fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Mannkostir eru mikilvægari en einkunnir

Kristján Kristjánsson heimspekiprófessor fer fyrir rannsóknarmiðstöð um mannkosti og dygðir við Háskólann í Birmingham

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 29. apríl 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Samkvæmt hinni Aristótelísku hugmynd þá felst mikilvægi menntunar í mannkostum ekki bara í notagildinu. Það er auðvitað gott ef maður fær aðeins betri einkunn í stærðfræði eða stendur sig betur á vinnustaðnum, en fyrir okkur getur það ekki verið meginmarkmið mannkostamenntunar heldur er það einfaldlega að maður lifir betra lífi,“ segir Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham og aðstoðarforstjóri Jubilee-rannsóknarmiðstöðvarinnar fyrir mannkosti og dygðir.

Á undanförnum 20 árum hefur Kristján gefið út fjölda bóka og greina um fjölbreytt heimspekileg efni, til að mynda frelsið, tilfinningalífið, sjálfið, siðfræði og heimspeki menntunar. Fyrir skemmstu var nýjasta heimspekirit hans, Aristótelísk mannkostamenntun (e. Aristotelean character education) valin besta bókin á sviði menntunarfræði í Bretlandi árið 2015 af hinu breska félagi áhugamanna um kennslufræði.

Prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham.
Kristján Kristjánsson Prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham.

Í bókinni byggir Kristján fræðilegar stoðir undir hið hagnýta starf sem hann vinnur um þessar mundir hjá Jubilee-rannsóknarmiðstöðinni, en það er stærsta rannsóknarstofnun í heiminum á sviði siðferðisuppeldis – þess sem hann kallar „character education“ eða mannkostamenntun.

Þurfum að hugsa um karakter frekar en einkunnir

Kristján hefur starfað við Jubilee-rannsóknarmiðstöðina frá árinu 2012 en eins og nafnið gefur til kynna hefur stofnunin það að markmiði að rannsaka og stuðla að aukinni mannkostamenntun í breska skólakerfinu. Hjá stofnuninni starfar á þriðja tug heimspekinga, félagsfræðinga, sálfræðinga og menntunarfræðinga og felst langstærstur hluti vinnunnar í rannsóknum og fjölbreyttum íhlutunum á sviði mannkostamenntunar.

En hvað er átt við með þessu hugtaki „character education“ og af hverju ættum við að leggja áherslu á slíka menntun?

„Það er ansi erfitt að þýða þetta hugtak „character“ á íslensku. Það er oft þýtt sem skapgerð, en það er kannski heppilegra að tala um mannkosti. Samkvæmt breska menntamálaráðuneytinu á uppbygging á „karakter“ að vera einn af fimm grunnþáttum menntunarinnar í breskum skólum. Ein ástæðan fyrir því að svo mikið er rætt um þetta hugtak um þessar mundir er að atvinnurekendur eru sagðir kvarta mikið yfir því að nemendur – jafnvel nemendur úr góðum skólum, sem hafa mikla þekkingarlega burði – skorti oft persónulega og siðferðilega hæfileika, til dæmis til að vinna saman í liði og ná árangri á vinnustaðnum,“ segir Kristján.

„Pólitíkusarnir í Bretlandi eru því sífellt að tala um þennan „karakter“ sem þurfi að kenna. Það er hins vegar ekki alltaf skýrt hvað þeir meina – og þeir meina ekki alltaf það sama. Þegar maður talar við stjórnmála- og embættismenn áttar maður sig fljótlega á því að það sem þeir eiga raunverulega við er ekki alveg það sama og við hjá Jubilee-miðstöðinni. Það sem þeir virðist hafa langmestan áhuga á eru hlutir eins og sjálfsagi, sjálfstraust, sterk sjálfsmynd, þrautseigja og þolgæði – það sem á ensku er kallað „grit“. Þeir halda að þetta séu þættirnir sem atvinnurekendur séu að kalla eftir.
Við teljum vissulega að góð mannkostamenntun eigi að byggja upp þessa þætti en þegar við tölum um karakter erum við fyrst og fremst að tala um siðferðilegar dygðir á borð við góðvild, réttlætiskennd, hluttekningu, umhyggju, þakklæti og annað slíkt. Mikilvægi mannkostamenntunar á nefnilega ekki að felast í notagildinu einu saman, betri einkunnum og frammistöðu á vinnustaðnum, heldur hlýtur meginmarkmiðið að vera betra líf sem er gott í sjálfu sér. Við þurfum að viðurkenna að hamingja sé markmið mannlífsins og við þurfum að velta fyrir okkur hvað það er sem gerir fólki kleift að verða hamingjusamt, að rækta sjálft sig og rækta hamingjuna.

