Að lesa skáldsögu á þrjátíu og þremur snúningum

Bókardómur

 Saga Ástu er ljóðrænt verk, líkt og flestar bækur Jóns Kalmans.
Jón Kalman Saga Ástu er ljóðrænt verk, líkt og flestar bækur Jóns Kalmans.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Saga Ástu

Höfundur: Jón Kalman Stefánsson
Útgefandi: Benedikt
443 bls.

Einhvern tímann sagði Sigurður Pálsson í kennslustund að það að lesa ljóð væri svona eins og að hlusta á 45 snúninga plötu á 33 snúningum. Það er, að ljóð krefðist þess að vera lesið hægt. Að sama skapi væri æskilegt að lesa skáldsögur á 45 snúningum og svo ljóðlausa texta á 78. Saga Ástu er ljóðrænt verk, líkt og flestar bækur Jóns Kalmans, og í umræddri bók eru margir gullfallegir kaflar sem krefjast ljóðalesturshraða. Fyrri hluti skáldverksins dansar á ákveðinni línu hvað varðar ljóðrænu og væmni og því miður fer textinn stundum aðeins of langt yfir þessa línu og leysist upp í nánast klisjukenndar vangaveltur. En eftir því sem líða tekur á bókina batnar hún svo mikið að hún heltekur lesanda gjörsamlega. Næstum eins og tveir ritstjórar hefðu skipt bókinni á milli sín. Ljóðrænan virkar í síðari hlutanum eins og net sem flækir mann og losnar lesandi ekki fyrr en síðustu blaðsíðu sleppir, eða jafnvel ekki fyrr en viku síðar. Sem er kannski alger synd því Sögu Ástu hefði alla verið hægt að lesa á þrjátíu og þremur snúningum. En seinni hluti bókarinnar nær að bæta upp fyrir þann fyrri svo vel að gagnrýnandi fyrirgefur allt. Eða nánast allt.

Þvert á tíma og rúm

Sagan sjálf er áhugaverð og leiðin sem farin er til þess að setja fram sögusviðið, tímaflakkið og allt sem því fylgir er listilega vel gert. Persónur eru stundum nær steríótýpískar á köflum en ekki á slæman hátt. Sumar líkjast hver annarri þannig að í byrjun hvers kafla er oft óljóst um hvaða persónu ræðir. Þannig tengjast kynslóðirnar saman þvert á tíma og rúm, dóttir líkist móður og bóndi líkist föður sem líkist ástmanni.

Afstæði tímans

Tíminn er svo gegnumgangandi þema í Sögu Ástu og má segja að bókin öll hverfist um eitt andartak í lífi manns sem virðist innihalda alla ævi hans og annarra í kringum hann. Innbyggður höfundur bókarinnar er svo staddur úti á landi og setur þessa brotakenndu ævi í orð og birtir þar enn aðra vídd skáldskaparins. Af ótta við að ljóstra einhverju upp sem gæti skemmt fyrir framtíðarlesendum, mun gagnrýnandi láta staðar numið hér hvað varðar efni bókarinnar og söguþráð. Eina ástæðan fyrir því að Saga Ástu fær ekki fimm stjörnur er sú hve hún byrjar brösulega en gagnrýnandi sér síður en svo eftir að hafa þraukað í gegnum þann hluta verksins, því síðari hlutinn er yndislegur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.