Between Mountains sigraði í Músíktilraunum 2017

14 og 16 ára vinkonur af Vestfjörðum komu, sáu og sigruðu

Mynd: Brynjar Gunnarsson fyrir Músíktilraunir

Dúettinn Between Mountains vann hljómsveitakeppnina Músíktilraunir 2017, en úrslitakvöld keppninnar fór fram í Hörpu síðastliðinn laugardag. Tólf sveitir spiluðu á úrslitakvöldinu og var tónlistin sem hljómaði að venju mjög fjölbreytt, meðal annars rapp, rokk, kammertónlist, djass og popp.

Sigursveitin Between Mountains er skipuð hinni fjórtán ára gömlu Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur frá Suðureyri, sem syngur og spilar á hljómborð, og hinni sextán ára Ásrósu Helgu Guðmundsdóttur frá Núpi í Dýrafirði, en hún syngur og spilar á xylófón. Þær léku lögin „Into the Dark“, „Lost in Space“ og „Little Sunny Flower“ og gáfu þau góð fyrirheit um framhaldið, lágstemmd og snotur popplög með ljúfum textum, grípandi melódíum og vel smurðum samsöng. Hljómsveitin hefur einungis verið starfrækt í um mánuð, en hún var stofnuð í mars með það fyrir augum að taka þátt í söngkeppni Samfés og Músíktilraunum.

Hinar verðlaunasveitirnar voru rokkdúettinn Phlegm, sem lenti í öðru sæti, og hljómsveitin Omotrack, sem lenti í þriðja. Katla Vigdís og Ásrós Helga úr Between Mountains voru valdar söngvarar Músíktilrauna, Helgi Freyr Tómasson úr Hewkii var bæði valinn gítarleikari Músíktilrauna og rafheili tilraunanna, Flemming Viðar Valmundsson úr Phlegm var valinn bassaleikari Músíktilrauna og hljómsveitarfélagi hans, Ögmundur Kárason, var valinn trommuleikari Músíktilrauna. Píanó-/hljómborðsleikari Músíktilrauna var Dagur Bjarki Sigurðsson, öðru nafni Adeptus, rappsveitin Hillingar fékk viðurkenningu fyrir textagerð á íslensku, og hljómsveitin Misty var valin Hljómsveit fólksins í símakosningu.

Mynd: Brynjar Gunnarsson fyrir Músíktilraunir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.