Vikulegt mannát

Margir voru étnir í Luther

Það er ekkert gamanmál þegar mannæta gengur laus.
Luther í vanda Það er ekkert gamanmál þegar mannæta gengur laus.

„Hve mikið af heilanum át hann?“ voru ein fyrstu orðin í seinni hluta spennuþáttarins um Luther sem RÚV sýndi síðastliðinn þriðjudag. Mér féllust hendur. Ég er of borgaraleg í hugsun til að þola svona tal. Í miðjum þætti leit svo út fyrir að mannætan, sem Luther eltist við, ætlaði að leggja sér heila fjölskyldu til munns. Ég faldi andlitið í höndum mínum, skelfingu lostin. Ég er venjulega ágætlega hrifin af spennuþáttum en er samt þannig gerð að ég á erfitt með að horfa upp á mannát. Það getur ekki verið að ég sé ein um þá viðkvæmni. Það var lán í óláni að þættirnir um Luher voru bara tveir, ég hefði orðið að taugahrúgu ef ég hefði þurft að horfa lengi á vikulegt mannát.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þættirnir um Luther séu ekki fyrir mig. Þeir eru vissulega vel gerðir og leikur er framúrskarandi og spenna er í loftinu, en ofbeldið er einfaldlega of mikið. Ég ólst upp við snyrtileg morð hjá Agöthu Christie og vil ekki of mikil frávik í þeim efnum.

Ég athugaði hvaða spennuþáttur tekur við af Luther á RÚV. Það mun vera bresk spennuþáttaröð, Grafin leyndarmál, Unforgotten. Þar ber til tíðinda að lögregla hefur morðrannsókn þegar bein ungs manns finnast í húsgrunni 39 árum eftir hvarf hans. Þetta finnst mér hljóma nokkuð traustvekjandi. Tekið er fram að þættirnir séu ekki við hæfi barna. Það var reyndar líka tekið fram í dagskrárlýsingu á Luther, en þar hefði vel mátt bæta við – sérstaklega með tilliti til mannátsins – að viðkvæmt fullorðið fólk ætti að varast að horfa á þættina. Mannát er nefnilega ekki fyrir alla!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.