fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Venjulegheitin eru viðbragð við sýndarmennsku samtímans

Heiðar Kári Rannversson sýningarstjóri veltir fyrir sér hvort normið sé hin nýja framúrstefna

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 9. mars 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listin er heimur ímyndunaraflsins og hins óvenjulega. Þegar við stígum inn í rými listarinnar er okkur boðið að láta okkur dreyma um allt það ómögulega og óhefðbundna sem við fáum ekki ráðrúm til að velta fyrir okkur í amstri hversdagsins.

Þar yfirgefum við hinn hefðbundna praktíska og hagnýta þankagang hvunndagsins og nálgumst tilveruna með hinu frjálsa, leikandi og skapandi augnaráði listarinnar. Þessari nálgun er þó einnig hægt að beina aftur að hversdagsleikanum og greina hið óvenjulega í því venjulega, það háleita og ægifagra í því smáa og „ómerkilega.“

Á undanförnum árum hafa æ fleiri ungir íslenskir myndlistarmenn leitað í þessa átt eftir innblæstri og efnivið fyrir verk sín. Þeirri kenningu varpar sýningarstjórinn Heiðar Kári Rannversson að minnsta kosti fram í sýningunni Normið er ný framúrstefna sem stendur yfir í Gerðarsafni í Kópavogi um þessar mundir. Þar birtast okkur ofur-venjulegir hlutir í nýjum og annarlegum aðstæðum: IKEA-hillur, pottablóm, flíspeysur, brauðmylsna, innkaupalisti, biðstofa og límband.

Það má segja að sýningin sé hugleiðing um samband hversdagsleikans og listarinnar, um fagurfræði hvunndagsins og hvernig sviðsetningarkröfu samtímans er svarað með upphafningu hins venjulega. Blaðamaður DV hitti Heiðar Kára og ræddi við hann um hversdagsleika, venjulegheit og fegurðina í hinu ómerkilega.

Að gera hversdagsleikann framandi

Rými listarinnar er staður sem þar sem maður fær smá frí frá hversdagslífinu, maður stígur inn í annan veruleika og tileinkar sér í stutta stund annan þankagang en dagsdaglega. Af hverju ætti fólk þá að mæta á listsýningu og skoða listaverk sem sýna því bara þennan sama hversdagsleika?

„Ég held að við þurfum stundum á því að halda að einhver ýti við þessum hversdagsleika svo við áttum okkur á því að hann er nú ansi merkilegur, jafnvel spennandi og fallegur. Þetta er eitthvað sem ég álít að myndlistin geti gert. Hún getur hreyft við hversdagsleikanum, dregið fram það sem er einstakt við hann eða jafnvel gert hann framandi fyrir okkur. Í mörgum verkum á þessari sýningu er verið að færa venjubundna, fjöldaframleidda og jafnvel ómerkilega hluti inn í listasamhengið, en í þessu nýja samhengi sér maður hlutina í nýju ljósi og á nýjan hátt. Þetta hafa listamenn auðvitað gert í heila öld en mér finnst þessi aðferð þó alltaf jafn áhugaverð – það gerist svo oft eitthvað óvænt.“

Þorvaldur Þorsteinsson (1960–2013).
Aðstæður, leðurskór Þorvaldur Þorsteinsson (1960–2013).

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Venjulegheit sem viðbragð við sýndarmennsku

Á sýningunni eru verk eftir nokkra unga íslenska myndlistarmenn starfandi í dag sem fást mikið við hversdagslega og ofur-venjulega hluti. Er þetta sérstaklega sterk tilhneiging núna og ef svo er, veist þú af hverju?

„Já, ég held að þetta sé að einhverju leyti viðbragð við nútímanum. Það hljómar kannski eins og gömul klisja en mér sýnist þetta að einhverju leyti vera viðbragð við hraða og sýndarmennsku nútímans. Til að bregðast við þessu fer fólk inn á heimilið og gerir eitthvað sem er venjulegt, upphefur það sem er „normal“ og jafnvel pínulítið „banalt“ eða ómerkilegt. En það sem er sérstakt er að þetta er mjög meðvituð afstaða eða viðhorf – við gætum jafnvel tengt þetta við það sem hefur verið kallað „normcore“,“ segir Heiðar Kári og vísar þar í nýlegt hugtak sem notað hefur verið í menningarumræðunni um tískustrauma sem einkennast af meðvitaðri upphafningu á því venjulega og tilgerðarlausa.

Það er tískumeðvituð tilraun til að bregðast við þeirri kröfu sem er gerð á fólk í samtímanum að það þurfi stöðugt að vera frumlegt, tjá einstaklingseðli sitt og sjálf í klæðaburði og ímyndarsköpun. Eða svo vitnað sé í sýningarskrána: Merking hugtaksins í hugum margra er markviss endur­vinnsla og endurmat ungrar kynslóðar á verkum tíunda áratugarins, sem birtist sem stílbragð þar sem hið venjulega er upphafið. Ef þú sérð fyrir þér einstakling í aðeins of stórum gallabuxum frá The Gap og klunnalegum hvítum strigaskóm þá nærðu hugmyndinni.

En það er þó ekki svo einfalt að hægt sé að komast hjá sýndarmennsku eða sviðsetningu sjálfsins með því að vera bara venjulegur: „Það er auðvitað ljóst að einnig þetta er sviðsetning – sviðsetning á hversdagsleikanum. Ég held að þessir listamenn séu nefnilega mjög meðvitaðir um að jafnvel hversdagsleikinn sjálfur sé tilbúningur. Hann er því ekkert endilega raunverulegri en hvað annað. Þetta flækir málið en gerir verkin um leið svolítið meira spennandi,“ segir Heiðar Kári.

