fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Endlaust sýningarrými á internetinu

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 15. febrúar 2017 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í æ ríkari mæli erum við að slíta okkur frá takmörkunum hins efnislega rýmis. Hinn stafræni heimur er ný vídd sem lýtur allt öðrum lögmálum en efnisheimurinn.

Þetta eru margir listamenn farnir að nýta sér. Sumir vinna listaverk sín fyrst og fremst fyrir snjalltæki og internetið. Verkin eru þá aðeins stafrænar skipanir, núll-og-einn og einn-og-núll, sem birtast svo sem safn pixla á skjáum listunnenda. Aðrir nýta sér tæknina og netið sem nýja miðlunarleið fyrir hefðbundin myndlistarverk sem þeir hafa þegar skapað á áþreifanlegan striga með efnislegri málningu.

Blaðamaður DV vafraði um netið og kíkti inn á tvær nýjar íslenskar myndlistarsýningar sem fara aðeins fram í netheimum, Witch Window og Rat Race, og spjallaði við listamennina sem standa að baki þeim.


Mynd: Haraldur Ingi Haraldsson

Stafrænir þorskhausar

Haraldur Ingi Haraldsson opnaði málverkasýninguna Rat Race í stafrænu galleríi í vikunni

Við erum stödd á vefsvæðinu https://publish.exhibbit.com/87479750/rat-race—a-codhead-xii-exhibition/. Þetta er hefðbundið hvítmálað sýningarrými. Hvítur ílangur kassi með tveimur löngum mjóum gluggum og góðri lýsingu. Gólfið virðist vera úr marmara og stóllinn í miðju rýminu úr hvítu leðri. Þetta rými, sem listamaðurinn Haraldur Ingi Haraldsson kallar Gallerí H, er tilraun til skapa kunnuglegan stað sem lítur út og virkar eins og hefðbundið sýningarrými í raunheimi – þarna er jafnvel hugsað fyrir praktískum smáatriðum á borð við rafmagnsinnstungum sem skipta máli í efnisheiminum en eru vitagagnslausar í sýndarveruleikanum. Í rýminu eru daufar útlínur annarra gesta, einhvers konar hreyfingarlausar vofur sem birtast og hverfa en maður veitir litla athygli. Við getum stjórnað ferð okkar með músinni eða hnöppum lyklaborðsins. Svífum þögul um hljóðljóst galleríið, við erum sjálf líkamslausar vofur.

Á veggjunum hanga myndir, myndir af 19 akrýlmálverkum, sem eru flest af jakkafataklæddum mönnum með þorskhausa. Ég kíki í sýningarbæklinginn sem er á næstu síðu og þar skrifar listamaðurinn: „Fyrir mér er þorskhausinn fyrst og fremst tákn um íslenska lýðveldið og nútíma íslensku þjóðarinnar í allsnægtum en einnig um fáránlega misskiptingu og efnahagslega og pólitíska spillingu og er á þann hátt einnig frásögn um samskonar ástand alls staðar á Vesturlöndum.“

Mynd: Haraldur Ingi Haraldsson

Frelsi internetsins

Í tölvusímanum mínum hringi ég í Harald Inga, myndlistarmanninn sjálfan, og við ræðum saman á meðan ég svíf um netgalleríið og skoða málverkin. „Þetta er bara eins og ég sé að sýna í galleríi raunheimi. Þetta eru ekki verk sem ég hef sýnt annars staðar, heldur mála ég sérstaklega fyrir þessa sýningu,“ segir hann.

Það er áhugaverð tilraun þó að vettvangurinn bæti ekki neinu sérstöku við verkin. Þetta er sem sagt ekki sérstök internet-list, net.list eða hvað við viljum kalla það, heldur einfaldlega annar vettvangur til að miðla málverkum.

Menntaður í myndlist og sagnfræði frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Háskóla Íslands og AKI Akademie Voor Beeldende Kunst, Enchede Hollandi og Die Vrie Akademie Pshykocpolis, Den Haag, Hollandi. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Haraldur Ingi býr og starfar á Akureyri. Hann er núverandi bæjarlistamaður Akureyrar.
Haraldur Ingi Menntaður í myndlist og sagnfræði frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Háskóla Íslands og AKI Akademie Voor Beeldende Kunst, Enchede Hollandi og Die Vrie Akademie Pshykocpolis, Den Haag, Hollandi. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Haraldur Ingi býr og starfar á Akureyri. Hann er núverandi bæjarlistamaður Akureyrar.

En af hverju þá að sýna á netinu?

„Ég hef lengi haft áhuga á tækni og fylgst með nettækninni lengi, og mér fannst hún vera orðin það góð núna að mig langaði til að prófa. En þetta veitir mér líka afar mikið frelsi. Ég get til dæmis sýnt úti um allan heim. Ég þarf heldur ekki að liggja á hnjánum fyrir framan einhvern gallerista eða forstöðumann til að fá að sýna,“ segir hann.

