Mikilvæg skilaboð leigubílstjóra

Emily Watson sýndi magnaðan leik í Sungið fyrir Jenny

Sýndi stórleik í hlutverki syrgjandi móður.
Emily Watson Sýndi stórleik í hlutverki syrgjandi móður.

Breska kvikmyndin Sungið fyrir Jenny (A Song for Jenny) sem RÚV sýndi síðastliðið föstudagskvöld var einkar áhrifamikil. Myndin er byggð á samnefndri bók Julie Nicholson en dóttir hennar Jenny, 24 ára gömul, var meðal 52 fórnarlamba hryðjuverkaárása í London árið 2005. Emily Watson lék Julie, sem starfaði sem prestur, og sá veröld sína hrynja þegar dóttir hennar dó. Watson sýndi magnaðan leik sem hin örvæntingarfulla syrgjandi móðir.

Þetta var lágstemmd mynd, algjörlega án tilgerðar. Þarna var ekkert yfirspennt drama. Þetta var mynd um venjulegt fólk sem stóð skyndilega frammi fyrir þeir skelfilegu staðreynd að ókunnur maður, drifinn áfram af hatri og heift, ákvað að sprengja sig í loft upp í lest og tók aðra með sér í dauðann. Fréttir eins og þessar heyrum við alltof oft og sjáum í sjónvarpsfréttum myndir af vettvangi. Okkur eru sögð nöfn og sjáum andlit þeirra sem dóu og fyllumst sorg því við vitum að það fólk átti sér líf, vonir og væntingar. Jenny var í hópi þessa fólks og nú þekkjum við hana vegna sögunnar sem móðir hennar skrifaði um hana og myndarinnar sem gerð var um hana.

Fallegasta og hjartnæmasta atriði myndarinnar sneri að samskiptum móðurinnar og leigubílstjóra. Þegar hann komst að því að hún hefði misst dóttur sína í árásinni keyrði hann hana frá London til Reading og neitaði að taka við greiðslu. Þegar þau kvöddust sagði hann við hana: „Þér finnst heimurinn örugglega ömurlegur núna. Ég vil að þú vitir að það er til gott fólk. Ekki láta þá hafa betur. Hugrekki.“ Hún svaraði: „Ég reyni.“ „Þá ertu búinn að borga mér,“ sagði hann.

Þessi hluti myndarinnar hefði vel getað verið skáldaður af hæfileikaríkum handritshöfundi sem vildi senda áhorfendum falleg skilaboð. Staðreyndin er sú að þetta gerðist raunverulega. Ókunnugur maður sýndi manneskju í sorg kærleika og rétti fram hjálparhönd. Julie Nicholson sagði seinna frá því í viðtali að hún hefði reynt að hafa uppi á leigubílstjóranum, en fann hann ekki.

Myndin fjallaði um djúpa sorg, sem ljóst var að myndi aldrei hverfa. Julie, sem var full af reiði og vanmætti, ákvað í lokin að láta hatrið ekki hafa yfirhöndina, vegna þess að Jenny dóttir hennar hafði aldrei hatað. Hún hefði vart getað heiðrað minningu dóttur sinnar á betri hátt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.