Documenta 14 opnuð í Aþenu

Ein mikilvægasta myndlistarsýning heims

Mynd: reuters

Ein mikilvægasta myndlistarsýning heims, fimmæringurinn Documenta, hefst um helgina í Aþenu í Grikklandi, en þetta er í fjórtánda skipti sem sýningin er haldin frá árinu 1955. Þar til nú hefur hátíðin ávallt verið haldin í borginni Kassel í Þýskalandi en í fyrsta skipti hefur verið brugðið á það ráð að skipta hátíðinni í tvennt, fyrri hlutinn fer því fram í Aþenu en sá síðari hefst í Kassel í júní og stendur yfir í þrjá mánuði.

Hinn pólski sýningarstjóri hátíðarinnar, Adam Szymczyk, hefur sagt tilganginn með nýjunginni vera að nýta menninguna til að beina sjónum að efnahags- og flóttamannakrísunni sem riðið hefur yfir Evrópu að undanförnu og sérstaklega kristallast í Grikklandi. Hann hefur sagst vilja nota hátíðina til að endurskoða og jafnvel færa til valdajafnvægið í Evrópu.

160 listamenn taka þátt í sýningunni sem nefnist „Learning from Athens“ og fer fram á 40 sýningarstöðum víðs vegar í Aþenu, en stærsta sýning borgarinnar verður í Þjóðarsafni Grikklands fyrir nútímalist (EMST).

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.