Menning

Til hvers grínumst við?

Ricky Gervais velti fyrir sér mannskepnunni og gríninu

Kristján Guðjónsson
Þriðjudaginn 25. apríl 2017 07:30

Í lok síðustu viku kom breski grínistinn Ricky Gervais fram í Eldborgarsal Hörpu með uppistandið sitt Humanity. Þetta er fyrsta nýja uppistandið sem Ricky Gervais ferðast með um heiminn í sjö ár.

Hann sló fyrst í gegn á heimsvísu sem seinheppni og óbærilega óviðeigandi yfirmaðurinn David Brent í sjónvarpsþáttunum The Office árið 2001. Síðan þá hefur hann verið einn vinsælasti grínisti heims, skrifað og leikið í þáttum og bíómyndum, haldið úti útvarpsþáttum og stýrt verðlaunahátíðum.

Viðstöðulaus hlátur í 90 mínútur

Eldborg var troðfull af vel klæddum og þokkalega vel stæðum „thirty og forty-somethings“ – það er líklega ekkert grín að safna 8–15 þúsund krónum fyrir miða ef maður er einstæð móðir í láglaunastarfi. Sjálfur var ég mættur fyrir hönd DV, mögulega óheppilegasti kandídatinn til að skrifa um uppistand, hvorki hef ég mikla þekkingu á forminu og finnst fyndni frekar ofmetin, er tiltölulega alvörugefinn og ekkert sérstaklega hnyttinn.

Með góðum vilja tókst mér þó að skella nokkrum sinnum upp úr yfir bröndurum írska upphitarans Sean McLoughlin sem grínaðist með ólöguleg typpi og leiguverðið í London. Eftir á að hyggja var hlutverk hans í dagskránni þó kannski fyrst og fremst að sýna muninn á nokkuð fyndnum manni annars vegar og hins vegar einum vinsælasta grínista heims.

Á meðan fyndni Írans var þvinguð og hláturinn ónáttúrulegur má segja að fólk hafi eiginlega hlegið viðstöðulaust frá því að Ricky Gervais steig inn á sviðið, eftir dramatískt inngöngustef með hljóðbrotum úr sögu mannkyns, og þar til hann kvaddi 90 mínútum síðar. Alþýðlega klæddur Gervais spilaði sig sem belgingslegan karakter, meðvitaðan um eigin hæfileika og heimsfrægð – líkti sér við Jesú, nema hann sjálfur hefði þó gert meira en sá gamli.

Á öld viðkvæmninnar

Uppistandið fjallaði ekki nema að litlu leyti um mannkynið sem það var nefnt í höfuðið á, en Gervais notaði þó þetta heildarhugtak til að tengja saman ýmsar ólíkar sögur og brandara, samband mannfólks og dýra sem honum er sérstaklega hugleikið, sem og spurningar um vísindi, trú og guðleysi.

Ef það var eitthvert eitt þema sem gekk í gegnum allt uppistandið var það þó fyrst og fremst leikur á mörkum þess leyfilega og vangaveltur um hvort það séu einhver umfjöllunarefni sem ekki megi hlæja að. Gervais virðist umhugað að svara gagnrýni sem hann hefur fengið fyrir brandara sína, til að mynda frá hneykslunargjörnum og hörundsárum Twitter-múgnum. Í umfjöllun um þetta passaði hann sig að stíga örugglega nokkrum sinnum á og yfir strikið og brandararnir snertu á öllu frá fátækt og barnadauða til barnaníðs og nauðgana, elli og dauða til kynleiðréttinga.

Það er kannski rétt hjá Gervais, við lifum á sérstaklega viðkvæmum og hneykslunargjörnum tímum – jafnvel húmorslausum.

Réttindahreyfingum ólíkra undirokaðra hópa hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu áratugum. Þær hafa bent á og sýnt hvernig undirokun og jaðarsetning á sér stað jafnt með orðum sem öðrum athöfnum. Þessar hreyfingar hafa krafist þess að fólk viðurkenni að orðum fylgi ábyrgð og þegar fólk sé í forréttindastöðu þurfi það vera meðvitað um þau áhrif sem orð þeirra hafa – hvernig þau taki þátt í staðalímyndasköpun og undirokun hópa með því að tala um þá á tiltekinn hátt.

Aukin meðvitund um þetta gerir það að verkum að margir eru orðnir óhræddir við að krefja fólk um að taka ábyrgð á orðum sínum. Í grunninn hlýtur þetta að vera gott mál og í flestum tilfellum eiga slíkar ábendingar og gagnrýni fullkomin rétt á sér – sama þótt forréttindablindum spéfuglum finnist leiðinlegt að vera gagnrýndir fyrir rasistabrandarana sína.

Staðan flækist hins vegar þegar fólk er bæði ófært og óviljugt til að reyna að skoða það sem liggur handan bókstaflegrar merkingar orðanna. Það sem við segjum er nefnilega ekki bara á yfirborðinu, heldur getur verið margrætt, og vafið inn í mörg merkingarlög, sveiflast milli kaldhæðni og einlægni – stundum þannig að sá sem talar veit varla sjálfur nákvæmlega hvað hann meinar. Orð merkja ekki alltaf það sem þau virðast á yfirborðinu, samhengi og ramminn sem þau eru sett inn í leikur hlutverk.

Gervais lagði þannig sérstaka áherslu á að fólk yrði að geta aðskilið umfjöllunarefni og það sem er skotspónn grínsins, brandarinn hans um Caitlyn Jenner væri ekki endilega transfóbískur – þótt hún væri transkona.

Einhver mikilvægasti eiginleiki mannskepnunnar

Sú kenning sem Gervais bauð upp á sem andsvar við hneykslunargirninni var einhvers konar lausnarkenning um húmor, brandarar séu til þess fallnir til að takast á við málefni sem okkur þykir erfið en losa þannig um spennu – veita okkur tilfinninga losun. Þannig átti saga úr jarðarför móður hans að sýna hvernig hægt er að takast á við erfiðleika með grínið að vopni.

Þó að ég sé að mörgu leyti sammála Gervais um gildi húmorsins í að takast á við erfiðleika þá er ekki hægt að líta framhjá því að persónuleg sorg fjölskyldu er allt annað en kerfisbundin undirokun ákveðinna hópa. Að bræður grínist við jarðarför móður sinnar er allt annað en þegar frægur uppistandari fyrir framan hóp af vel stæðu forréttindafólki ákveður að nota staðalímyndir til að gera grín að hópum sem eiga erfitt uppdráttar í samfélaginu einmitt vegna fordóma og þeirra staðalímynda sem eru tengdar við þá. Það lýsir svolítið mikilli blindu á dýnamíkina í samfélaginu að furða sig á því af hverju jaðarhóparnir geta ekki bara hlegið að erfiðleikunum eins og þú.

Það hvort maður aðgæti hvernig maður grínast er ekki endilega spurning um undanlátssemi við „félagslega réttlætisriddara“ heldur getur það verið spurning um virðingu og mannúð – en það er einmitt önnur merking orðsins „humanity.“

Ég er enn fremur sammála því að grínið er einhver mikilvægasti eiginleiki mannskepnunnar. Gervais sagði frá því hvernig hann og bróðir hans hafa þá reglu að ef þeim dettur í hug eitthvað fyndið skuli láta það vaða umhugsunarlaust. Þetta fannst mér fallegt.

Flest spendýr eiga það sameiginlegt að leika sér, og grín og annað bull er ein áhugaverðasta birtingarmynd slíks dýrslegs leiks í mannlegu samfélagi, þar sem við leyfum sköpunargáfunni að leika frjálsri við að tengja saman ólíka hluta merkingarheimsins, búa til tengingar sem eru svo óvæntar og fáránlegar að okkur bregður – og við getum ekki annað en hlegið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 5 dögum

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai
Menning
Fyrir 5 dögum

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður
Menning
Fyrir 9 dögum

Bókin á náttborði Steingerðar

Bókin á náttborði Steingerðar
Menning
Fyrir 10 dögum

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“
Menning
Fyrir 11 dögum

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“
Menning
Fyrir 11 dögum

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?
Menning
Fyrir 13 dögum

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí
Menning
Fyrir 13 dögum

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd