Draugurinn í tónlistinni

Hljómsveitin Amiina samdi tónlist við 100 ára gamla költ-kvikmynd um Fantômas - Holdgervingur illskunnar

Hljómsveitin Amiina hefur gefið út tónlist sína við rúmlega hundrað ára gamla kvikmynd um harðsvíraða glæpamanninn Fantômas.
Semja við aldargamla þögla spennumynd Hljómsveitin Amiina hefur gefið út tónlist sína við rúmlega hundrað ára gamla kvikmynd um harðsvíraða glæpamanninn Fantômas.
Mynd: © Heiða Helgadóttir

„Þetta er nánast eins og hjá 15 ára unglingahljómsveit,“ segir María Huld, fiðluleikari Amiinu, og afsakar draslið í æfingahúsnæðinu sem er staðsett rétt við jaðar miðbæjarins. Þetta er lítið hús falið í skugga spánnýrra hótelbygginga og byggingarkrana, við þverhnípi tómra húsgrunna og bílakjallara framtíðarinnar. Í þrjá áratugi hafa tónlistarmenn æft og tekið upp í húsnæðinu sem stendur nú til að rífa. Kannski er kominn tími til, enda hafa sprengingar undanfarinna ára gert gólfið ójafnt og myndað sprungur í veggjunum.

Hljómsveitin Amiina var stofnuð fyrir hartnær tuttugu árum af fjórum stelpum sem höfðu kynnst í Tónlistarskóla Reykjavíkur. Sveitin varð fyrst þekkt sem strengjakvartett Sigur Rósar en vakti svo athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu með eigin tónsmíðum árið 2007. Á næstu árum bættust tveir karlmenn í hópinn og síðan þá hefur meðlimafjöldinn rokkað upp og niður eftir verkefnum.

Í dag eru þau fjögur, María Huld Markan Sigfúsdóttir, sellóleikarinn Sólrún Sumarliðadóttir, trommarinn Magnús Trygvason Eliassen og rafhljóðasmiðurinn Guðmundur Vignir Karlsson, einnig þekktur sem Kippi Kaninus. Þegar blaðamann ber að garði eru þau að ljúka við að fylla út umsóknir til að fá að ferðast og spila í Kína næsta haust, þar munu þau flytja tónlistina af nýútkominni plötu sinni Fantômas, sem samin er við samnefnda þögla spennumynd frá árinu 1913. Og það er einmitt Fantômas sem við ætlum að spjalla um.

Flaustur og súrrealismi

„Þetta byrjaði með því að franski tónlistarmaðurinn Yann Tiersen, sem flestir þekkja fyrir tónlistina úr kvikmyndinni Amelie, hafði samband og bað okkur um að semja nýja tónlist við eina af þessum fimm myndum um Fantômas,“ útskýrir Sólrún.

„Hann var þá að safna fimm tónlistarmönnum og hljómsveitum til þess að skrifa nýja músík við myndirnar og flytja í tilefni af aldarafmæli þeirra. Á hrekkjavökunni 2013 voru svo allar myndirnar sýndar með lifandi tónlist í Théâtre du Châtelet í París, það tók sjö tíma að flytja þetta og var mjög skemmtilegur viðburður.“

Fantômas er skáldsagnapersóna sem naut mikilla vinsælda í Frakklandi á fyrstu árum 20. aldarinnar. Fyrsta sagan um þennan miskunnarlausa og dularfulla glæpamann birtist árið 1911 og voru það höfundarnir Marcel Allain og Pierre Souvestre sem skrifuðu sögurnar af miklum móð og gáfu út, ein skáldsaga í fullri lengd birtist í hverjum mánuði næstu árin. Árið 1913 gerði Louis Feuillade svo fimm kvikmyndir upp úr bókunum á svipuðum vinnuhraða. Talað hefur verið um að aðferðafræði við skrif bókanna og upptökur myndanna hafi orðið módelið að því hvernig Hollywood-myndir voru framleiddar í kjölfarið.

„Ekkert okkar þekkti þessar myndir af neinu viti, en það var mjög skemmtilegt að kynna sér þær. Þetta eru alveg stórmerkilegar bíómyndir og ekki síst stórfurðulegar – enda bera þær þess greinileg merki hvað þær voru unnar hratt. Stundum er skautað mjög hratt yfir og senur leysast nánast bara upp í einhverja vitleysu,“ segir Vignir.

„Myndin sem við sömdum tónlist við er númer tvö í seríunni [Juve contra Fantômas]. Meðal ástæðnanna fyrir því að við völdum hana var að í henni er mjög myndrænt lestarslys, atriði þar sem slanga er drepin og alls konar súrrealismi. Það er líklega að hluta til vegna þess hversu hratt sögurnar urðu til sem framvindan verður svo súrrealísk og skemmtileg,“ segir María Huld og bæta má við að frönsku súrrealistarnir voru margir hverjir yfir sig hrifnir af Fantômas, til að mynda skáldið Guillaume Apollinaire og málarinn René Magritte.

Holdgervingur illskunnar

En hver er þessi Fantômas sem myndin fjallar um?

Vignir: „Fantômas er eiginlega holdgervingur illskunnar. Hann virðist vera aristókrati sem er alltaf fyrir framan nefið á lögreglunni, en hann er alltaf að skipta um gervi og það virðist alveg ómögulegt að handsama hann.“

María: „Hann stígur bara fullskapaður fram á sjónarsviðið sem illur glæpamaður. Maður fær aldrei samúð með honum því maður veit ekkert hvernig hann varð svona vondur. Það kemur aldrei nein ástæða fyrir illskunni, það er ekki leitað freudískra útskýringa í slæmu barnauppeldi eða einhverju álíka. Hann kemur bara og gerir óskunda, dregur fólk með sér í glæpaverk og lögreglumönnunum tveimur tekst aldrei að handsama hann. Það komu í raun upp vangaveltur hvort Fantômas væri yfirhöfuð persóna eða hvort hann væri hreinlega það illa innra með okkur öllum, einhvers konar svarthol.“

Magnús: „Hann er eiginlega bara eins vondu karlarnir í fyrstu kynslóð teiknimyndasagnanna, sem bara poppa upp og gera óskunda. Það veit enginn af hverju.“

Þannig að sögurnar um Fantômas veita ekki hefðbundin og fullnægjandi málalok þar sem illmennið er handsamað og fær makleg málagjöld – sigrar illskan bara?

Vignir: „Já, í rauninni. Fantômas hefur alltaf yfirhöndina og það virðist ekki vera neinn lærdómur í sögunum!“

María: „Myndin var náttúrlega gerð í París fyrir fyrri heimsstyrjöld, á þeim tíma sogaði borgin til sín listamenn alls staðar að og þar var mikill uppgangur. Ég held að á sama tíma hafi verið ákveðið listrænt sakleysi. Að einhver væri svona ótrúlega vondur var svo fjarlægt fólki – þetta er fyrir tvær heimsstyrjaldir og alla illskuna sem birtist þar fyrir framan nefið á fólki. Krafan um uppeldishlutverk kvikmynda var kannski ekki orðin sú sama og í dag þegar það þarf alltaf að vera einhver boðskapur. Fólki fannst bara gaman að þarna væri einhver ógeðslega vondur.“

Magnús „Þetta er bara svona Die Hard-mynd. Hún skilur ekki neitt eftir sig, en þú ert í geggjuðum fíling á meðan þú horfir á hana. En svo að það komi bara fram þá skil ég ekki þessa mynd, veit ekkert hvað er í gangi – samt er ég búinn að sjá hana rosalega oft.“


Algjör steik

Er þetta þá erfið mynd fyrir nútímaáhorfendur?

Magnús: „Hún er náttúrlega algjör steik, þessi mynd!“

María: „Hún er mjög skemmtileg og áhugaverð. Það er mikið að gerast, mjög mikið fyrir augað. En stærsta áskorunin fyrir okkur voru þessar löngu senur þar sem framvindan er óljós og manni fer að leiðast gífurlega ef það er engin tónlist undir. Á þessum tíma var fólk kannski ekki alveg komið með sömu tilfinningu fyrir klippingu og lengd sena eins og í dag. Sumar senur eru mjög langar og sumar mjög stuttar, effektar og módelskot eru í mótun og fólk er að læra á miðilinn. Að einhverju leyti erum við því að reyna að laga klippingu myndarinnar með tónlistinni – og ég held að okkur hafi tekist frekar vel til. Ein erfiðasta senan er tólf mínútur þar sem fólk er að hoppa upp og niður hæðir – en maður veit ekkert hvers vegna! Þá lögðum við hins vegar þeim mun meira í tónlistina og þá flýtur senan á henni.“

