Nýtt og gott á Netflix

Black Mirror, fjórða þáttaröð

Fjórða þáttaröðin af þessum frábæru bresku vísindaskáldsöguþáttum fer í loftið 29. desember. Fyrir þá sem ekki þekkja til er hver þáttur sjálfstæður í anda The Twilight Zone og gerast iðulega í framtíðinni eða annarri vídd og eru ádeila á nútímasamfélag og samband mannfólks við tækninýjungar.

Dope

Heimildarþættir sem fjalla um heim eiturlyfja eins og hann er í dag. Fíkniefnamarkaðurinn er skoðaður frá öllum sjónarhornum, allt frá heimi fíkilsins, salans og lögreglunnar.

Big Mouth

Teiknimyndaþættir sem minna örlítið á South Park, Family Guy og slíkt efni. Þættirnir fjalla um hóp táninga sem þurfa að glíma við hormóna, kynþroska og öllu sem því fylgir.

Rotten (Frumsýnt í janúar 2018)

Matur er skoðaður á sama hátt og morðmál í þáttunum Rotten. Farið er ofan í saumana á matarframleiðslu í Bandaríkjunum, spillingarmál, matarsóun og hættan sem getur leynst í unnum matvælum. Einblínt verður á eina staka vöru í hverjum þætti, til að mynda hunang, hvítlauk og kjúkling.

La Mante

Franskir spennuþættir sem fjalla um leit lögreglunnar í París að raðmorðingja. Lögreglan leitar til Jeanne Deber, annars raðmorðingja sem er í haldi. Deber, eða Le Mante, er leikin af Carole Bouquet sem Bond-aðdáendur kannast við úr myndinni For Your Eyes Only.

Trollhunters

Teiknimyndaþættir úr smiðju Guillermo del Toro og Dreamworks. Þættirnir, sem ætlaðir eru börnum á öllum aldri, fjalla um ungan dreng sem kynnist samfélagi trölla sem býr í bænum Arcadia án vitundar okkar mannfólksins. Meðal þeirra sem ljá raddir sínar í þáttunum eru Kelsey Grammer úr Frasier og Anton Yelchin heitinn sem var búinn að taka upp fyrstu tvær þáttaraðirnar áður en hann lést.

Þú getur sleppt því að horfa á

Fuller House

Enn eitt dæmið um tilgangslausa fortíðarþrá. Fáir sem engir muna eftir þáttunum Full House sem sýndir voru í bandarísku sjónvarpi í byrjun tíunda áratugarins og enn færri hér á landi þar sem aðeins var hægt að horfa á þættina í gegnum Fjölvarpið. Sem verra er nota þættirnir sama gamla húmorinn með dósahlátrinum. Um að gera að horfa á einn eða tvo þætti fyrir smá fortíðarþrá, en ekki meira.

Ekki missa af

I Don’t Feel at Home in This World Anymore

Undarleg mynd, full af svörtum húmor, með Melanie Lynskey og Elijah Wood í aðalhlutverkum. Brotist er inn á heimili Ruth á meðan hún er í vinnunni og hún fer í leiðangur til að finna allt sem var stolið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.