Menning

Vann til tvennra verðlauna í virtri ljóðasöngkeppni

Jóhann Kristinsson hefur gefið úr þrjár plötur með frumsaminni tónlist en gerir það nú gott í heimi klassískrar tónlistar

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 12. mars 2017 20:00

Jóhann Kristinsson barítónsöngvari hlaut tvenn verðlaun í hinni virtu alþjóðlegu ljóðasöngvakeppni Das Lied sem fór fram í Heidelberg í Þýskalandi á dögunum, en þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur hlýtur verðlaun í keppninni.

Jóhann, sem er 28 ára og við það að ljúka masternámi í óperusöng við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín, á ekki langt að sækja sönghæfileikana en hann er sonur Kristins Sigmundssonar óperusöngvara.

Áhorfendaverðlaun í virtri ljóðasöngkeppni

Jóhann var einn tuttugu og sex söngvara sem voru valdir úr hópi 116 umsækjanda til að syngja á sviðinu í Heidelberg þegar alþjóðlega ljóðasöngkeppnin Das Lied – International Song Competition fór fram í síðustu viku. Keppnin, sem er stofnuð af hinum heimsþekkta ljóðasöngvara Thomas Quasthoff, er haldin á tveggja ára fresti og er þetta í fimmta skipti sem hún fer fram.

„Ljóðasöngvar eru verk þar sem tónskáld hafa tekið ljóð sem hreyft hafa við þeim á einhverjum tímapunkti og sameinað þau við eigin tónsmíðar og tilfinningar. Úr þessu verður eitthvert fallegasta samtal sem um getur í listum – eitthvert fallegasta listform sem ég þekki,“ útskýrir Jóhann. „Þú sem ljóðasöngvari ert svo nakinn á sviðinu, þú þarft að endurspegla þær tilfinningar sem bæði ljóðskáldið og tónskáldið fundu fyrir þegar verkin voru samin. Það er hægara sagt en gert og maður getur aldrei kafað of djúpt ofan í eigin tilfinningar. Það er hins vegar ekkert jafn hundleiðinlegt og heilt tónleikaprógramm með ljóðasöngvara sem meinar ekki það sem hann syngur.“
Og verk eftir hvaða tónskáld söngst þú í keppninni?

„Maður þurfti að undirbúa sig með því að æfa 30 lög, fimmtán eftir Franz Schubert, tíu eftir Robert Schumann og fimm eftir nútímatónskáldið Wolfgang Rihm. Í fyrstu lotu átti maður að syngja þrjú lög að eigin vali, þeir sem komust áfram fengu svo að syngja þrjú lög í viðbót sem dómnefndin valdi auk tveggja laga að eigin vali. Í úrslitalotunni átti maður svo að syngja sex lög í viðbót,“ útskýrir Jóhann.

Dómnefndin, sem var meðal annars skipuð nokkrum af virtustu ljóðasöngvurum heims og áhrifafólki innan tónlistarheimsins, veitti Jóhanni þriðju verðlaun fyrir frammistöðuna en hann sigraði hins vegar í kosningu áhorfenda og hlaut því sérstök áhorfendaverðlaun. „Það kom alveg flatt upp á mig, en var alveg ótrúlega gaman! Mér finnst svo mikilvægt að fá viðbrögð frá hinum almenna hlustanda en ekki bara fagfólkinu.“

Jóhann hlýtur 5.000 evrur fyrir hvor verðlaun og mun þar að auki fá að koma fram ásamt hinum verðlaunahöfunum á sérstökum tónleikum á tónlistarhátíðinni Heidelberger Frühling í apríl. „Það hefur auðvitað líka mikla þýðingu að ná að stimpla sig inn hjá fólki sem hefur eitthvað að segja í þessum bransa.“

Úr poppinu í klassíkina

Áður en Jóhann sökkti sér almennilega í klassíska sönginn hafði hann vakið nokkra athygli í íslensku indítónlistarsenunni fyrir lágstemmdar dægurlagasmíðar sínar sem hann lék reglulega einn með kassagítar á tónleikum og gaf út á tveimur plötum. En hefur hann gefið popptónlistarferilinn upp á bátinn?

„Nei, nei – eða ég veit nú ekki beint hvort það hafi verið einhver „ferill“,“ segir Jóhann og hlær.
„En þegar ég byrjaði í masternáminu í Berlín ákvað ég að einbeita mér alveg að því. Maður þarf að leggja svo ótrúlega hart að sér ef maður ætlar að ná einhverjum árangri á þessu sviði, sérstaklega vegna þess hversu hörð samkeppnin er. Þegar maður er að fást við tónlist hefur heilinn svo bara ákveðið þrek í það á hverjum degi. Það er erfitt að vinna í klassík heilan vinnudag og fara svo að vinna að annarri tónlist – þá langar mann bara að gera eitthvað.“

Eru klassíkin og dægurtónlistin algjörlega tveir aðskildir hlutir í þínum huga, eða er eitthvað sem þú hefur tekið úr dægurtónlistinni sem þú getur nýtt þér í dag?

„Jaaa, í mínum huga gildir það sama um alla tónlist, ef hún flæðir ekki þá er hún óáhugaverð. Það þarf að vera þessi tilfinning að einhverju sé sleppt lausu – það er eitthvað „release“ sem verður alltaf að vera til staðar. Mér finnst eins og þetta sé eitthvað sem ég taki úr þeirri reynslu að hafa búið til tónlist sjálfur. Mér finnst ég geta sleppt mér í tímalaust ástand sem er engu að síður í rytma.“

Það er eiginlega óhjákvæmilegt að spyrja þig út í föður þinn, Kristin Sigmundsson. Var einhver pressa heiman frá að fara í þessa átt?

„Alls ekki – foreldrar mínir hafa alltaf stutt mig í öllu sem ég hef viljað gera. Pabbi hefur stundum sagt að bara ef ég geti ekki hugsað mér neitt annað þá eigi ég að gera þetta. En það er heldur ekki nein endanleg ákvörðun að starfa við söng. Þetta er mjög erfiður bransi og lífið sem fylgir þessu er erfitt, maður þarf að hafa þykkan skráp. En ég flýt bara áfram með þessari öldu núna, leyfi henni að bera mig þangað sem hún ber mig – og ef hún stoppar einhvern tímann þá finnst mér engin uppgjöf falin í því að snúa mér að einhverju öðru.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 5 dögum

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai
Menning
Fyrir 5 dögum

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður
Menning
Fyrir 9 dögum

Bókin á náttborði Steingerðar

Bókin á náttborði Steingerðar
Menning
Fyrir 10 dögum

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“
Menning
Fyrir 11 dögum

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“
Menning
Fyrir 11 dögum

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?
Menning
Fyrir 13 dögum

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí
Menning
Fyrir 13 dögum

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd