Menning

Twin Peaks slær í gegn: Fyrsti þátturinn frumsýndur í gærkvöldi

Twin Peaks fellur vel í kramið hjá áhorfendum

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 22. maí 2017 12:09

Fyrsti þátturinn í nýju þáttaröðinni af Twin Peaks var frumsýndur í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Alls verða átján þáttir sýndir í þessari þáttaröð og líkt og í eldri þáttunum, sem mörkuðu ákveðin tímamót í framleiðslu á sjónvarpsefni snemma á tíunda áratugnum, eru hugmyndasmiðirnir þeir David Lynch og Mark Frost.

Fjölmargir leikarar sem komu fram í eldri þáttunum, til að mynda Kyle MacLachlan og Dale Cooper, leika stór hlutverk í þáttunum sem hófu göngu sína á Showtime í gærkvöldi.

Lítið hefur spurst út um söguþráð nýju þáttanna sem virðast hafa fallið vel í kramið hjá sjónvarpsáhorfendum í gærkvöldi. Þættirnir gerast 25 árum eftir atburðina í fyrri þáttunum og líkt og áður fjalla þeir um ákveðið sakamál sem gerir íbúum lífið leitt.

Á kvikmyndavefnum IMDB.com eru nýju þættirnir með einkunnina 9,8 en um 1.100 notendur síðunnar eru á bak við þá einkunn. Þá eru þættirnir með einkunnina 9,2 hjá notendum Metacritic.

Vefurinn Indiewire gefur þáttunum einkunnina 83 af 100 mögulegum en stórblaðið New York Times gefur þáttunum einkunnina 70 af 100 mögulegum eins og The Hollywood Reporter og Variety. Í umfjöllun Guardian kemur fram að mörgum spurningum sé enn ósvarað eftir fyrsta þáttinn, sem var um tvær klukkustundir að lengd, og nauðsynlegt sé að bíða og sjá áður en dómur fellur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af