Loji Höskuldsson (fæddur 1987).
Sóleyjar í glasi og Mjúkur kaktus, útsaumur Loji Höskuldsson (fæddur 1987).

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Viskastykki og brauðmylsna

Í skilgreiningunni á normcore á sýningarskránni er talað um endurmat á verkum tíunda áratugarins, og á sýningunni dregur hann einmitt þráð á milli ungra listamanna í dag og nokkurra myndlistarmanna sem voru starfandi og virkir á tíunda áratugnum.

„Ég þykist sjá einhverja snertipunkta milli myndlistar tíunda áratugarins og svo þeirrar myndlistar sem yngri kynslóð listamanna hefur verið að gera á undanförnum árum. Mér fannst þessir snertipunktar einmitt vera á sviði hversdagsleikans. Það má segja að þetta sé vítt merkingarsvið sem svo er hægt að flokka ýmis önnur hugtök undir, til dæmis hið heimilislega, notalega, hversdagslega, venjulega og það sem er normal. Þó að ég reyni að vissu leyti að stilla þessum verkum upp saman brýt ég flokkunina líka upp, því mig langaði ekki endilega að gera einstrengingslega sögulega sýningu eða úttekt. Mig langaði frekar að draga fram þetta „attitude“ eða þessa listrænu sýn, sem ég tel að gangi í gegnum margar kynslóðir.“

Heiðar bendir enn fremur á að ekki einungis sé hversdagsleikinn viðfangsefni listaverkanna heldur sé þar unnið með hversdagsleg efni og form sem gætu talist óvenjuleg í listrýminu til að stunda fagurfræðilegar tilraunir: IKEA-hillur, skúringamoppur, viskastykki, flíspeysur, brauðmylsnu og tómar sultukrukkur.

Þá sé vafalaust hægt að greina kynjapólitískan þráð í verkunum:
„Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en seint í ferlinu að margir listamannanna á sýningunni væru að vinna með einhvers konar heimilisiðnað, vefnað, útsaum, prjón, unnið á heimilislegan hátt og í anda eða beinu framhaldi af handverki kvenna. Þó að mér finnist það frekar óljóst hjá yngri listamönnum þá er vissulega einhver afstaða fólgin í þessu – að útsaumur sé jafn merkilegur og að mála á striga eða gera skúlptúr. Þarna er verið að vinna með þetta handverk eða efni á alveg glænýjan hátt. Ég held til dæmis að Arna Óttarsdóttir hafi kynnt nýrri kynslóð það sem hægt er að gera með vefstólinn, nota hann til að gera myndlist.“

Arna Óttarsdóttir (fædd 1986).
Blaðsíða, vefnaður Arna Óttarsdóttir (fædd 1986).

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Normal framúrstefna

„Titill sýningarinnar er einhvers konar útúrsnúningur á verki Arnfinns Amazeen,“ segir Heiðar Kári og bendir á peysu prjónaða af listamanninum, en á henni stendur upp á dönsku: „Normalitet er den nye avantgarde.“ Þetta er mótsagnakennd fullyrðing enda framúrstefnan yfirleitt tengd við tilraunamennsku og byltingaranda á meðan það að vera venjulegur hefur verið álitið merki um gagnrýnisleysi, fylgispekt og skort á frumleika. En spurningin er hver staða og hlutverk framúrstefnunnar er þegar markaðsöfl listaheimsins þrífast á „byltingarkenndum“ nýjungum.

„Arnfinnur er búsettur í Danmörku og sýnir ekki oft á Íslandi, en ég sá þetta verk í Kling og Bang líklega um 2010. Mér fannst þetta svo frábært verk og það varð kveikjan að einhverjum þeirra hugmynda sem urðu svo að sýningunni. Sýningin er kannski einhvers konar tilraun til að svara þessari yfirlýsingu Arnfinns: Ef að framúrstefna er orðin að norminu í myndlistarheiminum hvers konar myndlist á framúrstefnan að búa til, og hvað verður um normið og framúrstefnuna þegar þetta er allt komið á hvolf? Þetta er ákveðin mótsögn sem tjáir veruleika dagsins í dag á ótrúlega sterkan hátt,“ segir Heiðar Kári.

Vegna góðra viðtaka mun Normið er ný framúrstefna í Gerðarsafni í Kópavogi standa yfir viku lengur en áætlað var, eða til 19. mars næstkomandi.

Á myndinni sjást meðal annars verk eftir Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur (fædd 1956) og G. Erlu (fædd 1951).
Á myndinni sjást meðal annars verk eftir Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur (fædd 1956) og G. Erlu (fædd 1951).

Mynd: Anna Karen Skúladóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Óhugnalegt atvik í New York: Kveikti í sér fyrir framan dómshúsið þar sem réttað var yfir Trump

Óhugnalegt atvik í New York: Kveikti í sér fyrir framan dómshúsið þar sem réttað var yfir Trump
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Voru gapandi hissa yfir sjónvarpinu í vikunni – „Ég veit ekki hvað fer í gegnum hausinn á þér“

Voru gapandi hissa yfir sjónvarpinu í vikunni – „Ég veit ekki hvað fer í gegnum hausinn á þér“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Gylfi Þór hundfúll – „Það er erfitt að taka þessu“

Gylfi Þór hundfúll – „Það er erfitt að taka þessu“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni á blaði hjá Arsenal

Tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni á blaði hjá Arsenal
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Tottenham vill fyrrum leikmann Arsenal

Tottenham vill fyrrum leikmann Arsenal
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“