Efniviður í morð

Í rannsókn sinni á morðinu á Natani Ketilssyni árið 1828 leitar leikhópurinn Aldrei óstelandi meðal annars fanga í dómskjölum og þeim fjölmörgu fræðigreinum, bókum, kvikmyndum og sjónvarpsefni sem gert hefur verið um morðið.
Framkvæma eigin rannsókn Í rannsókn sinni á morðinu á Natani Ketilssyni árið 1828 leitar leikhópurinn Aldrei óstelandi meðal annars fanga í dómskjölum og þeim fjölmörgu fræðigreinum, bókum, kvikmyndum og sjónvarpsefni sem gert hefur verið um morðið.
Mynd: no use without permission

Natan

Höfundur: Salka Guðmundsdóttir og leikhópurinn Aldrei óstelandi.
Leikstjórn: Marta Nordal
Leikarar: Stefán Hallur Stefánsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Birna Rún Eiríksdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson
Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist og hljóðmynd: Guðmundur Vignir Karlsson
Lýsing: Jón Þorgeir Kristjánsson
Aðstoð við hreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir

Sýnt á Litla sviði Borgarleikhússins

Höfundur: Bryndís Loftsdóttir.

-

Leikhópurinn Aldrei óstelandi, gerir í þessari stuttu sýningu tilraun til þess að sýna nokkrar mögulegar ástæður fyrir morðinu á Natani Ketilssyni á Illugastöðum árið 1828. Þau Friðrik, Agnes og hin 16 ára gamla Sigríður voru sek fundin um morðið og bæði Agnes og Friðrik hálshöggvin tveimur árum síðar. Sigríður var hins vegar send utan til ævilangrar fangelsisvistar. Hvað var það sem fékk þau til þessa voðaverks? Var það ágirnd, öfund, ofbeldi, ástríða, misnotkun eða blanda af öllu þessu ásamt ömurlegum aðbúnaði og kolsvartri framtíð? Ólíkar sviðsmyndir eru mátaðar og áhorfendum eftirlátið að finna sitt eigið svar.

Óspennandi illmenni

Grunnhugmyndin er mjög spennandi en sýningin nær þó ekki því flugi sem maður hefði óskað sér. Það kemur fátt á óvart og ekki tekst að skapa þá dýpt í persónurnar að maður finni til samkenndar með þeim. Stefán Hallur leikur Natan og fer létt með að sýna fjölmargar illar og andstyggilegar hliðar húsbóndans á Illugastöðum. Einsleit túlkunin verður þó rislítil og enginn samúð er með grimmilegum örlögum hans. Natan þótti mikill kvennamaður og kunni ýmislegt fyrir sér svo einhver möguleiki hlýtur að hafa verið á meiri sjarma og dýpt í bland við illmennskuna.

Edda Björg Eyjólfsdóttir leikur Agnesi. Framsögn hennar var á köflum full dramatísk og dró sá stíll frekar úr harmi frásagnarinnar en styrkti. Samleikur þeirra Stefáns Halls var þaulæfður en hvorki nógu hættulegur til þess að draga áhorfendur fram á sætisbrúnina né heitur til þess mynda þær ástríður sem að var látið liggja.

Einfaldir morðingjar

Kjartan Darri Kristjánsson fer með hlutverk Friðriks Sigurðssonar, morðingja Natans. Hann er ekki atkvæðamikill í hlutverkinu, ráðvilltur en viljugur til óhæfuverka. Það var erfitt að láta endurtekið hangs hans í kringum konurnar á Illugastöðum ganga upp og ólíklegt að Natan hefði þolað hans löngu og tíðu heimsóknir. Það hefði mátt skerpa betur á eðli Friðriks, finna á honum fleiri fleti en einfeldnina og heimskuna og gera hlutverkið meira spennandi.

Birna Rún Eiríksdóttir fer með hlutverk hinnar 16 ára bústýru. Birna Rún er nýútskrifuð leikkona með mikla reynslu af kvikmyndaleik og býr yfir firna sterku og þroskuðu raddsviði. Hún gætir þó styrks síns í þessu hlutverki og túlkar hina umkomulausu og barnslegu Sigríði af alúð og næmni.

Litlausir búningar á vel hönnuðu sviði

Mikið er lagt upp úr flóknum sviðshreyfingum og dansi. Þetta kemur oft skemmtilega út þrátt fyrir að nokkur atriði hafi verið of löng. Búningarnir voru litlausir og flatir, saumaðir á röngunni. Þessi útfærsla virkaði full einföld og aðgreindi persónurnar ekkert. Sviðsmyndin var hins vegar hugvitsamlega unnin og skapaði sterka tilfinningu fyrir bæði þrengslum og vanlíðan íbúanna á Illugastöðum. Þá var upptökutækni einnig beitt með skemmtilegum hætti.

Sem áður sagði, þá er grunnhugmynd verksins spennandi en niðurstaðan er hálfklárað verk þar sem umgjörðin er að skríða saman þótt kjarninn sé enn ófundinn.

Mynd: no use without permission

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.