Mammút spilar á Hróarskeldu

77 atriði voru kynnt til leiks í dag - Í góðum félagsskap The Weeknd, Artic Fire og Foo Fighters

Sveitin vinnur hörðum höndum að sinni fjórðu breiðskífu. Gestir Hróarskelduhátíðarinnar munu eflaust fá að njóta afrakstursins í sumar.
Mammút Sveitin vinnur hörðum höndum að sinni fjórðu breiðskífu. Gestir Hróarskelduhátíðarinnar munu eflaust fá að njóta afrakstursins í sumar.

Í morgun var greint frá 77 hljómsveitum sem munu koma til með að spila á Hróarskelduhátíðinni í sumar. Hátíðin, sem óneitanlega er flaggskipið í tónlistarsenu Norðurlandanna, fer fram 24.júní til 1.júlí og munu gestir hátíðarinnar geta notið 173 tónlistaratriða frá 30 löndum.

Áður höfðu listamenn eins og The Weeknd, Foo Fighters, Arcade Fire, Solange og A Tribe Called Quest verið kynntar til leiks og því voru tónlistarunnendur spenntir að heyra hvaða fleiri listamenn munu koma til með að stíga á stokk í Danveldi.

Í hópi þeirra sveita sem voru kynntar til leiks í morgun var íslenska hljómsveitin Mammút sem mun koma fram í fyrsta sinn á hátíðinni.

Mammút, sem fyrst vakti athygli árið 2004 þegar sveitin bar sigur úr býtum í Músíktilraunum, hefur gefið út þrjár breiðskífur, Mammút (2006), Karkari (2008) og Komdu til mín svarta systir (2013). Sú síðastnefnda var meðal annars valin „plata ársins“ á íslensku tónlistarverðlaununum sama ár. Von er á fjórðu breiðskífunni á þessu ári en sveitin safnaði um 1,4 milljónum króna á Karolina Fund til þess að standa straum af útgáfunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.