Allar rannsóknir benda til þess að til að sjálfsagi, þrautseigja og þolgæði séu ekki næg forsenda fyrir hamingjusömu og innihaldsríku lífi heldur þurfi maður líka að hafa þessar siðferðilegu dygðir til að bera.

Dagsdaglega stend ég í því að reyna að sannfæra mjög hagnýtt-þenkjandi fólk, sérstaklega í stjórnmála og atvinnulífinu, um þetta – að það sé líka nauðsynlegt að byggja upp þessar siðferðilegar dygðir. Við viljum til dæmis ekki þjálfa upp mjög þrautseiga og þolgóða glæpamenn. Mikilvægi þess sést líka í öllum þeim hneykslismálum sem hafa komið upp að undanförnu í Bretlandi, til dæmis í sambandi við hjúkrun. Við komum ekki í veg fyrir slík mál með því að gera hjúkrunarfræðingana þolbetri og með meira sjálfstraust,“ segir Kristján.

Umtalaður tilraunaskóli

Við Jubilee-stofnunina er unnið að fjölbreyttum rannsóknum á siðferðisþroska og tilraunum í mannkostamenntun, meðal annars í sérstökum unglingaskóla á vegum stofnunarinnar þar sem námsefni og hugmyndir eru prófaðar á nemendum.

„Háskólinn í Birmingham ákvað að byggja nýjan unglinga- og framhaldsskóla á háskólakampusnum til að gera tilraunir með – svolítið eins og æfingaskóli KHÍ var í gamla daga. Það eru tvö ár síðan við fórum af stað með þennan skóla, sem er fyrir nemendur á aldrinum 11 til 18 ára. Arkitektúrinn og allt er hannað út frá þeirri grunnhugmynd að þetta sé ekki skóli sem leggi bara áherslu á hefðbundnar námsgreinar, heldur einnig mannkostamenntun. Í starfsviðtölunum spurðum við til að mynda alla kennara hvernig þeir ætluðu að flétta mannkostamenntun inn í fagið sem þeir voru að kenna, hvort sem það var efnafræði, líffræði eða saga. Þetta hefur gengið gríðarlega vel og eftir aðeins tvö ár er þetta orðinn langsamlega eftirsóttasti skólinn í Birmingham. Það eru mörg hundruð börn sem bíða þess að fá skólapláss en þetta er ekki einka- heldur ókeypis skóli. Þetta verkefni hefur vakið gríðarlega athygli og má til dæmis nefna að Theresa May boðaði til fundar fyrir nokkrum vikum þar sem hún kallaði til rektora frá flestum stóru háskólunum í Bretlandi og lagði til að þeir gerðu það sama og við í Birmingham.“

Oft þegar kallað er eftir meiri áherslu á tiltekið svið í menntakerfinu er krafa um að búin sé til ný námsgrein sem sé svo kennd við hlið hinna hefðbundnu námsgreina, en það hljómar eins og þið teljið mannkostamenntunina þurfa að vera hluta af öllum námsgreinum í skólastarfinu?

„Já, þetta er einmitt það sem við höfum verið að berjast gegn. Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því að það sé einn tími í stundatöflunni sem sé notaður sérstaklega í eitthvað svona, eins og var þegar lífsleikninni var komið á á Íslandi, en við leggjum miklu frekar til að þetta sé fléttað inn í aðrar námsgreinar. Í nánast hverri einustu námsgrein vakna siðferðilegar spurningar, hvort sem það eru spurningar um hlýnun jarðar í líffræði eða spurningar hvort helstu hetjur mannkynssögunnar hafi verið illmenni eða góðmenni. Það er mjög erfitt að finna kennslugrein þar sem ekki er hægt að flétta inn einhverjum spurningum um siðferðileg efni nokkuð auðveldlega – nema þá kannski helst í einhverri hreinni stærðfræði. Ég held að þetta sé miklu árangursríkara, enda gengur krökkum oft illa að yfirfæra þekkingu úr einni námsgrein yfir í einhverja aðra.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mæla siðferðisþroska unglinga

Auk tilraunaskólans í Birmingham vinnur Jubilee-miðstöðin að víðtækum rannsóknum, til að mynda á siðferðisþroska ungmenna í Bretlandi og siðfræðinámi starfsstétta.

„Nýlega gerðum við rannsókn sem náði til fjögur þúsund 14 og 15 ára nemenda í Bretland auk þess sem gerðar voru samanburðarrannsóknir í Bandaríkjunum, Makedóníu og Taívan. Þar voru lagðar fyrir nemendur ýmsar siðferðilegar klípusögur. Þetta var margþætt próf þar sem oft voru mörg möguleg rétt svör við klípunum, auk þess sem nemendur gátu tekið fram hverjar þeim þótti góðar ástæður fyrir því að velja tiltekinn kost og hverjar slæmar. Þetta var því alls ekki einfeldningslegt próf – þó að próf af þessu tagi séu alltaf umdeilanleg.

Það merkilegasta var að okkur tókst nánast að afsanna tvær mjög viðteknar flökkukenningar í Bretlandi um hvað það er sem að ráði því að krakkar byggi upp góðan karakter.

Í fyrsta lagi kom það okkur mikið á óvart að við fundum enga fylgni milli íþróttaiðkunar almennt og siðferðisþroska, en margir hafa haldið því fram að þátttaka í íþróttum byggi upp karakter. Það má þó setja þann fyrirvara að við gerðum ekki greinarmun á einstaklings- og hópíþróttum, en þá má vel vera að við hefðum fundið einhvern mun. Við fundum ekki heldur neina fylgni milli siðferðisþroska og þátttöku í ræðukeppnum – þannig að Morfís virðist ekki stuðla að auknum siðferðisþroska!

Hins vegar greindum við marktæka fylgni milli siðferðisþroska og nokkurra annarra tómstundastarfa, til dæmis þess að vera virkur í tónlist eða leiklist utan skóla og að vinna í einhverjum góðgerðar- eða líknarstörfum. Stóri gallinn við svona sálfræðirannsóknir er hins vegar að þær sýna einungis fylgni en við vitum ekki hvort er orsök og hvort afleiðing. Jókst siðferðisþroski barna við það að syngja í kór og vera í leiklistaklúbbi eða völdu börnin þessar tómstundir einmitt vegna þess að þau höfðu mikinn siðferðisþroska?

Í öðru lagi – og þetta var kannski stóra fréttin hér í Bretlandi – virðist skólagerðin ekki skipta máli. Þvert á allar spár fundum við engan mun á nemendum í einka- og ríkisreknum skólum. Góðar siðferðiseinkunnir fundust jafnt í ríkisreknum sem einkaskólum, í borg sem sveit, litlum sem stórum skólum. Eina stóra breytan sem við sáum var að ef skólastjórinn hafði áhuga á því að skólinn væri karakterskóli þá stóð skólinn sig betur.“

Siðferðilegar klípur og fyrirmyndir

Í nýjustu bók sinni skrifar Kristján um siðfræði Aristótelesar og mannkostamenntun, en siðfræði Aristótelesar byggir á þeirri grunnhugmynd að dygðugt líferni leiði til farsæls lífs.
Aristóteles Í nýjustu bók sinni skrifar Kristján um siðfræði Aristótelesar og mannkostamenntun, en siðfræði Aristótelesar byggir á þeirri grunnhugmynd að dygðugt líferni leiði til farsæls lífs.

En hvernig aukum við siðferðisþroska barna, hvernig kennum við þeim mannkosti? Er það ekki mjög flókið mál?

„Það eru eiginlega tvö tengd vandamál sem við stöndum frammi fyrir þegar við veltum fyrir okkur kennslu á mannkostum. Annars vegar eru það spurningar um kennsluaðferðirnar sjálfar og svo hins vegar mælingar á árangrinum.

Hvað aðferðirnar varðar þá höfum við hjá Jubilee aðallega verið að vinna með tvær aðferðir sem má segja að séu á vissan hátt Aristótelískar. Það verkefni sem hefur gengið hvað best hjá okkur er verkefni þar sem unnið er með sögur. Eitt slíkt verkefni sem við höfum unnið með um 17 þúsund níu til ellefu ára krökkum nefnist riddaradygðirnar. Þá eru gerðir útdrættir úr ýmsum riddarasögum, til dæmis sögum um Arthúr konung, Shakespeare-leikritum og Don Kíkóta. Svo útbúum við kennsluefni þar sem krakkarnir eru hvattir til að velta fyrir sér hvað í fari þessara persóna geti talist dygðir og hvað lestir, hvort þau hafi lent í svipuðum aðstæðum og hvaða dygðir þau myndu vilja temja sér.

