleg plata og laus við stæla. Kannski má segja að tónlistarlega séð sé hún afskaplega rómantísk þótt textarnir séu margir áleitnir og fjalli um óþægilega hluti eins og í laginu Bak við járnaðan himin þar sem ég syng um flóttafólkið okkar.

Annars er alltaf jafn snúið og erfitt að reyna að skilgreina eða fjalla um tónlistina sem maður skapar. Þetta er auðvitað tvíleikur að því leyti til að þarna er ég og svo er hlustandinn sem skapar sína mynd, sín hughrif og sinn heim. Hann hefur kannski allt aðra tilfinningu fyrir því sem ég er að gera en ég hef. Það er sjarminn við þetta.“

Heilbrigð umræða að hverfa

Lagið Ég hef enga skoðun fjallar um reiðina í netheimum. Þér blöskrar hún eins og svo mörgum öðrum.

„Þegar maður tekur ákvörðun og segir: Ég ætla ekki að hafa skoðun á þessu þá finnur maður fyrir ákveðnum létti og frelsi. Það þarf mikla skoðun til að hafa enga skoðun.

Það er mjög hollt, gott og nærandi að stíga ekki inn í þetta hávaðaöskur sem er svo áberandi í nútímanum. Það skiptir í rauninni ekki máli hvað þú segir, ef þú tjáir þig á netinu eða stígur inn í kommentakerfið máttu búast við því að úr verði forsíðufrétt. Svo er öskrað og gargað. Átján tímum síðan er svo einhver annar kominn í þennan sama ramma og þú varst í, með nýrri fyrirsögn og aftur er byrjað að öskra og garga. Þannig að heilbrigð málefnaleg umræða er að hverfa. Hún þrífst ekki í þessu umhverfi. Það er eins og það sé stöðugur úði og 15 stiga hiti og engin leið að glíma við arfann og lággróðurinn sem fer að þekja gróðurmoldina. Þú hefur ekki undan að rífa upp arfann. Allt er fullt af illgresi.“

Lag um misnotkun

Þarna er lag sem fjallar um misnotkun og heitir Skilaðu skömminni. Af hverju gerðirðu lag um misnotkun?

„Vegna þess að ég lenti í misnotkun sem ungur maður. Þetta er fjórða lagið mitt þar sem ég syng um þetta atvik. Mig minnir að fyrsta lagið hafi komið út 1994 en þá var ekkert byrjað að tala um þessa hluti. Þessi lög vöktu enga athygli, kannski vildu menn ekki setja fókus á þau.

Tónlistin er hraðvirkasta listformið eins og Platón sagði, ferðast hraðast og nær til manna skjótar en nokkuð annað. Kannski er það þess vegna sem ég set atvikið í þetta form. Ég orti reyndar ítarlega um þetta í ljóðabálknum Öskraðu gat á myrkrið. Þar er dregin upp miskunnarlaus mynd, en kannski var sá bálkur svo fullur af myndum og flæði að það fór framhjá mörgum að ég var að fjalla um þennan atburð og setti hann í orð nákvæmlega eins og hann gerðist.“

Heldurðu að þú eigir eftir að tjá þig um þessa misnotkun ítarlega annars staðar en í stuttum textum?

„Ég get ekki svarað því. Eins og er vil ég sem minnst tala um þetta vegna þess að ég er ennþá að vinna úr þessari reynslu.“

Sjálfið hverfur ekki

Þú fagnaðir nýlega sextíu og eins árs afmæli þínu. Hvernig finnst þér að eldast?

„Ég er fáránlega fjörugur, gríðarlega duglegur að hreyfa mig og á ung börn sem halda mér á tánum. Meðan ég eldist þetta vel þá er það ekkert mál. Hins vegar er staðreyndin sú að við fæðumst, eldumst, veikjumst og deyjum. Þetta er leiðin. Ég er, án þess að vera í þunglyndi, byrjaður að hugleiða það að þegar ég dey vil ég vita hver ég er. Það er mitt verkefni þessa daga að komast að því.“

Heldurðu að dauðinn sé endalok?

„Alls ekki. Ég er farinn að temja mér skoðanir Tíbet-búddista. Það er enginn möguleiki að dauðinn sé endalok öðruvísi en þannig að líkaminn hverfur og rotnar og verður að mold. Ég hef öðlast vissu innra með mér um að sjálfið hverfur ekki. Þá er ég að tala um hinn innsta kjarna.

Ef dauðinn kemur ekki þegar við erum ennþá ung og eigum allt fram undan heldur þegar við erum gömul og höfum náð að lifa góðu lífi þá er hann ekkert annað en fögnuður.“

Það er nóg fram undan hjá Bubba. Hann heldur afmælistónleika í ágúst og í september kemur út hjá Forlaginu ljóðabók hans, Hreistur. „Án þess að skilgreina það á neinn máta þá er þetta ljóðabálkur um hinn horfna heim verbúðar og farandverkamanna,“ segir Bubbi.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.