Menningarverðlaun DV 2016: Tilnefningar í tónlist

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2016 verða veitt miðvikudaginn 15. mars næstkomandi klukkan 17.00 í Iðnó. 45 verkefni, hópar og einstaklingar eru tilnefndir til verðlaunanna í ár í níu flokkum; kvikmyndum, leiklist, dansi, tónlist, myndlist, arkitektúr, hönnun, bókmenntum og fræðum, en auk þess veitir forseti Íslands sérstök heiðursverðlaun og lesendaverðlaun dv.is verða veitt. Föstudaginn 3. mars hefst netkosning á dv.is sem stendur til miðnættis 14. mars, þar sem lesendum gefst tækifæri til að kjósa þá tilnefningu sem þeim líst best á – sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni hreppir lesendaverðlaun dv.is.

Taktu þátt í kosningunni!


Tilnefningar í tónlist

Mynd: Daníel Starrason

Græni hatturinn

Tónleikastaðurinn Græni hatturinn á Akureyri er orðinn einn þekktasti tónleikastaður landsins og hefur skipað stóran sess í tónlistarmenningu Íslendinga á síðustu árum. Fjölmargir ef ekki allflestir tónlistarmenn þjóðarinnar hafa heimsótt Græna hattinn og spilað þar jafnan fyrir fullu húsi. Staðurinn skapar sér einnig þá sérstöðu að vera tónleikastaður eingöngu og greinir sig þannig frá hefðbundnum áherslum veitinga- og skemmtistaðareksturs. Afkastamikil tónleikamenning Græna hattsins er ekki síst nauðsynlegur liður í aukinni útbreiðslu íslenskrar tónlistar á landsvísu samhliða því að vera mikilvægur þáttur í norðlensku tónlistarlífi. Þetta heimili hryntónlistar á Akureyri stuðlar að fjölbreytni í íslenskri tónleikamenningu og gefur jafnt ungu sem og reynslumeira tónlistarfólki tækifæri á stóra sviðinu.

Bedroom Community

Bedroom Community útgáfan var stofnuð árið 2006 af Valgeiri Sigurðssyni og fagnaði því tíu ára afmæli sínu á síðasta ári. Frá upphafi hefur Bedroom Community markað sér mjög ákveðinn sess í íslensku tónlistarlífi með afar metnaðarfullri útgáfustarfsemi en plötur útgáfunnar eru nú um þrjátíu talsins þar sem inntak, umgjörð og miðlun tónlistarinnar eru í hæsta gæðaflokki. Aðsetur útgáfunnar er í Greenhouse Studios, sem telst til vönduðustu hljóðvera landsins. Bedroom Community útgáfan hefur gætt íslenska tónlistarsenu stórauknu lífi, hún hefur kynnt til leiks nýja tónlist sem að öðrum kosti hefði ekki ratað hingað, miðlað innlendri tónlistarsenu til umheimsins og staðið fyrir fjölmörgum frábærum tónleikum, hérlendis og erlendis, þar á meðal tónleikum sem haldnir voru í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Iceland Airwaves hátíðina á tíu ára starfsafmæli útgáfunnar árið 2016.

Mynd: Helen Wood

Kjartan Sveinsson

Kjartan Sveinsson vakti fyrst athygli sem einn liðsmanna hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Frá því hann sagði skilið við sveitina hefur hann átt afar frjóan feril sem einn nánasti samstarfsmaður Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns og unnið með honum að verkum á borð við Take Me Here by the Dishwasher (2011), The Visitors (2012), The S. S. Hangover (2013) og Der Klang der Offenbarung des Göttlichen (2014). Að auki hefur Kjartan unnið náið með kvikmyndaleikstjóranum Rúnari Rúnarssyni og samið áhrifaríka tónlist við kvikmyndir hans. Á síðasta ári kom Der Klang der Offenbarung des Göttlichen út á gullfallegri, tvöfaldri vínylplötu hjá Bel-Air Glamour Records en um er að ræða heilsteypt og magnað verk fyrir kór og hljómsveit, hyldjúpt og fagurt. Kjartan Sveinsson er einstaklega áhugaverður og fjölhæfur tónlistarmaður sem hefur svo sannarlega lagt sitt til íslensks tónlistarlífs um langt skeið.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Katie Buckley

Hörpuleikarinn Katie Buckley hefur verið búsett hér á landi í rúman áratug og sett mikinn svip á íslenskt tónlistarlíf sem öflugur liðsmaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands, virkur þátttakandi í flutningi kammertónlistar og sem einleikari. Katie Buckley skipar, ásamt Frank Aarnink slagverksleikara, dúettinn Duo Harpverk sem hefur pantað og frumflutt fjölmörg ný tónverk eftir íslensk og erlend tónskáld. Að auki hefur Katie sjálf frumflutt einleiksverk fyrir hörpu, sinnt flutningi 20. og 21. aldar af miklum móð og starfað með fjölda tónlistarmanna úr ólíkum áttum. Katie Buckley er tónlistarmaður á heimsmælikvarða, metnaðargjörn og leitandi, með frábært vald á hljóðfæri sínu og gædd miklu næmi og innsæi fyrir tónlistinni sem hún flytur hverju sinni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hildur Guðnadóttir

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir hefur vakið athygli fyrir einstaklega persónulegan hljóðheim en tónlist hennar hefur verið gefin út af plötuútgáfunni Touch (Without Sinking (2009), Mount A (2010), Leyfðu ljósinu (2012) og Saman (2014)). Hildur hefur samið tónlist fyrir alls kyns hljóðfærasamsetningar og samhengi, sinfóníuhljómsveitir, kammersveitir, kóra og leikhús; átt í gjöfulu samstarfi við aðra tónlistarmenn og samið eftirminnilega tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir, þar á meðal sjónvarpsþættina Ófærð og kvikmyndina Eiðinn og tónlist hennar hljómaði í stórmyndunum The Revenant og Sicario. Hildur er heiðarlegur, hugrakkur og leitandi tónlistarmaður sem fann snemma sína rödd, íhugula og djúpa. Sú rödd hefur fengið að halda áfram að þroskast og vaxa með hverri nýrri áskorun sem tónlistarkonan tekst á við.

Dómnefnd: Elísabet Indra Ragnarsdóttir (formaður), Kristján Freyr Halldórsson og Alexandra Kjeld.

Hver á að hljóta lesendaverðlaun dv.is - Taktu þátt í kosningunni!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.