Hin aðferðin sem við höfum notað er að notast við siðferðilegar fyrirmyndir – en það er alveg dæmigerð Aristótelísk aðferð. Þá fáum við afreksfólk á einhverju sviði – til dæmis fólk sem hefur sýnt af sér sérstaka lofsverða breytni í lífinu, fórnað sér fyrir aðra, bjargað fólki út úr brennandi húsi eða eitthvað slíkt – til að koma inn í skólana. Við leyfum krökkunum að spyrja það fólk spjörunum úr og hugsanlega tileinka sér í kjölfarið einhverja af þessum persónulegu kostum.
Stóri vandinn er hins vegar mælingavandinn sem hangir yfir öllu þessu sviði. Suma hluti er tiltölulega auðvelt að mæla. Til dæmis er ljóst að með frekar stuttri íhlutun – kannski sex vikna verkefni – er hægt að stórbæta dygðalæsi hjá krökkum. Þetta sést til dæmis á hugarkortum sem þau eru látin gera fyrir og eftir íhlutunina, þar sem þau skrifa niður öll orð og hugtök sem þau tengja við orð eins og „þakklæti.“ Fyrir íhlutunina eru hugarkortin oftar en ekki mjög tómleg og einfeldningsleg, en eftir íhlutunina eru þau orðin miklu flóknari, þau fara að gera sér grein fyrir tengslum milli þakklætis og ýmissa annarra hluta, eins og góðvildar, hluttekningar og svo framvegis. Þetta sést líka á þeim svörum sem þau gefa ef þau eru beðin um að nefna dæmi um þakklæti úr eigin lífi, fyrst eru svörin stutt og einfeldningsleg en seinna verða þau dýpri og úthugsaðri. Þannig að það er mjög auðvelt að sýna fram á framför í skilningi á siðferðilegum efnum og því hvernig hægt er að laga þau að aðstæðum í eigin lífi.

Auðvitað vonum við að einstaklingar sem hafa ríkari skilning á siðferðilegum hugtökum og hafa velt fyrir sér sögum sem aðrir hafa gengið í gegnum séu betur undirbúnir þegar þeir lenda í einhverju svipuðu sjálfir. Hins vegar höfum við ekki getað sýnt fram á að þetta hafi raunveruleg áhrif á hvernig krakkarnir breyta og hegða sér í daglegu lífi – einfaldlega vegna þess að við höfum ekki getað framkvæmt svo stórar og flóknar rannsóknir.

Við höfum reynt að mæla þetta með ýmsum aðferðum, til dæmis spurningalistum til kennara og foreldra, en vandamálið þar er hversu sterk þóknunaráhrifin eru í slíkum rannsóknum. Þótt þessar mælingar sýni mun getum við ekki sagt að við höfum sýnt fram á verulega breytta siðferðilega hegðun út frá ströngum vísindalegum mælikvörðum.“

eftir ítalskan málara frá Úmbríuhéraði, um 1500.
„Guðfræðilegu dygðirnar: Trú, gjafmildi og von“ eftir ítalskan málara frá Úmbríuhéraði, um 1500.

Mynd: The Metropolitan Museum of Art is licensed under CC0 1.0

Enginn grundvallarmunur milli trúarbragða

En er það ekki einmitt þessi áhersla á mælanleika í nútímanum sem er ein helsta ástæðan fyrir því að þroskun siðvitsins – sem virðist nánast ómögulegt að mæla – hefur orðið að aukaatriði í menntakerfinu á meðan bókvit sem hægt er að prófa hefur orðið að aðalatriði?

