Saga af manni sem trúði á frjálst atvinnulíf

Um nýja ævisögu Sveins R. Eyjólfssonar eftir Silju Aðalsteinsdóttur

Höfundur: Einar Kárason

-

Það verður að teljast við hæfi að á þessum vettvangi sé fjallað um ævisögu fyrrverandi framkvæmdastjóra Vísis, stofnanda Dagblaðsins og DV, en hér um ræðir „Allt kann sá er bíða kann“ – Æsku- og athafnasögu Sveins R. Eyjólfssonar blaðaútgefanda, en hana skrifaði Silja Aðalsteinsdóttir. Þetta er þykk og mikil bók, hátt í fjögur hundruð síður um stórmerkilega ævi og feril, og mjög áhugaverð fyrir alla þá sem eru forvitnir um okkar samtímasögu.

Æska Sveins var sumpart tragísk, faðir hans lést þegar Sveinn var á barnsaldri en ekkjan móðir hans barðist löngum við berkla svo að kjörin voru kröpp. Og það birtist manni strax dálítið merkileg mannlýsing af dreng sem þegar í æsku tekur því sem að höndum ber, og er vís með að klára sig og bjarga sér upp á eigin spýtur. Eldri bróðir hans átti við veikindi að stríða í æsku og er þar með talinn þurfa að njóta sérstakrar verndar, svo að faðirinn á dánarbeði fól þeim yngri, barni á sjöunda ári, að verða móðurinni ekki byrði. Að sama skapi vakti móðirin alla tíð yfir eldri bróðurnum, en taldi að Sveinn gæti bjargað sér upp á eigin spýtur. Myndin af úrræðagóðum og kjarkmiklum dreng helst svo í gegnum alla bókina; hann teflir oft í tvísýnu en hefur lengst af jafnan sigur, gætir að sínum nánustu; fjölskyldu, vinum og vinnufélögum, bíður á endanum ósigra í viðskiptum en kemst þó standandi niður, finnst í lagi að tapa tveimur milljörðum úr því hann átti tvo milljarða til að tapa, borgar öllum sem hann skuldar og kveinkar sér ekki.

Frá Skeljungi í blaðahark

Sigurganga Sveins á viðskiptasviðinu verður mest þegar hann fer út í blaðaútgáfu sem framkvæmdastjóri útgáfufélags Vísis. Það var óvænt því að þá var hann ungur maður á uppleið hjá einu stöndugasta og virðulegasta fyrirtæki landsins, olíufélaginu Skeljungi sem var nátengt voldugustu aðilum í viðskiptalífi jafnt sem pólitík hér á landi. Stórskemmtileg er myndin sem við fáum af föstudagsfylliríum og veitingastaðaheimsóknum æðstu ráðamanna fyrirtækisins, og sem sumir næstráðenda verða að taka þátt í þrátt fyrir að vilja heldur vera heima að borða hjá fjölskyldunni og lesa fyrir börnin fyrir svefninn. Sveinn var þarna með trygga afkomu í olíubransanum, en söðlaði semsé um og fór með æskuvini sínum og vinnufélaga úr brúarvinnu, Jónasi Kristjánssyni ritstjóra, út í þann slag að koma Vísi á réttan kjöl, en þar var allt vaðandi í skuldum og óreiðu. Kaflinn sem svo fer í hönd, með öllu plottinu í kringum Blaðaprent, Dagblaðið og DV er svo eitthvað sem gæti verið hryggjarstykkið í góðum róman.

Í stuttu máli tekur fyrst við varnarbarátta á Vísi þar sem Sveinn sinnir rekstrinum en hefur sig ekki í frammi eða í sviðsljósinu, og er á einum stað fyrir vikið kallaður Skugga-Sveinn, en lætur Jónasi eftir ritstjórnina. Það þarf að losa blaðið úr gaddfreðnum klóm gamla tímans, eins og að þurfa að taka við leiðurum utan úr bæ og borga forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir þá. Það samrýmist að sjálfsögðu ekki hugmyndum félaganna um frjálsan og óháðan fréttamiðil, en það hvernig þeir losa sig úr slíku fyllir ýmsa úr gamla valdakerfinu tortryggni og jafnvel óvild. Er þó Sveinn, þessi Verslunarskólagengni alþýðustrákur, fjarri því að vera fjandmaður Sjálfstæðisflokksins, heldur greinilega á hans bandi vegna hugmynda um frjálst atvinnu- og viðskiptalíf. En þótt þannig frjálsræðisstefna, eða jafnvel frjálshyggja (þótt búið sé illa að jaska út því hugtaki), sé yfirlýst grunnelement í hugmyndakerfi hægrimanna, hefur hún mjög gjarnan vikið fyrir hagsmunum valdaafla þegar til á að taka hér á landi. Leiðarar Jónasar, t.d. um landbúnað sem stórspilli náttúrunni en gagnist hvorki bændum né neytendum, fara þversum ofan í þá sem eiga viðskiptahagsmuni í því dæmi, og það kyndir enn frekar undir fjandskap í garð Vísis.

