fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024

Hljóðin í málverkinu

Magnús Jónsson, leikari og tónlistarmaður, snýr sér í auknum mæli að málverkinu – Heyrir liti og spjallar við mömmu um málaralistina

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 9. febrúar 2017 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Að vissu leyti er ég hálfgerður endurreisnarmaður, notast við alla miðla. Fyrir mér er þetta allt það sama, þetta er bara einhver þörf fyrir sköpun,“ segir Magnús Jónsson sem flestir þekkja fyrst og fremst sem leikara og tónlistarmann, meðal annars úr spennuþáttunum Réttur og úr hljómsveitinni GusGus á fyrstu starfsárum sveitarinnar. Að undanförnu hefur hann hins vegar snúið sér í síauknum mæli að myndlistinni.

Blaðamaður og ljósmyndari DV hittu Magnús yfir kaffibolla í Gallerí Fold þar sem nú stendur yfir málverkasýningin „Sveitungar.“

Samskynjun

„Ég hef alltaf verið að teikna, leikið mér að því að gera skúlptúra og svo framvegis, en fyrir svona fimmtán árum keypti ég mér loksins trönur og fór af stað,“ segir Magnús en hann segir myndlistina koma mjög átakalaust hjá honum.

„Við erum öll með svo ólíka hugsun. Frekar en að ég sjái hlutina fyrir mér, eins og fólk sem er með gott sjónminni, hef ég alltaf heyrt þá. Ég hef mikið unnið í tónlist í gegnum tíðina og hef þá alltaf heyrt liti,“ segir hann og lýsir því sem kallað hefur samskynjun (e. synesthesia eða chromesthesia). Það er þegar bókstafir eða hljóð birtast fólki sem litir, en fjöldi þekktra listamanna upplifir þess konar blöndun ólíkra skynhrifa.

„Á sama tíma skil ég hins vegar ekki leikara sem geta rennt yfir texta einu sinni og strax byrjað að leika. Texti er óttalegt torf fyrir mig, fyrstu tíu, tuttugu skiptin sem ég les texta á ég mjög erfitt með að ná honum. Ég þarf þess vegna oft að taka upp textann og þá fer ég að heyra hlutina og að geta sett mig í aðstæðurnar.

Ég hef alltaf heyrt litina, mynstrin og svo framvegis frekar en að ég hafi bara séð þetta. Svo var það einn daginn að ég hugsaði að ég yrði að prófa að taka það sem ég heyrði í tónlistinni og færa á striga. Ég keypti mér trönur og byrjaði að mála það sem ég heyrði.“

Auðvelt að verða iðnaðarmaður í listinni

Fyrsta málverkasýning Magnúsar var árið 2012 og er þessi nýjasta sýning sú þriðja á myndlistarferlinum. Nýjustu verkin eru litrík akrýlmálverk, yfirleitt af landslagi og dýrum. Fletirnir eru uppfullir af einkennandi mósíaklegum deplum og þá segir Magnús hafa þróast út frá impressjónísku fikti, en gengst þó ekki við því að þarna sé hann búinn að finna sinn endanlega stíl.

„Það er oft verið að líkja mér við aðra málara, en ég hef ekki mikið verið að skoða þá. Þá verð ég jafnvel of meðvitaður um hlutina og þarf að stoppa mig af. Ég verð svolítið hræddur ef fólk segir að ég sé kominn með einn stíl, þá þarf ég að gera eitthvað allt annað. Ég leyfi mér að daðra við ólíka stíla, abstrakt, kúbisma, súrrealisma. Maður þarf líka stöðugt að vera að fara út fyrir rammann, því annars verður maður að eins konar iðnaðarmanni.