„Jú, algjörlega. Ef við lítum á sögu skólamenntunar í gegnum aldirnar má segja að í gegnum alla fornöldina og miðaldir hafi það verið tekið sem gefinn hlutur að hlutverk skóla væri að byggja upp siðferðilega þenkjandi og þroskaða einstaklinga. Á miðöldum var þetta gert í gegnum biblíunám og trúarlega menntun. Á 20. öldinni verður svo þetta trúarlega rof þar sem ekki er lengur hægt að gera ráð fyrir því að allir krakkarnir í skólanum trúi á guð – og jafnvel þó að þeir trúi á einhvern guð þá eru það ólíkir guðir. Á sama tíma eykst þessi gríðarlega krafa um að ná árangri í hefðbundnum skólagreinum og það fara að birtast kannanir á borð við PISA, þar sem aðeins er mældur árangur í stærðfræði, náttúruvísindum, lestri og öðru slíku.

Við þetta bætist sú vantrú sem kom upp þegar stóra kenningarlíkanið um siðferðiskennslu í skólum á 20. öldinni, þrepakenning Kohlbergs, féll. Það tókst aldrei að sýna fram á verulega sterka fylgni milli þess á hvaða þrepi siðferðilegar rökhugsunar börn voru og hvernig þau breyttu á skólalóðinni. Þegar engin tengsl sáust milli siðferðilegrar rökhugsunar og hegðunar barna fór fólk að efast um tilgang þess að kenna þetta. Í kringum 1950 eða 1960 og fram á 21. öldina var því tímabil mikillar svartsýni um möguleika karaktermenntunar skólum. Auðvitað héldu foreldrar áfram að ala upp börnin sín en kennarar áttu að einbeita sér að því sem þeir voru góðir í, að kenna sín fög.“

Þú nefnir mismunandi trúarbrögð og bakgrunn fólks í samfélaginu í dag. Gengur almenn mannkostamenntun upp í fjölmenningarsamfélaginu? Er mismunandi hegðun sem telst dygðug í mismunandi trúarbrögðum og mismunandi mannkostir sem veita farsæld í mismunandi samfélögum?

„Vitaskuld er blæbrigðamunur á milli fólks með mismunandi bakgrunn en þessi munur er hins vegar miklu minni en margir halda. Það hafa verið gerðar gríðarlega víðtækar rannsóknir á skapgerðarstyrkleikum og dygðum í tugum ólíkra landa og það virðist skipta voðalega litlu máli hvort foreldrar séu kristnir, múslimar, búddistar eða trúlausir. Flestir virðast vilja að börnin tileinki sér svipaðar dygðir. Maður sér því alltaf sömu dygðirnar á listanum yfir mikilvægustu dygðirnar: heiðarleiki, góðvild, réttlæti, þakklæti, umburðarlyndi og svo framvegis.

Ég er ekki hafna þessum mun algjörlega, það eru auðvitað vissar dygðir sem eru sérstaklega tengdar ákveðnum trúarbrögðum. Í kristninni er til dæmis sérstök áhersla á fyrirgefninguna sem er ekki jafn rík í sumum öðrum trúarbrögðum, svo eru ýmsir hlutir sem Aristóteles lagði áherslu á sem er lögð minni áhersla á annars staðar, til dæmis að fólk væri stolt af afrekum sínum og hefði sterka sjálfsmynd. Ég held samt að þeir sem geri mest úr þessum mun séu yfirleitt að líta á kenningar einhverra ofsatrúarmanna.

Við höfum reynt að vera meðvituð um þetta og útbúa námsefni sem stuðar ekki fólk með einhvern tiltekinn trúarlegan bakgrunn, en þetta hefur ekki reynst vera mikið vandamál. Ég held að okkur hafi tekist mjög vel að þræða einstigið á milli ólíkra trúarlegra og siðferðilega hugmynda. Til dæmis má nefna að í Birmingham eru 20 prósent íbúanna múslimar og við höfum verið að vinna með skólum þar sem eru nánast eingöngu krakkar með múslimabakgrunn. Verkefnin okkar hafa alls ekki gengið verr þar en annars staðar – og jafnvel betur ef eitthvað er.“

Laugardaginn 29. apríl kl. 9.30–18.00 fer fram ráðstefna um heimspekileg viðfangsefni Kristjáns Kristjánssonar í Háskóla Íslands, stofu 101 í Odda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Sjáðu Pochettino lesa yfir blaðamönnum í gær – Þeir svöruðu honum fullum hálsi

Sjáðu Pochettino lesa yfir blaðamönnum í gær – Þeir svöruðu honum fullum hálsi
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Segir frá fundinum með Klopp sem var boðaður á óvenjulegum tíma

Segir frá fundinum með Klopp sem var boðaður á óvenjulegum tíma