Blaðaprent – greiðasemi og svik

Og svo kemur Blaðaprentsmálið. Á þessum tíma voru gefin út fleiri dagblöð hér á landi en nú er gert, eða Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið, auk Vísis og Moggans. Öll voru þau að burðast með eigin gamlar og úreltar prentsmiðjur, án þess að hafa ráð á því hvert um sig að bæta þar um. Þá fær Sveinn hugmyndina um að stofna eina nýtísku prentsmiðju fyrir þau öll, að undanskildu Morgunblaðinu sem var þeirra stöndugast. Þetta var ekki einfalt; mikil tortryggni var innbyrðis á milli flokkanna sem gáfu blöðin út, og svo allra hinna í garð íhaldsblaðsins Vísis, og þurfti ýmsar fortölur og jafnvel hrossakaup til að fá forystumenn blaðanna og flokkanna, til að þiggja þennan bjarghring sem til þeirra var kastað. En það tekst og úr verður frábær framför fyrir öll blöðin og þeirra útgáfufélög.

Og er nú kyrrt um hríð.

Næst gerist það að vegna utanaðkomandi þrýstings og óánægju voldugra afla með sjónarmið hans ákveða útgefendur Vísis að reka ritstjórann, Jónas Kristjánsson, án samráðs um það við framkvæmdastjórann Svein. Sem aftur stendur upp úr stöðu þar sem hann var búinn að koma sér þægilega fyrir, og hann gengur út á eftir Jónasi með yfirlýsingu um að þeir muni setja nýtt blað á laggirnar. Sem þeir svo gera; Dagblaðið verður brátt mjög vinsælt. Dagblaðið var prentað í Blaðaprenti, en svo kemur rýtingsstungan: Blaðaprent neitar að halda áfram viðskiptum við Dagblaðið, að sjálfsögðu vegna þrýstings frá Vísi sem svíður undan samkeppninni. En til þess þurfti auðvitað liðstyrk frá sömu pólitísku öflum sem Sveinn og co. höfðu skorið niður úr snörum með sinn fjölmiðlarekstur með því að koma Blaðaprenti á laggirnar.

En þótt fyrirvarinn væri stuttur tókst þeim Dagblaðsmönnum samt að bjarga sér um prentun, og samkeppnin við Vísi hélt áfram. Dagblaðið var nú prentað í prentsmiðju Árvakurs, í andstöðu þeirra pólitísku afla sem stóðu á bak við Moggann en með stuðningi þeirra eigenda Árvakurs sem, kannski nokkuð óvænt, tóku tillit til viðskiptalegra sjónarmiða er þeim bauðst nýr borgandi viðskiptavinur fyrir prentvélar sem ella hefðu staðið verklausar þann hluta dagsins. Samkeppninni á síðdegisblaðamarkaðnum lyktaði svo þannig að Dagblaðið og Vísir sameinuðust, og nýja blaðið, DV, var áfram prentað í prentsmiðju Árvakurs. Og þar með var Vísir farinn úr Blaðaprenti og þetta kallaði uppdráttarsýki og dauða yfir það fyrirtæki.

Heimsókn til Sveins

Höfundur þessa pistils fékk að heimsækja Svein fyrir rúmum tólf árum, eða þegar ég var að setja saman bók um baráttusögu Jóns Ólafssonar í viðskiptalífinu, og það varð mjög eftirminnilegur fundur. Ég þekkti ekki Svein, nema bara sem nafn, enda hefur hann alltaf forðast sviðsljós og margmenni, en þarna hitti ég flottan náunga með blik í auga og sjálfsörugga framkomu þótt hann hafi þá verið að kljást við gjaldþrot sinna fyrirtækja í nokkur ár. Hann segir frá því í bókinni sem ég skrifaði – Jónsbók - að þegar Vísismenn á árunum 1994–1995 vildu selja sig út úr Frjálsri fjölmiðlun, sem meðal annars gaf út DV, hafi verið samkomulag milli eigendahópanna um að þegar hinn seldi fengju þeir sem eftir voru að vera með í ráðum um hverjir kæmu inn í staðinn. Og svo segir Sveinn: „Mér var ekki sama hvaða partner ég fengi, og ég vildi allavega ekki fá Kolkrabbann!“ Og að í þeirri stöðu hafi honum dottið í hug að hringja í Jón Ólafsson, sem þá var að reka annað fjölmiðlafyrirtæki, Íslenska útvarpsfélagið. Þegar Sveinn var spurður hvort hann hafi ekki óttast að Jón væri of umdeildur svaraði hann: „Ég gaf ekkert fyrir það! Ég hafði lengi verið vinur manna á borð við Gunnar Thoroddsen og Albert Guðmundsson, sem heldur áttu ekki upp á pallborðið hjá forystu Sjálfstæðisflokksins.“

