Brautryðjandi í dansmyndagerð á Íslandi

Helena Jónsdóttir hlýtur Menningarverðlaun DV í flokki danslistar

Mynd: Leifur Rögnvaldsson

Helena Jónsdóttir hlýtur Menningarverðlaun DV í flokki danslistar fyrir brautryðjandastarf í dansmyndagerð á Íslandi.

Í umsögn dómnefndar segir: „Helena Jónsdóttir, dans- og kvikmyndagerðarkona, er tilnefnd fyrir brautryðjandastarf í dansmyndagerð á Ísland. Í hátt á annan áratug hefur Helena verið óhrædd við að deila hugmyndum sínum, þekkingu og aðferðum í dansmyndagerð. Hún hefur verið öflug í að skapa þessu listformi, þar sem kvikmyndagerð og danslist mætast, veg og virðingu og byggja það upp. Spor Helenu liggja víða og skiptir þá ekki máli hvort litið er til uppbyggingar náms í lista- og kvikmyndaskólum landsins, námskeiðahalds fyrir dans- og kvikmyndahátíðir, verkefnavals fyrir bíóhús og sjónvarp eða innsetningar í gallerí og leikhús. Er þá ónefnd brúarsmíðin sem felst í að skapa tengsl við hátíðir og framleiðendur á alþjóðavettvangi, en þeim tengslum deilir hún gjarnan með öðrum ungum dansmyndagerðarmönnum. Eftir Helenu liggur fjöldinn allur af dansmyndum. Enn ein rósin í hennar hnappagat er velgengni myndar hennar og Veru Sölvadóttur, Gone, sem hlaut á árinu 2016 fjölda alþjóðlegra verðlauna og viðurkenninga.“

Myndavélin er uppáhaldsdansfélaginn

Helena, sem er lærður dansari, kynntist dansmyndaforminu í kringum aldamót þegar hún vann hjá íslensku kvikmyndafyrirtæki. „Það sem heillaði mig við þetta form var að þarna gat ég á stuttum tíma séð, frétt af höfundum og listamönnum í minni grein í gegnum þessa miðla. Mér fannst þetta svo tilvalið fyrir okkur hér á Íslandi, þar sem peningarnir eru af svo skornum skammti, til að við gætum kynnt okkur heiminn eða komist í kynni við aðra í okkar grein. Það heillaði mig svakalega að geta unnið hér heima á Íslandi og sent rödd mína út og um allan heim án þess að kaupa flugmiða.“

Dansmyndir eru ekki eingöngu danssýningar sem eru teknar upp á myndband, heldur eru þær leiknar myndir með tónlist, án tals og sprottnar upp úr heimi nútímadansins. Helena segist oft nota enska hugtakið „physical cinema“ í stað dansmyndanafnsins og talar raunar um kvikmyndatökuvélina sem uppáhaldsdansfélaga sinn.

„Þegar maður er með hreyfimynd, myndavél á hreyfingu og dansara að hreyfa sig er maður með þrjá vinkla sem eru allir á hreyfingu. Ég komst að því mjög fljótlega að það var mjög erfitt og tímafrekt að grípa hreyfinguna svo hún skilaði sér á tjaldið. Að reyna að grípa hreyfingu er svolítið eins og að reyna að taka mynd af fiski í sjó – að reyna að skipa honum að vera kyrr. En þetta heillaði mig mjög mikið, að ná að skila fallegu listformi eins og dansinum,“ segir hún.

Helena hefur gert fjölda mynda sem hafa verið sýndar á ólíkum vettvangi. Hún hefur haldið fyrirlestra, tekið þátt í málþingum og kennt fjölda listamanna námskeið í dansmyndagerð.

Nýjasta myndin hennar er Gone sem hún vann með samkennara sínum í Kvikmyndaskóla Íslands, Veru Sölvadóttur, og skartar Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverki. Myndin er tileinkuð eiginmanni hennar, Þorvaldi Þorsteinssyni listamanni sem lést árið 2013 þegar myndin var enn í vinnslu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.