Úr listheiminum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Myndlistarráð hefur tilkynnt stofnun Íslensku myndlistarverðlaunanna, en þau verða veitt í fyrsta skipti í febrúar. Verðlaunin verða veitt í tveimur flokkum, Myndlistarmaður ársins og Hvatningarverðlaun ársins, og er markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar.

Ráðning Stefáns Hilmarssonar tónlistarmanns í starf forstöðumanns rekstrarsviðs STEF var á dögunum kærð til fulltrúaráðs samtakanna, sem vísaði kærunni frá. Það var Hjálmar H. Ragnarsson, fyrrverandi rektor LHÍ og formaður Tónskáldafélags Íslands, sem kærði ráðninguna og sagði hana þverbrjóta samþykktir samtakanna. Í frétt mbl.is svarar Jakob Frímann Magnússon stjórnarformaður á þann veg að hann varði ekkert um að „einhverjum einum litlum höfundi“ detti í hug að gera athugasemd við ráðninguna og biður hann heldur að finna sér eitthvað betra að gera – „kannski að reyna að semja einhver almennileg lög.“

Jón Páll Eyjólfsson hefur sagt upp störfum eftir þrjú ár sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, en mun starfa út leikárið. Í Facebook-færslu greinir Jón Páll frá því að hann telji að með nýjum samning Akureyrar og Menningarfélags bæjarins verði ómögulegt að ná þeim markmiðum sem sett voru í stefnumótunarvinnu leikfélagsins sem hann var ráðinn til að stýra. Hann segir samninginn afhjúpa skort á skilningi á mikilvægi LA sem hreyfiafls í samfélaginu og þau áhrif sem það hefur á lífsgæði og möguleika til auðugs lífs í bænum. Einnig segir hann stöðuga óvissu um fjárhagslega stöðu fyrirtækisins hafa gert starf hans nærri ómögulegt og valdið honum óbærilegri streitu og vanlíðan sem hafi dregið úr starfsþrótti hans og ánægju.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.