Hins vegar segir hann að mikið ónæði hafi strax orðið frá utanaðkomandi öflum vegna setu Jóns í stjórn Frjálsrar fjölmiðlunar. Og hafa verður í huga að andstaðan við að Jón færi með eignarhlut í Frjálsri fjölmiðlun var ekki af viðskiptalegum toga, heldur frekar pólitískum; Jón þótti ekki leiðitamur ráðandi öflum og var meðal annars sterklega grunaður og sakaður um að hafa lagt Reykjavíkurlistanum, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar, lið er hann felldi í fyrsta sinn Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Sveinn segir í Jónsbók: „Jón hafa verið mjög mikilvægan stjórnarmann þessi þrjú ár frá '95–'98; hann hafi spurt réttu spurninganna og gert sér far um að kynnast innviðum fyrirtækisins.“ Og bætir við að með þeim hafi tekist ágæt persónuleg kynni. En að utanaðkomandi pólitískur þrýstingur hafi á endanum orðið slíkur að þeir hafi neyðst til að losna við Íslenska útvarpsfélagið „til að slá á óánægju voldugra afla.“ Og bætir við: „Og við keyptum þá út fyrir geipifé.“ Í nýútkominni ævisögu Sveins segir hann einnig þessa sögu, og þar kemur fram að fyrirtæki hans þurfti að taka 400 milljóna sambankalán til að kaupa Jón og co. út, og að félagið hafi á endanum kiknað undan því láni.

Og Orca-hópurinn

Annað sem reið yfir Svein um svipað leyti, var að Eyjólfur, sonur hans, gekk skömmu síðar í lið með Jóni Ólafssyni, Þorsteini Má Baldvinssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í svokallaðan Orca-hóp sem keypti Fjárfestingabanka atvinnulífsins sem þá var verið að einkavæða. Reiðibylgjan sem þá skall á þeim fjórmenningum frá valdamönnum samfélagsins er eitt af því einkennilegasta sem gerst hefur á því sviði í okkar nýlegri samtímasögu, og málefni sem menn eiga eflaust eftir að skoða nánar. Aftur var um hrein viðskipti að ræða; menn í Orca-hópnum sáu hag í því að kaupa þessa starfsemi og buðu einfaldlega betur en þeir sem ráðandi pólitísk öfl vildu að eignuðust hlutinn. Og þegar þessi mál eru skoðuð verða menn að leiða hjá sér mismunandi persónulegt álit sem þeir hafa á leikendum á sviðinu, eða atburði sem síðar gerðust í Hruninu.

Það hlýtur að hafa verið einkennilegt fyrir aðalpersónu bókarinnar sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, alþýðustrák sem komst í Verslunarskólann og lærði þar að aðhyllast frjálst atvinnu- og viðskiptalíf, að verða vitni að þessum hamförum. Hann sjálfur fór aldrei í manngreinarálit eftir pólitík, þótt hann tilheyrði Sjálfstæðisflokknum; það var í andstöðu við hans grunnhugmyndir. Þannig starfaði hann með vinstrimönnum og Framsóknarmönnum við að koma Blaðaprenti á laggirnar. Í nóvember '97, eftir að Ellert Schram hafði látið af störfum ritstjóra DV, var ráðinn í hans stöðu Össur Skarphéðinsson, margreyndur penni og dagblaðaritstjóri. Um það segir Sveinn í Allt kann sá er bíða kann: „Þarna fór eins og oft áður á mínum ferli að ég tók ekki mið af pólitískum áhrifum gerða minna en hugsaði meira um málefnaleg áhrif á rekstur og viðgang fyrirtækisins.“ Og hann bætir við: „Gauragangurinn sem fylgdi aðkomu Stöðvar 2-manna, Jóns Ólafssonar og félaga, að Frjálsri fjölmiðlun varð nú bara eins og bænalestur miðað við uppistandið sem varð út af ráðningu Össurar Skarphéðinssonar sem ritstjóra DV.“

Ekki löngur síðar er Frjáls fjölmiðlun tekin til gjaldþrotaskipta, og mjög hart gengið fram gegn Sveini og hans fyrirtækjum í þeirri orrahríð. Og fer hann ekki leynt með hverju var þar um að kenna.

Í lok ævisögu Sveins segir svo: „Ég hitti gamlan félaga minn fyrir nokkrum vikum, fyrrverandi forstjóra stórfyrirtækis, mann sem er nokkuð tengdur Sjálfstæðisflokknum. Hann spurði hvort það væri rétt að til stæði að skrifa sögu mína. Ég sagði að það hefði eitthvað verið rætt.

„Gerðu það ekki,“ sagði hann með miklum þunga. „Þú mátt alls ekki gera það.“

„Og af hverju ekki?“ spurði ég undrandi.
„Sveinn minn,“ sagði hann. „Það hefur verið friður um þig í nokkur ár og sumir jafnvel farnir að tala vel um þig. Ef þú gerir þetta seturðu allt á annan endann, ekki gera það.“

Þetta samtal bregður sínu ljósi á ástandið í þjóðfélaginu undanfarna áratugi. Hér hefur ríkt ákveðið hræðsluástand, einhvers konar pólitískur fasismi. Menn hafa ekki þorað að tjá hug sinn af ótta við að blóðhundunum yrði sigað á þá, eins og dæmin sanna. Ég neita að taka þátt í þess konar þöggun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.