Kóreógrafía átrúnaðarins

Úr kvikmyndinni Union of the North.
Smjörglíma á nammibarnum Úr kvikmyndinni Union of the North.

Fórn

Listrænir stjórnendur: Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson.

Listamenn: Bryce Dessner, Erna Ómarsdóttir, Gabríela Friðriksdóttir, Íslenski dansflokkurinn, Margrét Bjarnadóttir, Matthew Barney, Ragnar Kjartansson, Valdimar Jóhannsson.

Leikmyndahönnuður: Signe Becker

Ljósahönnuður: Björn Bergsteinn

Sýnt í Borgarleikhúsinu.

Það eru tengsl mannsins við æðri máttarvöld, það hvernig hin andlega hlið mannsins finnur sér farveg í skipulögðum hreyfingum líkamans sem eru kjarninn í Fórn, nýjasta verki Íslenska dansflokksins og því stærsta í sögu hans.

Að kalla viðburðinn dansverk í eintölu er reyndar misnefni enda er hér um að ræða fjögur sjálfstæð en þematengd listaverk auk nokkurra smærri uppákoma, og undirtitillinn „hátíð nýrra helgisiða“ því kannski meira lýsandi fyrir þessa fjögurra og hálfs tíma sviðslistahátíð og veislu skynfæranna.

Helgiathöfnin sem dansverk

Helgisiðir, athafnir og ritjúalar eru fyrirfram ákveðin röð hreyfinga sem manneskja eða hópur fer í gegnum, yfirleitt í trúarlegum tilgangi – hefðföst kóreógrafía átrúnaðarins. Slíkar athafnir geta haft táknræna merkingu, til dæmis getur maður verið hreinsaður með framkvæmd ritjúalsins, maður þakkar guði fyrir eða óskar formlega eftir góðri uppskeru eða velgengni, minnir sig á það sem þarf að muna, og svo framvegis. Í tilteknum ritjúalískum vígslum breytist svo staða einstaklings í samfélaginu, hann er tekinn inn í hópinn, hann verður fullorðinn, verður hluti af fjölskyldu, er undirbúinn fyrir eftirlífið – kristnir menn kalla þetta skírn, fermingu, giftingu og sálumessu, en hliðstæðar athafnir eru til í nánast öllum, ef ekki öllum, menningarsamfélögum.

En helgiathafnir hafa þó ekki alltaf skýra táknræna merkingu handan hreyfinganna. Í hinni japönsku Shinto-trú leika helgiathafnir til dæmis stórt hlutverk en tilgangur þeirra og merking er algjörlega óljós. Þeir sem iðka trúna álíta merkingu athafnanna raunar ekki skipta neinu máli – það sé engin önnur merking, athöfnin er merkingin. Hluti af því að trúa er hreinlega að endurtaka hreyfingarnar sem forfeður manns hafa farið í gegnum og endurtekið.

Það er augljóst að þetta viðfangsefni er virkilega áhugavert fyrir danshöfunda sem eyða dögunum í að velta fyrir sér, skipuleggja og kóreógrafera hreyfingar líkama. Hugmyndasmiðirnir Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson hafa sagt að hugmyndin að Fórn hafi fæðst þegar þau voru að hugsa um að giftast en hafi ekki fundið trúarbrögð eða helgiathafnir sem þeim fannst henta sinni trúlausu tilveru. Þá lá beinast við að skapa bara sína eigin athöfn eins og þau höfðu áður gert með listaverk, þar sem það væri listin frekar en guð sem gæfi þau saman.

Listsköpun og trúariðkun eru auðvitað nátengd, upphaf listsköpunar má rekja til trúariðkunar, og samtímalistin hefur að ýmsu leyti fært sig inn á það svið sem áður tilheyrði trúnni. Nú þegar hefðbundin trúarbrögð leika æ minni hlutverk í lífi meginþorra almennings býður rými listarinnar upp á stað til að velta fyrir sér lífinu, tilverunni, og gildum sem liggja utan þess hversdagslega.

Fórn er því listahátíð þar sem skapaðir eru nýir helgisiðir fyrir hinn guðlausa samtíma, ritjúöl þar sem hreyfingarnar eru markmið í sjálfu sér, athafnir þar sem ímyndunaraflið er dýrkað frekar en einhver yfirnáttúrulegur guðdómur.

Í myrkustu kimum sálarinnar

Fyrsta verkið á Stóra sviðinu er dansverkið Shrine eftir Ernu og Valdimar. Sigtryggur Berg myndlistarmaður byrjar verkið með líkamlega tjáningarríkum og kómískum lagstúf, fettir sig, engist um og syngur „Jibbi-ja-jei. Jibbí-ja-jóóó!“

Eþíópísk-sænska söngkonan Sofia Jernberg tekur svo við og syngur tilraunakenndan söng með sinni skræku rödd, klædd í bleika Dunkin‘ Donuts-svuntu inni í stórum uppblásnum kleinuhring. Dansararnir minna á fólk í fjölleikahúsi þar sem þeir lyfta, toga og kasta á milli sín gúmmíslöngum, sem liggja einnig í hrúgu á miðju á sviðinu.

Líkamar dansaranna eru fullir af spennu, engjast um, þeir kyrja og anda skarpt, raddir þeirra renna saman á meðan líkamarnir finna sameiginlegan takt og hreyfingu. Nokkrar sterkustu myndir verksins, og þær sem hafa helst setið eftir hjá mér, eru einmitt þegar líkamar tveggja eða fleiri dansara hafa runnið saman og myndað hinar ýmsu furðuverur, höfuðlausar eða með marga útlimi, margfættir hárbrúskar og gúmmíslönguhrúgur sem blása upp bleikar blöðrur.

Myrk hljóðmynd liggur undir dansinum en mikið af hljóðunum kemur frá dönsurunum sjálfum. Lyftutónlistarsalsa brýtur upp verkið og þá mætir leiðsögumaður hátíðarinnar, Friðgeir Einarsson, sem virkar alltaf eins og eins konar „comic relief“, með innskot þar sem hann spjallar um hinn líkamlega dauða og býður þannig upp á ákveðinn lestur á verkinu. Allt í einu fóru plastslöngurnar að líta út eins og innyfli. „Er þetta dauðinn, jarðarför, sálumessa?“ hugsaði ég. Undir lokin var unnið með ljósin á virkilega skemmtilegan hátt, þannig að hárkollur og konfettí virtust stökkva upp úr ljóshafinu á eigin spýtur, eins og þau hafi fæðst upp úr engu, stóri hvellur og upphaf tilvistarinnar.

Fyrsti hluti kvöldsins bauð því upp á nokkrar virkilega flottar myndir og hreyfingar en einhvern veginn fannst mér aðeins vanta skýrari stefnu og meiri kraft til verkið hreyfði við mér tilfinningalega.

Reiði, hatur og lífsstílsmarkaður

Í hléinu var starfræktur markaður í anddyri leikhússins, og var hann sagður vera tilraun til að búa til samtal skapandi fólks og samfélags. Íslenskir sviðslistamenn hafa í auknum mæli lagt sig fram við að skapa viðburði frekar en verk sem standa ein og sér á sviðinu. Þorleifur Örn Arnarsson bjó þannig líka til „hátíð“ í kringum Njálu í Borgarleikhúsinu og í nýjasta verkinu virðist hann ætla að halda áfram að pæla í leikhúsinu sem mikilvægum samkomustað samfélagsins. Mér fannst sölubásar markaðarins reyndar ekki beint til þess fallnir að skapa mikið samtal en tilraunin hleypti að minnsta kosti umtalsvert meira lífi í hléin en annars hefði verið.

Erna og Valdimar ferðuðust um anddyrið í hliðarkarakterum sínum, sýndu steppdans, keramíkgerð og voru með uppistand, og leiðsögumaðurinn Friðgeir tók fólk tali. Í litla salnum voru tveir dansarar með kennslustund í því sem þeir kölluðu hatursjóga þar sem lögð var áhersla á að kalla fram hatrið í okkur. Þetta var fín skemmtun, og átti eflaust að kallast á við myndbandsverkið Dies Irae, eða Dagur reiði, eftir Gabríelu Friðriksdóttur sem sýnt var á Nýja sviðinu.

Trúarsálmur var spilaður afturábak og myndaði þannig dáleiðandi en drungalegan nið undir fimmtán mínútna svarthvítri stuttmynd Gabríelu. Karl- og kvenpersónur máluðu hver aðra, grófust í sand og birtust upp úr sjó. Í þessu brotakennda og marglaga myndbandsverki sá maður margar sömu myndirnar og í Shrine, bæði hárbrúska og gúmmíslöngur, en Shrine ku einmitt vera innblásið af stuttmyndinni.

Ljúfsár stemning unglingsáranna

Þegar maður lokar augunum og hlustar á tónlist er hægt að staðsetja mismunandi hljóð á ólíkum stöðum í ímynduðu rými fyrir framan mann. Hávært hljóð birtist nálægt manni en lágt er fjarlægt, djúpir tónar eru nálægt jörðinni en háir ofarlega og svo framvegis.