Í sýningunni notast hann við veflausn frá fyrirtækinu Exhibbit, sem hefur hannað netgalleríið og selur mismunandi listamönnum og stofnunum aðgang. „Ég gæti í sjálfu sér alveg gert þetta sjálfur, en það væri bara svo brjálæðislega dýrt.“

Þú meinar að forrita það sjálfur?

„Já! En ég borga bara ákveðið árgjald fyrir þjónustuna. Ef maður miðar við tímann sem sýningin er uppi þá er þetta samt miklu minna en ef ég myndi leigja einhvern sýningarstað.“

Og svo sleppur þú líka við að borga fyrir allt rauðvínið sem þú þyrftir að kaupa fyrir opnunina!

„Já, ég hef verið að ráðleggja fólki hvernig það eigi að haga sér á opnuninni. Þegar fólk kemur í fyrsta skipti getur það fengið sér kaffi, koníaksglas eða rauðvínsglas. Það er frábært að geta sagt fólki hvað það á að drekka frekar en að borga fyrir það.“

En finnur þú fyrir því að það sé eitthvað sem þú nærð ekki fram hér í vefgalleríinu sem þú myndir ná fram í efnislegu rými?

„Þetta er náttúrlega allt annað. Þú snertir ekki verkin og þú stendur ekki fyrir framan þau. En ef þú smellir á verk í netgalleríinu þá ert þú settur beint fyrir framan það og þá sérðu að skerpan er alveg mögnuð. Það er í raun eins og þú sért að skoða það hérna í vinnustofunni hjá mér, þú getur nánast skoðað hverja einustu pensilstroku. Enn sem komið er þó ekki hægt að sýna þrívíða hluti í þessum netgalleríum af einhverju viti.“

Eftir að hafa kvatt listamanninn og svifið um galleríið í nokkra stund fer ég að velta fyrir mér af hverju verið sé að reyna að endurskapa upplifun af hinum hvíta kassa gallerísins, sem er stofnun sem talar aðeins til lítils hluta almennings. Hérna gæti verið tækifæri til að lokka inn alla hina. Í stjórnstöðinni vinstra megin á skjánum tek ég eftir því að ég get breytt litnum á vegg rýmisins, ég geri hann skærbleikan og loka svo glugganum.


Internetið er nornagluggi

Fritz Hendrik IV stendur fyrir sýningunni Witch Window.

Ég opna nýjan glugga: skrifa þrisvar sinnum tvöfaltvaff punktur FritzHendrik punktur com skástrik WitchWindow og ýti á enter-hnappinn á lyklaborðinu. Á brúngrænum bakgrunni blasir við yfirlitskort af sýningarrými. Ég er kominn inn á sýninguna Witch Window, eftir listamanninn Fritz Hendrik, sem var opnuð um miðjan desember. Ég þrýsti á hnapp sem segir „Press release“ og glugginn rennur niður að kynningartexta um sýninguna frá einhverjum sem kallar sig „Fræðimanninn.“

Ég rúlla hjólinu á miðri músinni að mér og textinn flýgur upp og úr augnsýn. Neðst af skjánum rennur upp ljósmynd úr hvítmáluðu galleríi með flotuðu steypugólfi. Þar hanga uppi tvær tvívíðar myndir eða málverk af gluggum. „Witch Window oil on canvas 2016.“ Ég skrolla niður og fæ stærri mynd af einum glugganum, skrolla niður og þar birtast fleiri myndir úr raun-galleríi uppfullu af gluggamyndum – hvort þær séu tölvugerðar eða raunmálaðar er erfitt að segja. Þarna er líka myndbandsverk sem hægt er að spila og svo birtast myndir af tölvugerðum skúlptúrum, feneyskir rimlagluggar og gína klædd í einhvers konar stafrænan leirskúlptúr.

Sýnir í fínustu galleríum heims

Ég opna annan glugga og hef samband við listamanninn Fritz Hendrik í gegnum tölvupóst, ég spyr hann um alla þessa glugga og af hverju hann hafi ákveðið að halda sýningu á netinu.

Myndlistarmaður frá Reykjavík. Fritz nam myndlist við Listaháskóla Íslands og er nú í starfsnámi hjá myndlistarmanninum Agli Sæbjörnssyni í Berlín. Fritz hefur tekið þátt í átta samsýningum og haldið tvær einkasýningar. Hann vinnur í hina ýmsu miðla, einna helst innsetningar, málverk, skúlptúr, ljósmyndir og vídeó.
Fritz Hendrik Myndlistarmaður frá Reykjavík. Fritz nam myndlist við Listaháskóla Íslands og er nú í starfsnámi hjá myndlistarmanninum Agli Sæbjörnssyni í Berlín. Fritz hefur tekið þátt í átta samsýningum og haldið tvær einkasýningar. Hann vinnur í hina ýmsu miðla, einna helst innsetningar, málverk, skúlptúr, ljósmyndir og vídeó.

„Upphaflega langaði mig bara að halda hefðbundna sýningu með verkum eftir sjálfan mig, en þar sem ég er staddur í Berlín í starfsnámi hjá Agli Sæbjörnssyni, að hjálpa til við Feneyjaverkið hans, þá reyndist mér erfitt að finna rými hér og ég hugsaði að það myndi enginn mæta á sýninguna því hér þekki ég svo fáa. Þá datt mér í hug að halda sýninguna bara á netinu og þá væri hægt að sjá hana hvar sem er í heiminum. Þegar það kom síðan að því að gera verkin sjálf fannst mér réttast að sýningin myndi fjalla um það að horfa í gegnum glugga, sem er jú það sem að við gerum á netinu. Út frá þessu varð ég mjög upptekinn af gluggum og hvernig maður getur verið hlutlaus áhorfandi á öðru rými en því sem maður er staddur í, hvort sem maður er að horfa í gegnum gluggann í tölvunni eða út í garð á efstu hæð í blokk. Það er eitthvað mjög dularfullt við þetta ferðalag sem gluggar bjóða upp á.“

Á sýningarrýmið sér fyrirmynd í efnisheiminum?

„Já, myndirnar af rýminu eru allar stolnar af heimasíðum mismunandi stórra og mikilvægra gallería víðs vegar um heiminn. Ég tók síðan upprunalegu verkin á myndunum út úr rýmunum í Photoshop og setti mín verk inn í staðinn. Mér fannst fyndið að búa í raun til leið til þess að sýna verkin mín í svona fínum rýmum sem ég myndi annars ekki fá að sýna í.“

En hvað með verkin, eru þetta efnislegir skúlptúrar og málverk sem eru máluð á efnislegan striga eða eru þau bara til í stafrænu formi?

„Verkin eru öll búin til í tölvu fyrir utan eitt lítið málverk. Það fékk að verða til í alvöru. Annars er þetta allt „fake“.“

Hvað finnst þér sem listamanni meira spennandi við að skapa í stafrænu rými frekar en efnislegu? Og er eitthvað ákveðið sem þér finnst svona stafrænt sýningarrými ekki geta náð fram?

„Það er náttúrlega gríðarlegt frelsi að búa til verk í tölvu og það gefur þér ákveðna stjórn sem þú hefur ekki í raunveruleikanum. Í tölvunni þarf verkið ekki að lúta neinum eðlisfræðilegum reglum og það hjálpar að maður getur búið þetta allt til án þess að borga efniskostnað. Svo nær þetta líka til stærri hóps fólks en sýning sem haldin er í raunheimi. Hugmyndin að sýningunni spratt líka að hluta til út frá því að ég var farinn að skoða myndlist mikið á netinu, á síðum eins og Contemporary Art Daily þar sem myndir af stórum sýningum úti í heimi eru birtar stuttu eftir opnun. Svo er þetta líka ágætt þegar að maður er eitthvað á flakki, þá er fartölvan það eina sem maður þarf. Það sem þú missir við þetta er hins vegar nándin við verkið. Þetta er svolítið eins og að tala við kærustuna sína á Facebook í staðinn fyrir að hitta hana. Mér finnst allavega miklu betra að hitta kærustuna mína í alvöru.“

Fylgist þú náið með hverjir koma á sýninguna og hvaðan – er einhver búinn að kíkja við?

„Ég uppgötvaði Google analytics bara áðan, og þar get ég séð alls konar tölfræði varðandi sýninguna. Ég veit það til dæmis núna að sýningin hefur verið skoðuð af 645 manns og meðaltími þeirra sem að hafa skoðað hana er þrjár mínútur og 49 sekúndur.“

Hvað verður sýningin lengi uppi – ákveðinn tíma eða bara að eilífu?

„Allavega eins lengi og ég borga lénið! Það væri nú gaman ef hún gæti verið ,,online“ þangað til að ég verð gamall karl. Svo fengi hún kannski bara að hverfa með mér.“

Witch Window from Fritz Hendrik Berndsen IV on Vimeo.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 klukkutímum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Skilningarvitin hætta að starfa í ákveðinni röð þegar fólk er að deyja

Skilningarvitin hætta að starfa í ákveðinni röð þegar fólk er að deyja
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Fáránlegt athæfi BMW-eiganda í umferðinni – Smaug á milli tveggja bifreiða á tvíbreiðum vegi

Fáránlegt athæfi BMW-eiganda í umferðinni – Smaug á milli tveggja bifreiða á tvíbreiðum vegi
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
Eyjan
Fyrir 16 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 17 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt