fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Jólaspilin 2017: Klám, kunnátta, kúrekar og kaldrifjað morð

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 17. desember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt sinn voru jólin talin svo heilög að bannað var að spila á meðan á þeim stóð. Átti þetta sér í lagi um aðfangadagskvöld. Eftir að slakna fór á trúrækni landands urðu jólin að helsta spilatíma ársins því þá hittist öll fjölskyldan í jólaboðum. Þessi boð geta verið löng og á vissum tíma klárast umræðuefnin. Þá er gripið í borðspil, bæði til að skemmta sér og koma í veg fyrir vandræðalegar þagnir. Sumt fólk spilar sjaldan eða aldrei nema einmitt um jólin. Líkt og bókaflóðið skellur spilaflóðið á í aðdraganda jólanna. Kristinn Haukur hjá DV kynnti sér helstu borðspilin sem koma út á íslensku fyrir þessi jól ásamt Grími Zimsen, Hagalíni Ásgrími Guðmundssyni og Eyþóri Smára Snorrasyni.

Codenames Undirheimar

Nordic Games, 4-8 leikmenn, 30 mín.
Hálf undarlegt er til þess að hugsa að Codenames sé aðeins tveggja ára gamalt spil. Það er tékkneskt að uppruna, vann Spiel des Jahres (nokkurs konar Óskarsverðlaun borðspila) og er orðið eitt allra vinsælasta partíspil veraldar. Þetta er orðaþrautaspil milli tveggja liða þar sem liðstjórar hvors liðsins reyna að leiða félaga sína að réttum orðaspjöldum. Þeir mega þó aðeins gefa upp eitt orð (eða hugtak) og svo tölu yfir hversu mörg orðaspjöld það nær.

Ekki fyrir börnin
Codenames Undirheimar Ekki fyrir börnin

Mynd: Nordic Games

Síðan Codenames sló í gegn hafa komið út fimm aðrar útgáfur af því, til dæmis myndaútgáfa og Marvelútgáfa. Væntanlega munu enn fleiri bætast við í framtíðinni. Undirheimar kom út á síðasta ári og hefur nú verið þýtt á íslensku. Hér eru aðeins orð fyrir 18 ára og eldri, það er blótsyrði, orð tengd kynlífi og klámi, fyllerís og eiturlyfjaorð. Ólíkt upprunalega spilinu eru Undirheimar ekki spil sem fjölskyldan sest saman við á jóladag. Þetta er spil sem yngra fólk tekur með sér í partí eftir jólaboðið.

Prufuhópur DV þekkir upprunalega spilið vel og þetta er umtalsvert erfiðara, bæði fyrir liðstjóra og ágiskendur. Orðin fjalla öll um sömu eða svipaða hluti og því flóknara að sigta út réttu orðin. Líkt og önnur „fullorðins“ spil (Cards Against Humanity, Exploding Kittens) þá verður þetta sennilegra betra með hverjum bjór.

3,5 stjarna

Ég veit

Myndform, 2-6 leikmenn, 45 mín.
Spurningaspilið I Know kom upphaflega út í Finnlandi árið 2012 sem nokkurs konar vísbendingaspurningaspil. Fékk maður þá stig eftir því sem vísbendingarnar voru færri. Leikmenn gátu einnig veðjað á kunnáttu hvors annars sem er prýðilegt tækifæri til að skjalla eða móðga fólk. Spilið er nú komið á íslenskan markað sem Ég veit en töluvert breytt frá upprunalegu útgáfunni.

Rétt svör eru ekki alltaf rétt
Ég veit Rétt svör eru ekki alltaf rétt

Mynd: Myndform

Nú er takmarkið að ná sem flestum svörum rétt. Ólíkt flestum spurningaspilum þá er ekki eitt rétt svar á hverju einasta spili……heldur átta. Svarandi hefur ákveðinn tíma til að nefna eins mörg svör og hann getur á ákveðnum tíma. Til dæmis íslenska fugla eða persónur úr The Simpsons. Þó hann giski á réttan fugl eða persónu er ekki alltaf víst að hún sé í svörunum. Spilið sker sig því töluvert frá öðrum spurningaspilum og minnir um margt á hina lífshættulega ávanabindandi heimasíðu Sporcle.com.

Fljótt á litið virðist þetta vera betri útgáfa en sú upprunalega og spjöldin er hægt að taka út úr spilinu og nota að vild. Líkt og í fyrri útgáfu þá hafa aðrir leikmenn möguleika á að veðja á þann sem giskar og svara sjálfir einhverjum svörum sem hann klúðraði.

4 stjörnur

Mysterium

Nordic Games, 2-7 leikmenn, 45 mín.
Tajemnicze Domostwo kom úr árið 2013 í Póllandi og varð snemma hálfgerð goðsögn. Eitt og eitt spil rataði út úr landi og nördar víða um heim reyndu að krafsa sig í gegnum reglurnar. Hugmyndin er bráðsnjöll. Þetta er miðlaspil sem skartar morðgátu líkt og Cluedo og kryptískum myndum líkt og Dixit. En þetta er samvinnuspil þar sem einn leikmaður leikur draug sem leiðir miðlana áfram án þess að segja orð. Tveimur árum síðar var spilið gefið út fyrir enskumælandi markað sem Mysterium og nú er það komið út með íslenskum reglum.

Samvinnuspil með keim af Cluedo og Dixit
Mysterium Samvinnuspil með keim af Cluedo og Dixit

Mynd: Nordic Games

Það fyrsta sem maður tekur eftir er hversu glæsilegt þetta spil er í útliti. Að spila Mysterium er eins og að ganga í gegnum málverkasýningu. Annað sem maður tekur eftir er hversu erfitt þetta er og þá sérstaklega hlutskipti draugsins. Prufuhópur DV spilaði þetta þrisvar í gegn, tapaði í hvert skipti og þeir sem tóku að sér hlutverk draugsins máttu þola stanslausa og óvæga gagnrýni. Ógerlegt reyndist fyrir draugana að sitja þöglir undir þessu. Mysterium lítur út fyrir að vera flókið en er það í raun alls ekki. Þetta snýst fyrst og fremst um sálfræði og tilfinningar.

4,5 stjörnur

Bang!

Nordic Games, 4-7 leikmenn, 30 mín.
Bang! er spaghettí vestri í litlum kassa. Kortaspilið kom fyrst út í Ítalíu fyrir fimmtán árum síðan og hefur síðan þá fengið dobíu af viðbótum og ákaflega vinsæla teningaútgáfu. Nú er spilið komið út á íslensku og það verður að segjast að reglubókin er mun betri en sú enska. Þegar Bang! er spilað er best að setja Morricone á fóninn, halda spilunum þétt upp að sér og treysta engum.

Treystu engum
Bang! Treystu engum

Mynd: Nordic Games

Einn leikmaður tekur að sér hlutverk fógetans og hann er sá eini sem allir vita hver er. Í hópnum leynast svo aðstoðarmenn fógetans, útlagar sem vilja fógetann feigan og einn svikari sem vill drepa alla aðra. Hlutverk svikarans er flóknast þar sem hann þarf að passa upp á að það halli ekki um of á löggurnar eða bófana. Leikmenn draga og spila út spilum til að skjóta aðra, fá stærri byssur, lækna sig (með bjór), ræna hvorn annan og margt fleira. Svo dettur hver leikmaður út á fætur öðrum. Gallinn við Bang! er sá að spilið getur dregist á langinn, sem er hvumleitt fyrir dauða kúreka. En spilið hefur þann eiginleika að geta snúist á hvaða veg sem er og spennan því haldið sér allt til loka.

3 stjörnur

Beint í mark

Borðspil ehf. 2-6 leikmenn, 40-60 mín.

Beint í mark er fótboltaspil sem nokkrir af helstu sérfræðingum þjóðarinnar um fótbolta standa í sameiningu að. Hér er um að ræða spurningaspil þar sem þátttakendur geta spreytt sig á hinum ýmsu spurningum um íslenskan og útlenskan fótbolta. Spurningunum er skipt í erfiðleikastig sem þýðir að yngri og óreyndir spilarar geta einnig tekið þátt í bland við þá sem eldri og reyndari eru. Þetta er því frábært fjölskylduspil.

Prufuhópur DV varði einni kvöldstund í að spila Beint í mark og voru það þrír áhugamenn um fótbolta sem settust niður og spiluðu. Teknar voru tvær umferðir og tók hvor umferð um 30 til 40 mínútur. Það hversu langan tíma spilið tekur fer eftir fjölda þátttakenda en auðveldlega er hægt að skipta stórum hópi fólks til dæmis niður í sex tveggja manna lið. Tæplega þrjú þúsund spurningar fylgja spilinu og því er hægt að spila nokkuð margar umferðir án þess að fá sömu spurningarnar. Hér er á ferðinni frábært spil fyrir þá sem á annað borð hafa áhuga á fótbolta.

4 stjörnur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Ráðleggur Chelsea að taka Varane frítt í sumar

Ráðleggur Chelsea að taka Varane frítt í sumar
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Þörf á annarri umferð í biskupskjöri

Þörf á annarri umferð í biskupskjöri
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Leikur ÍA og Fylkis færður inn í höll – Enginn leikur á grasi í þriðju umferð

Leikur ÍA og Fylkis færður inn í höll – Enginn leikur á grasi í þriðju umferð
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Hafa engan áhuga á því að kaupa hann í sumar

Hafa engan áhuga á því að kaupa hann í sumar