Það er svo auðvelt að verða iðnaðarmaður í listinni. Það er til dæmis það sem ég hef alltaf átt svo erfitt með leiklistina. Það eru ekkert margir möguleikar fyrir mann nema að fara inn í leikhúsin og verða hálfgerður iðnaðarmaður þar. Þá ert þú orðinn að tannhjóli í stærri vél, ert þú kominn í 9 til 5 vinnu, ræður ekki með hverjum þú vinnur og svo framvegis.“

Ræðir við mömmu um málverkin

Móðir Magnúsar, Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir, er einnig listmálari og segist Magnús fá mörg góð ráð úr þeim ranni: „Hún byrjaði sjálf frekar seint að mála en er afskaplega listræn. Hún hefur alltaf komið og skoðað nýjustu verkin og stílana og gefið mér ráð. Það er líka gott að hún hefur ekkert verið að segja mér að fara að læra. Mig hefur oft langað að fara að læra um liti og svoleiðis en hún hefur sagt að það gæti í rauninni bara eyðilagt mig. Ég er hins vegar mikill grúskari og ég tók til dæmis heilt ár þar sem ég var bara í módelteikningu, var að prófa mig áfram með skugga, ljós og portrettmyndir. En mér finnst ljósmyndin bara ná þessu svo ég vil frekar vera í einhverjum frekar abstrakt hugmyndaheimi.“

Myndlistarheimurinn hefur orð á sér fyrir að vera svolítið elítískari en til dæmis tónlistin þar sem þú hefur líka látið til þín taka. Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Þær hafa verið afar góðar, en jú, myndlistarmenn vita ekki alltaf alveg hvernig þeir eiga að taka mér, þar sem ég hef ekki farið í nám eða lært hefðbundna myndlistar- og konsepthugsun. Ég kem bara beint inn úr mínu eigin grúski. En það eru auðvitað margir leikarar og tónlistarmenn sem hafa verið daðrað við myndlistina, Bowie var til dæmis mikill málari og nýlega las ég viðtal við Anthony Hopkins þar sem hann talar um að hann sé mikið að mála.“

Pólitískur undirtónn í verkunum

„Það er mjög alltaf einhver pólitískur undirtónn í verkunum mínum, án þess að ég sé að vera einhver aktívisti með skýran boðskap. Þetta mótast bara af því sem ég er að hugsa hverju sinni. Það er fyrst og fremst þegar ég lít til baka að ég sé að þarna sé einhver pólitík,“ segir Magnús og bendir á að í fyrstu verkunum sem hann sýndi hafi firring borgarlífsins verið áberandi, afmyndaðar fígúrur í myrkum borgarstrúktúrum, og nú sé hann kominn út í sveitina og í samband við náttúruna.

„Kannski er það þetta sem ég er alltaf að leitað að – kannski er þetta það sem við þurfum. Mér finnst okkur vanta meiri náttúru, meira sakleysi, börn, dýr og liti.“

Dýrin og velferð þeirra er Magnúsi hugleikin bæði í listinni og lífinu sjálfu en hann hætti endanlega að borða og nota dýraafurðir fyrir þremur árum: „Ég er ekki hrifinn af þeirri hugmynd sem er svo ríkjandi að maðurinn sé æðri öðrum skepnum, við séum æðsta stigið og ættum að stjórna hinum dýrunum. Það er algjörlega súrt dæmi að okkur finnist það bara í lagi að vera með stöðuga helför í gangi í kjötiðnaðinum – sem við kaupum svo bara í einhverri skinku. Við fögnum nýju lífi á vorin með lömbunum og finnst það svo fallegt og skemmtilegt en svo slátrum við þessu bara á haustin. Beljunum er stöðugt haldið í mjólkurframleiðslu, þeim er stöðugt haldið ófrískum, svo er rifinn af þeim kálfurinn, þær upplifa þvílíkan harm og við bara lítum undan,“ segir Magnús.

„Ég álít dýrin vera jafningja mína og tel mig ekkert meiri eða stærri en þau. Mér finnst dýrin raunar geta kennt mér margt um hvernig manneskja ég vil vera. Þau geta kennt mér hvernig ég þarf að virða lífið. Þau hafa þessu hreinu orku, þau hafa ekki hroka, reiði og hatur sem við látum æsa upp í okkur. Þau eru með ákveðið eðli sem mér finnst svo fallegt og hreint.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Stuðningsmenn United margir að fá nóg – Skila inn miðum fyrir leik kvöldsins

Stuðningsmenn United margir að fá nóg – Skila inn miðum fyrir leik kvöldsins
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Oddviti Viðreisnar hyggst segja sig úr bæjarstjórn Garðabæjar

Oddviti Viðreisnar hyggst segja sig úr bæjarstjórn Garðabæjar
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Tveir handteknir grunaðir um að hafa nauðgað konu á föstudag

Tveir handteknir grunaðir um að hafa nauðgað konu á föstudag