Vignir: „En þó að maður nái ekki öllum söguþræðinum eru önnur atriði sem vega upp á móti. Myndin hefur verið hreinsuð og endurgerð, hver rammi skannaður aftur inn í 4k-upplausn. Þessi endurgerð er rosalega flott og hún gefur manni glugga inn í þennan tíma. Þarna er fullt af borgarmyndum teknar í hversdagsleikanum í París árið 1913. Það er alveg magnað að horfa í gegnum þennan glugga í svona góðum gæðum. Maður er svo vanur því að í svona gömlum myndum hristist allt til, það séu hár á filmunni, hraðinn vitlaus og svo framvegis. En hér er þetta bara gullfallegt.“

Vitið þið eitthvað hvernig tónlist var leikin við myndina þegar hún var upphaflega sýnd í kvikmyndahúsum fyrir rúmri öld?

María: „Í þöglu myndunum var það annaðhvort píanóleikari sem lék undir í kvikmyndahúsinu eða hljómsveitir í stærri borgum. Mjög sjaldan fylgdi ákveðin tónlist ákveðinni kvikmynd. Senurnar voru bara eyrnamerktar „hasarsena“ eða „ástarsena“ og svo var valin viðeigandi tónlist úr einhverjum lagabanka. Það var reyndar samin tónlist við myndina þegar hún var endurútgefin á DVD-disk, en það var bara einhver týpísk Hollywood-tónlist, sem við reyndum reyndar að forðast að hlusta á, enda fórum við líka allt aðra leið.“

Nú eruð þið að fara að spila með myndinni á tvennum tónleikum á skemmtistaðnum Húrra í vikunni. Er krefjandi að spila tónlistina á tónleikum?

María: „Já, maður hefur afskaplega lítinn umhugsunarfrest og Maggi þarf að spila mjög hratt á trommurnar og verður mjög þreyttur. Þetta er því góð tónlistarleg líkamsrækt.“

Magnús: „Það var náttúrlega tekin ákvörðun um að vera ekki að sulla neitt.“

Sólrún: „Þegar maður vinnur með mynd þar sem söguþráðurinn er ekki alveg augljós, getur verið freistandi að sleppa sér í svolitlu flæði og spuna, en við ákváðum að vinna mjög nákvæmlega með myndinni.“

Vignir: „Við reynum að fara nokkuð nákvæmlega eftir söguþræðinum. Gerum umhverfishljóð og tímasetjum hana alveg niður á sekúndu.“

Þannig að þið eruð í raun að hljóðgera myndina?

Vignir: „Já, en þó ekki alltaf. Við erum ekki að gera öll hljóðin, erum ekki með kókoshnetur að gera hestahljóð.“

Magnús hneggjar og allir hlæja.

Fantômas í verkefninu

Nú fyrir jólin, um þremur árum eftir tónleikana í París, kom plata með tónlist Amiinu við Juve contra Fantômas . „Lögin standa algjörlega sjálfstæð og fólk þarf ekkert að vita af myndinni til að njóta tónlistarinnar,“ útskýrir María.

„Þetta hefur tekið svo langan tíma vegna þess að við erum öll í öðrum tónlistarverkefnum og með lítil börn og svoleiðis. Við komumst ekkert í upptökur fyrr en ári eftir tónleikana, ári seinna var platan tilbúin, en svo tókst ekki að gefa hana út fyrr en ári eftir að hún var tilbúin, á hrekkjavökunni 2016,“ segir Sólrún.

„Það hefur verið svolítill draugur sem hefur fylgt þessu verkefni,“ segir María. „Allt hefur reynst svolítið flókið. Það hefur verið svolítið mikill Fantômas í þessu.“

Amiina leikur tónlist sína undir kvikmyndinni Juve contra Fantômas á Húrra miðvikudaginn 22. febrúar og fimmtudaginn 23. febrúar.

Ofurgrúppa

Meðlimir Amiinu eru virkir í fjölda annarra verkefna og hlutu samanlagt sjö tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna á dögunum.
Ofurgrúppa

Plata ársins (opinn flokkur): Amiina - Fantômas

Plata ársins (sígild og samtímatónlist): Schola Cantorum – Meditatio

Tónlistarflytjandi ársins (sígild og samtímatónlist): Schola Cantorum

Tónverk ársins (sígild og samtímatónlist): María Huld Markan Sigfúsdóttir – Aequora

Tónverk ársins (djass og blús): ADHD – Magnús Trygvason Elíassen

Lagahöfundur ársins (djass og blús): ADHD

Tónlistarflytjandi ársins (djass og blús): ADHD

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.