Menning

Chuck Berry er látinn

Kristján Guðjónsson skrifar
Þriðjudaginn 21. mars 2017 17:30

Gítarleikarinn, söngvarinn og rokkgoðsögnin Chuck Berry er látinn. Hann var 90 ára þegar hann lést á heimili sínu í Missouri í Bandaríkjunum á laugardag.

Þessi vandræðaunglingur frá St. Louis var einn af frumkvöðlum rokktónlistarinnar og átti hvað mestan þátt í að móta stefnu hennar og tísku á upphafsárunum. Berry lærði hárgreiðslu og starfaði við förðun áður en hann sneri sér að tónlistinni í upphafi sjötta áratugarins.

Árið 1955 sló hann í gegn með laginu Maybellene og átti eftir að vera ofarlega á vinsældalistum næstu árin. Tónlist hans var hrá ryþma- og blústónlist með leikandi björtum gítarfléttum og einföldum textum um hvolpaástir, partí og neysluvörur – sem smellpassaði inn í bandarískt samfélag þar sem unglingamenningin var að þróast í fyrsta skipti.

Það sem vakti ekki síður athygli var óhefluð sviðsframkoma Berrys og ekki síst hinn einkennandi andagangur, þar sem hann hoppaði um sviðið á einum fæti með beygt hné og skaut hausnum fram og aftur á meðan hann spilaði á gítarinn.

Auk Maybellene voru þekktustu lög Berrys Roll over Beethoven, School Days, Rock and Roll Music og Johnny B Goode sem öll komu út á seinni hluta sjötta áratugarins. Árið 1960 var hann dæmdur í fangelsi fyrir að flytja stúlku undir lögaldri með sér milli ríkja í „ósiðlegum tilgangi.“ Eftir fangelsisvistina náði hann aldrei sömu vinsældum.

Berry gaf þó út fjölda breiðskífa á ferlinum og kom sú síðasta út árið 1979. Þegar hann lést var hann að vinna að plötu með nýju efni og kemur hún út síðar á árinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af