fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024

Súlukóngurinn

Um Balzac og Stefan Zweig

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 7. maí 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason skrifar:

Eina stórkostlegustu mannlýsingu sem finna má í heimsbókmenntunum gefur að líta í ævisögu sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu, en þar er um að ræða ævisögu franska ritsnillingsins Honore de Balzac (1799–1850) eftir annan frægan sígildan rithöfund, Austurríkismanninn Stefan Zweig (1881–1942). Sá síðarnefndi er íslenskum lesendum vel kunnur, ekki síst fyrir eigin endurminningar sem á okkar tungu heita Veröld sem var og notið hafa mikilla vinsælda, en margar fleiri bækur eftir Zweig hafa einnig verið þýddar á íslensku. En Balzac hefur, svo merkilegt sem það má heita, nær ekkert verið þýddur eða útgefinn hér á landi, og er hann þó einn af risum skáldsagnalistarinnar. Vonandi verður senn farið að bæta úr því, og kannski er útgáfan á ævisögunni sem Stefan Zweig skrifaði, en var útgefin eftir hans dag, upphafið á nánari kynnum íslenskra lesenda við franska jöfurinn.

Ljóð Baudelaire

En svo við víkjum aftur að skáldinu sem Stefan Zweig skrifar um, þá átti það við um Balzac eins og suma aðra að þótt hann væri afburðasnjall á sínu sviði þá var hans eins og misþroska krakki á öðrum; í daglegu lífi og í samskiptum og viðskiptum við annað fólk átti hann erfitt með að fóta sig. Þannig að þótt hann væri dáður fyrir ritverk sín um allan heim; þótt hann nyti mestrar velgengni franskra rithöfunda á sinni tíð, og var hann þó samtímamaður risa eins og Stendahls, Viktors Hugo og Alexandre Dumas; þótt lesendur hefðu varla við að taka fagnandi við hverju meistaraverkinu frá hendi Balzacs á fætur öðru, þá var hann mestalla ævina aðhlátursefni í París og um allt Frakkland fyrir smekkleysi, snobb og flumbrugang, auk þess að vera alger rati í peningamálum. Til er frægt ljóð eftir hið fræga franska skáld Charles Baudelaire sem heitir L’Albatros og hefur verið kallað Súlukóngurinn á íslensku. Súlan er eins og allir vita tígulegastur sjófugla og það á ekki síður við um frænda hennar Súlukónginn sem svífur í tign um himnasali. En eins og títt er um sjófugla þá tapar albatrosinn flughæfninni ef hann missir sjónar á hafinu, til dæmis ef hann lendir á þilfari skips, og kjagar þá um aumkunarverður og klaufskur undir hlátrasköllum slorugra fiskimanna. Ljóðið er myndlíking Baudelaire fyrir skáldið, sem í verkum sínum og hugarflugi er langt yfir dauðlegum mönnum, en virkar hins vegar hlægilegt innan um annað fólk. Nokkrir hafa reynt að snara þessu fræga ljóði á íslensku, meðal annars Magnús Ásgeirsson, og svona er ljóðið í útleggingu hans:

Í súlukónginn, sjófugl öllum stærri,
sér sæfarendur oft til gamans ná,
er fylgir skipum, öllum eyjum fjarri,
á óþreytandi flugi um loftin blá.

En þegar má á þiljum kóng þann líta ~
hve þungt og klaufskt og hlálegt er hans skrið!
Í rænuleysi langa vængi og hvíta
hann líkt og árar dregur sér við hlið.

Hve hlægilega ljótt er nú að sjá hann,
sem loftið klauf með slíkum tignarbrag!
Af stríðni reyk úr pípu einn blæs á hann,
og annar stælir klaufans göngulag.

Hvert skáld er þessa skýjajöfurs líki,
sem skjól og yndi kýs við storma fang:
Í fangadvöl í dægurglaumsins ríki
þess draumavængir hindra mennskan gang.

Baudelaire var 22 árum yngri en Balzac, en víst er að myndin í ljóðinu getur jafn vel átt við þá báða.