Þessi rýmistilfinning fyrir hljóði varð ljóslifandi þegar horft var á ballettinnn Ekkert á morgun eftir Ragnar Kjartansson og Margréti Bjarnadóttur við tónlist Bryce Dessner, tónskálds og gítarleikara hljómsveitarinnar The National.
Kvendansararnir átta voru klæddir í stórar uppbrettar gallabuxur, hvíta sokka, hvítan bol og með rauðan varalit – einhvers konar ofurhversdagslegt eða „normcore“ útlit. Allar héldu þær á ljósbrúnum stálstrengjagítörum, slógu einn og einn hljóm til skiptis og mynduðu þannig í sameiningu tónverk Dessners.

Þar sem dansararnir færðu sig um sviðið komu hljómarnir úr mismunandi áttum og mynduðu þannig margradda víðóm. Hljóðið dansaði um rýmið á meðan dansararnir stigu samhæfð spor fram og aftur á sviðinu, tóku klassískar rokkgítarleikarapósur, stigu ballettspor og sneru sér í hringi þannig að hljóðið úr gítörunum titraði og dansaði.

Þegar ég horfði á einsleitt útlit dansaranna voru hugrenningatengsl mín helst við unglingsstelpu með rokkstjörnudrauma að æfa sig á gítarinn sinn. Tónlistin og dansinn kveikti ljúfsára stemningu og sterkar tilfinningar unglingsáranna þegar framtíðin er algjörlega óráðin og svo fjarlæg að hún virðist raunar varla vera til.

Þó að verkið hafi verið dáleiðandi og virkilega fallegt fannst mér það virka svolítið út úr kú og grafa undan heildarmyndinni. Stemningin í því var gjörólík hinum verkunum, mun bjartari og einfaldari. Tenging við einhvers konar athöfn eða manndómsvígslu fannst mér enn fremur virka frekar langsótt. Þó vissulega sé hægt að hugsa um unglingsárin sem einhvers konar vígslu inn í samfélag fullorðinna.

Spekúlatíf mannfræði

80 mínútna kvikmyndin Union of the North sem bandaríski myndlistarmaðurinn Matthew Barney vann í samstarfi við Ernu og Valdimar og sýnd var í Stóra salnum í lok kvölds, var það verk sem tengdist helgisiðaþemanu hvað skýrast. Barney hefur áður sökkt sér ofan í heim trúartákna og ritjúala í tilraunakenndum lista-kvikmyndum sínum.

Á tvískiptum skjánum fylgjumst við með undirbúningi giftingar í Kringlunni. Karl gengur inn í Hagkaup og kona inn í Útilíf, og þar undirbýr hópur starfsfólks þau undir athöfnina. Þarna erum við hins vegar í einhvers konar hliðstæðum veruleika þar sem ritjúölin eru okkur alls ókunn, annarleg, líkamleg og jafnvel grótesk. Fótleggir brúðgumans eru rakaðir, hann látinn svolgra prótín á meðan brúðurin er látin hjóla á þrekhjóli á meðan henni er nánast drekkt í rauðum orkudrykkjum og svo framvegis. Í stað þess að rannsaka þá ritjúala sem fólk þarf að fara í gegnum þegar það gengur í hjónaband eru hér skapaðar algjörlega nýir og óhefðbundnir – kannski væri hægt að tala um einhvers konar spekúlatífa mannfræði.

Þarna á sér stað fjöldi magnaðra sena og munu fæstir leikhúsgestir líta á nammibarinn í Hagkaupum sömu augum eftir áhorfið. Að lokum hittast brúðhjónin í miðju verslunarmiðstöðvarinnar, á kleinuhringjastaðnum Dunkin‘ Donuts þar sem söngkonan Sofia Jernberg gefur þau saman með söng í risastóra plastkleinuhringnum. Þarna hafa Erna og Valdimar loksins fengið giftinguna sem þau óskuðu sér.

Myndin er uppfull af vísunum í neyslumenningu samtímans og þar er innrím sem tengist inn í hreyfiorðaforða Shrine, persónur og stemningu.

Þegar allt kemur til alls hafa Erna, Valdimar, dansflokkurinn og vinir skapað virkilega áhugaverða og líflega kvöldstund – sem reynir vissulega á úthaldið. Ekkert verkanna bylti hugarheimi mínum eða tilfinningalífi en þar voru mörg virkilega áhugaverð augnablik. Þótt þarna sé um virkilega framúrstefnulegar og framsæknar danslistir að ræða held ég að fjölbreytnin og hin fjölmörgu uppbrot – sem mér fannst að mörgu leyti draga úr heildarmynd og áhrifamætti verksins – hljóti að gera verkið (tiltölulega) aðgengilegt fyrir óreynda gesti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.