Fleet Foxes og Billy Bragg á Iceland Airwaves

Þjóðlagapoppveisla í Reykjavík í nóvember

Fleet Foxes voru fremstir í flokki í bylgju þjóðlagaskotinnar indítónlistar sem naut mikilla vinsælda undir lok síðasta áratugar. Nú er sveitin snúin aftur og kemur fram á Iceland Airwaves í nóvember.
Skógarhöggs-indí Fleet Foxes voru fremstir í flokki í bylgju þjóðlagaskotinnar indítónlistar sem naut mikilla vinsælda undir lok síðasta áratugar. Nú er sveitin snúin aftur og kemur fram á Iceland Airwaves í nóvember.
Mynd: Sub Pop / Sean Pecknold

Bandaríska þjóðalagapoppsveitin Fleet Foxes og enski mótmælarokkarinn Billy Bragg munu koma fram á Iceland Airwaves sem fer fram í byrjun nóvember í Reykjavík og á Akureyri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar sem birtist á Youtube rétt í þessu. Aðrir listamenn sem tilkynnt var að kæmu fram á hátíðinni eru Lido Pimienta (Kól), Childhood (Bre), Lonely Parade (Kan), Shame (Bre), Mammút, Sturla Atlas, Hórmónar, KÁ-AKÁ, Tófa, Hildur, Alexander Jarl, Cyber, aYia og JFDR, sem er listamannsnafn Jófríðar Ákadóttur úr Samaris og Pascal Pinon.

Seattle-sveitin Fleet Foxes sló í gegn undir lok síðasta áratugar með sérstaklega fáguðu indí-þjóðlagapoppi uppfullu af ljúfsárri fortíðarþrá og margrödduðum söngmelódíum í anda Crosby, Stills & Nash og annarra þjóðlagahipparokkara. Fleet Foxes hafa gefið út tvær breiðskífur, Fleet Foxes árið 2008 og Hopelessness Blues árið 2011, sem hafa báðar notið mikilla vinsælda. Frá árinu 2013 hefur sveitin legið í dvala og meðlimir sveitarinnar sinnt öðrum verkefnum, en frá því í lok síðasta árs hafa verið uppi vangaveltur um að sveitin vinni að nýrri plötu.

Fleet Foxes munu leika á tveimur tónleikum í Eldborgarsal Hörpu, 3. og 4. nóvember. Kaupa þarf sérstakan miða á fyrri tónleikana og hefst miðasala á þá föstudaginn 24. febrúar. Síðari tónleikarnir standa öllum miðahöfum Iceland Airwaves til boða á meðan húsrúm leyfir. Miðahafar þurfa þó að nálgast sérstakan aðgöngumiða á tónleikana og hefst afhending þeirra miða í Hörpu á tónleikadaginn 4. nóvember kl. 14:00.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.