„Flottræfill“

Balzac var af alþýðuættum, en á hans dögum var sem kunnugt er mikið gert með ættgöfgi, ekki síst hjá stórveldum eins og Frakklandi, og það átti ekki minnst við í lista- og menntakreðsum Parísar með allt sitt snobb. Aðalsmenn voru grannir og fölleitir, báru þess merki að hafa ekki þurft að dýfa hendi í kalt vatn kynslóðum saman, en Balzac var breiðvaxinn og luralegar, þótti hafa mjög fas og hreyfingar almúgans. Og það var alveg sama hve skáldfrægð hans varð mikil, alltaf þráði hann samt það eitt heitast að verða viðurkenndur í hópi aðalsfólksins, sem auðvitað aldrei varð og dugði ekki til þótt hann bætti hinu tilgerðarlega „de“ fyrir framan sitt borgaralega eftirnafn. Hann dreymdi um að verða ríkur og búa í höllum og hafa þjóna á hverjum fingri, en hafði aldrei efni á því. En í viðleitni sinni til þess að komast í hóp hinna fínu niðurlægði hann sig oft, með yfirdrifnu smekkleysi og því sem á íslensku er kallað „flottræfilsháttur“ – í viðleitni sinni til að verða auðugur tók hann endalaust rangar og vanhugsaðar ákvarðanir sem ekkert gerðu nema steypa honum í stórkostlegar skuldir, sem hann barðist við alla ævi. Það var reyndar tvíeggja sem ógæfa því segja má að skuldaklafinn hafi rekið hann til að vinna við sitt fábrotna skrifborð að minnsta kosti hálfan sólarhringinn mestöll sín fullorðinsár, þannig að á aðeins tæpum aldarfjórðungi skrifaði hann meira en hundrað stór bókmenntaverk, langmest skáldsögur. Vinnudagurinn byrjaði gjarnan um miðnætti og hann skrifaði skáldsögur í óslitinni lotu til hádegis, en þá tók við önnur vinnutörn við prófarkir, bréfskrif og fleira.

Þessi óhemjulega vinnuharka, sem var keyrð áfram með kaffidrykkju, sumir segja fimmtíu bollum á sólarhring, tærði hann að lokum upp, svo um fimmtugt var hann orðinn andlegt og líkamlegt flak og varð honum að bana. Átti hann þó enn óskrifaðar margar skáldsögur sem hann var búinn að leggja drög að. Það merkilega er að vinnuharkan og kaffidrykkjan var það sem hann var lengst af helst kunnur fyrir á Íslandi, en í kennslubók í mannkynssögu fyrir menntaskólanema var hans að vonum getið, en sagt eitthvað á þá leið að hann hafi verið stórskuldugur vinnuþjarkur og dáið úr kaffidrykkju. (Þetta kvað vera úr kennslubók eftir Ólaf Hansson, en sú bók var með fleiri fyndnum anekdótum. Þar mun einnig hafa staðið eitthvað á þessa leið: „Georgíska eða grúsíska var móðurmál Stalíns. Orðið mamma á georgísku þýðir pabbi.“)

Blankheit og höfundarréttur

Hin stórkostlegu peningavandræði Balzacs eru vissulega undrunararefni nútímafólki þegar tekið er tillit til útbreiðslu hans og vinsælda, því hann var ekki aðeins metsöluhöfundur í sínu heimalandi, heldur einnig í Þýskalandi, Rússlandi, Bretlandi og Ítalíu svo eitthvað sé nefnt, en slíkt myndi á okkar tímum tryggja mönnum vægast sagt rúman efnahag. En þá er þess að gæta að á dögum Balzacs var höfundarréttaröryggi mun lakara en síðar varð; Bernarsáttmálinn var til að mynda ekki gerður fyrr en hálfri öld eftir andlát hans. Algengt var að höfundar á hans tímum semdu bara um vissa greiðslu á síðu eða örk, en að útgefendur hirtu síðan allan aukaágóðann ef salan yrði góð. Í heimalandinu, Frakklandi, gat hann að vísu samið um góð kjör eftir að hann hafði náð sinni frægð og vinsældum, en utan landsins var hins vegar allt á floti. Þannig var það til dæmis að um leið og ný Balzac-bók kom út í París var hún umsvifalaust kópíéruð og prentuð í risaupplagi handan landamæranna, í frönskumælandi Belgíu, og ódýrum risaupplögum þaðan dreift um allt Frakkland, án þess höfundurinn fengi eyri fyrir það. Samtímamaður Balzacs og álíka vinsæll var hinn enski Dickens, sem naut líka óhemju útbreiðslu í Bandaríkjunum, en mun hafa móðgað marga vestanhafs og þótt vera með kvabb er hann í boðsferð til vestrænu heimsálfunnar fór að nefna þá staðreynd að hann fengi aldrei neitt fyrir sölu og dreifingu verka sinna þar. Kannski má segja að nefndir höfundar, frá fyrri hluta nítjándu aldar, hafi búið í því sæluríki og útópíu sem Píratar vilja innleiða á ný, að öllu sé stolið en hugverkasmiðir lifi síðan á sníkjum og betli.

Endalaust glaðlyndi og sögur

En svo við víkjum aftur að hinni nýútkomnu bók, ævisögu Balzacs eftir Stefan Zweig, þá er það Sigurjón Björnsson sem skilar okkur henni í frábærri þýðingu, en Skrudda gefur út og á heiður skilinn fyrir. Zweig var árum saman að viða að sér gögnum og heimildum, en eitthvað af því glataðist honum þegar hann hraktist af sínum heimaslóðum í byrjun seinna stríðs; höfundurinn fyrirfór sér eins og margir vita í Brasilíu á styrjaldarárunum og bókin kom svo út í stríðslok. Og mannlýsingin, portrettið af Balzac, er algerlega konunglegt. Höfundurinn vann og vann, einn síns liðs að sjálfsögðu, en þegar hann fór út á meðal fólks þá kunni hann sig ekki, lét sauma sér fáránlega æpandi hefðarföt og gekk með hlægileg montprik; hann gleymdi jafnframt að reima skóna og lét sér nægja að kemba hárlubbann með dökkum olíum sem svo láku í stofuhita yfir andlitið. Hann var að vísu alltaf í góðu skapi, þótti frábærlega fyndinn og orðheppinn og sögur og brandarar streymdu upp úr honum hvar sem hann fór, en enginn annar kom að orði og hann gleymdi öllum kurteisisreglum; allir vissu að hann var snillingur á sínu sviði en það dugði ekki til, hann var álitinn einhvers konar furðufyrirbæri, og mislukkuð kvennamál hans, alls konar ótímabærar bisnesshugmyndir, húsbyggingar og fjármálaævintýri sem hann hellti sér út í með hraklegum árangri, allt leiddi þetta til þess að hann varð að eilífu að athlægi, var endalaus skotspónn háðs og gríns Parísarblaðanna og slúðurdálkanna. En ekkert sló hann út af laginu, hann gat endalaust hlegið, spaugað og unnið að sinni list; meira að segja þegar hann var settur í skuldafangelsi og hafður vikum saman í opnu rými innan um samansafn glæpa- og misindismanna, þá fékk hann bara til sín einfalt borð, koll, pappír, blek og fjaðrapenna og hélt áfram að skrifa meistaraverk í prísundinni.

Svona menn eru nokkurs virði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Fylkir kaupir Sigurberg frá Stjörnunni

Fylkir kaupir Sigurberg frá Stjörnunni
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Eyðir hverri einustu mynd eftir að hafa verið fitusmánuð fyrir framan alþjóð – Unnusti hennar er heimsfrægur

Eyðir hverri einustu mynd eftir að hafa verið fitusmánuð fyrir framan alþjóð – Unnusti hennar er heimsfrægur
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Ólýsanleg sjón blasti við 10 ára dreng þegar hann vaknaði – Allir í fjölskyldunni látnir

Ólýsanleg sjón blasti við 10 ára dreng þegar hann vaknaði – Allir í fjölskyldunni látnir
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Eiginkonan umdeilda tjáði sig í gærkvöldi – Hefur áður kallað eftir brottrekstri

Eiginkonan umdeilda tjáði sig í gærkvöldi – Hefur áður kallað eftir brottrekstri
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Leikmenn Coventry steinhissa á því hversu lélegur þessi leikmaður United var

Leikmenn Coventry steinhissa á því hversu lélegur þessi leikmaður United var
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva