fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Reynir er ástríðufullur landakortasafnari: Á 233 mismunandi kort og er höfundur bókar um kortlagningu Íslands

Höfundur bókar um kortlagningu Íslands

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 27. nóvember 2017 13:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rúmu ári varð Reynir Finndal Grétarsson skyndilega ástríðufullur landakortasafnari. Í eigu hans eru nú rúmlega 200 gömul landakort af Íslandi, mörg sjaldgæf og öll algjört augnayndi. Reynir hefur ekki látið sér nægja að safna kortum heldur hefur hann skrifað bók um kortlagningu Íslands í gegnum söguna. Bókin sem er vitanlega ríkulega myndskreytt ber heitið Kortlagning Íslands – Íslandskort 1482–1850 og er gefin út af Crymogeu.

Forsagan er skemmtileg og áhugaverð. Í fyrravor keypti Reynir, sem er stofnandi Creditinfo og stjórnarformaður fyrirtækisins, hús Elínar Berg, ekkju Ólafs Ragnarssonar bókaútgefanda. Veggur í bókaherbergi hússins var þakinn landakortum, en Ólafur var mikill áhugamaður um gömul íslensk landakort. Reyni varð starsýnt á kortin og heillaðist samstundis af þeim. „Mér fannst kortin svo falleg að ég spurði Elínu hvort kortin gætu fylgt húsinu en þau voru ekki til sölu,“ segir hann. „Ég hafði gaman af landafræði þegar ég var lítill og skoðaði vandlega landabréfabókina sem við börnin fengum í grunnskóla. Uppi á vegg hjá mér á skrifstofunni voru alltaf landakort og á heimilinu. Það var samt ekki fyrr en ég sá gömlu landakortin á veggnum í bókastofu Ólafs og Elínar sem ég hugsaði með sjálfum mér: Kannski get ég keypt upprunaleg landakort af Íslandi, mörg hundruð ára gömul.

Fyrsta skipti sem Ísland sést á prentuðu korti. Árið er 1482.
Ísland Fyrsta skipti sem Ísland sést á prentuðu korti. Árið er 1482.

Ég fór að leita að gömlum kortum, fyrst um alla Reykjavík og síðan á internetinu. Ég setti mig í samband við menn sem kaupa og selja landakort og sagði þeim að ég væri að leita að prentuðum kortum af Íslandi. Þeir hófu leit og reyndu að selja mér öll möguleg kort þar sem Ísland sást einhvers staðar, stundum bara pínulítið á jaðrinum.

Ég fylgist vel með uppboðum, leita þau uppi ef ég er í útlöndum og á viðskipti við marga í þessum bransa. Samböndin nýtast. Um daginn hafði Dani, sem ég keypti nokkur kort af í fyrra, samband við mig. Hann var með spil, hjartaþrist, með landakorti af Íslandi á. Ég hafði aldrei heyrt um að þetta spil væri til. Ég keypti það svo af honum.“

Með landakorti af Íslandi.
Hjartaþristur Með landakorti af Íslandi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Á 233 mismunandi kort

Hvað eru elstu kortin sem þú átt gömul?

„Ég á 233 mismunandi kort, þau eru öll upprunaleg og það elsta frá 1482. Það er lítið til af landakortum af Íslandi sem gerð voru fyrir 1600. Fyrsta kortið sem Ísland sést á er af Norðurlöndunum, en af því svæði eða Norður-Evrópu eru nánast öll elstu kortin sem sýna Ísland.

Fyrr á öldum var upplagsfjöldi landakorta ekki mikill og hver útgáfa nokkuð skýrt afmörkuð. Svo ég taki dæmi þá voru kannski árið 1600 gefin út 1.000 kort af ákveðinni tegund og svo giska menn á að af þeim séu kannski 100 enn til. Yfirleitt voru þessi gömlu kort handmáluð eftir að þau voru prentuð og af þessum máluðu kortum eru engin tvö eins.“

Spurður hvort það sé góð fjárfesting í því að kaupa gömul landakort segir Reynir: „Það er hægt að fá 300–400 ára gömul kort af Íslandi á 10–20 þúsund krónur en þau sjaldgæfustu eru mun dýrari, allt upp í milljón. Það má segja að þetta sé ekki verri fjárfesting en hvað annað. Þessi kort munu sennilega halda verðmæti sínu frekar en peningar og hlutabréf ef eitthvað kemur upp á í óvissum heimi.“

Vantaði bók eins og þessa

Af hverju ákvaðstu að skrifa bók um Íslandskort?

„Ég fór að vinna að þessari bók af því að mér finnst að það eigi að vera til kortabók eins og þessi með fyrstu kortunum sem Ísland sést á.

Bókin er saga korta af Íslandi frá því að Ísland sést fyrst á yfirlitskorti 1482 og fram til 1850. Í byrjun söfnuðu kortaútgefendur sjálfir upplýsingum um legu landa til að gefa út kort í hagnaðarskyni og þá var ekki mikið hugsað um nákvæmnina. Menn seldu svo sama kortið í áratugi, löngu eftir að komnar voru fram nýjar upplýsingar og rugluðu til dæmis iðulega saman Íslandi og hinu ímyndaða landi Thule. Í bókinni fjalla ég ekki um árin eftir 1850 því það ár er kortagerð orðin vísindi, ekki lengur list, og er alfarið orðin hlutverk opinberra aðila.

Mér fannst vanta yfirlit yfir þau prentuðu kort sem eru til af Íslandi. Haraldur Sigurðsson skrifaði Kortasögu Íslands, mikinn doðrant sem ég náði að kaupa einhvers staðar á 35.000 krónur. Sú bók er bæði dýr og þykk og ekki aðgengileg sem yfirlit yfir þau kort sem eru til af Íslandi. Einnig hafa komið fram ýmsar nýjar upplýsingar frá því sú bók kom út. Og svo eru margir sem hafa áhuga á kortum af Íslandi sem ekki skilja íslensku. Landsbókasafnið er síðan með vef um Íslandskort sem er ágætur. Þeir sem hafa áhuga á kortagerð leita svo oft á netinu eftir upplýsingum en þar er ýmisleg vitleysa í gangi. Þar má finna fullyrðingar um það hvaða ár kort voru gerð og nafn höfunda þeirra, en þessar upplýsingar eru stundum rangar. Mér fannst vanta bók eins og þessa á markaðinn þar sem saga kortagerðar af Íslandi er rakin og sagt frá því hvernig hún þróaðist.“

Þessi forna bók, Eyjalýsing, frá 16. öld er í eigu Reynis. Þar er að finna lýsingar á öllum helstu eyjum heims. Við mynd af Íslandi hafa verið skrifaðar nokkrar setningar og dagsetningin 1539.
Forn bók Þessi forna bók, Eyjalýsing, frá 16. öld er í eigu Reynis. Þar er að finna lýsingar á öllum helstu eyjum heims. Við mynd af Íslandi hafa verið skrifaðar nokkrar setningar og dagsetningin 1539.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Bókin kemur bæði út á íslensku og ensku, en Reynir skrifaði hana upphaflega á ensku. „Í vor var ég í viðtali í Morgunblaðinu um viðskipti. Blaðamaðurinn sá landakort á veggjunum og fór að spyrja um þau. Hann hafði miklu meiri áhuga á þeim en rekstrartölum og það átti reyndar líka við um mig. Viðtalið snerist því nokkuð um þessi kort. Kristján B. Jónasson í Crymogeu las viðtalið og hafði samband. Hann sagðist hafa áhuga á að gefa út kortabók og mér fannst það hið besta mál og sagði honum að ég væri að skrifa slíka bók á ensku fyrir alþjóðlegan markað. Búin var til íslensk gerð og bókin kemur því út bæði á íslensku og ensku.“

Búið að vera eins og maraþon

Reynir er stofnandi Creditinfo og er nú stjórnarformaður fyrirtækisins en er í fríi til áramóta. „Ég var forstjóri fyrirtækisins í tuttugu ár, þangað til í sumar. Þá réð ég nýjan forstjóra og fór í stjórn. Ég ákvað svo að taka mér frí fram að áramótum.

Við vorum þrír strákarnir sem stofnuðu þetta fyrirtæki og þegar ég hætti sem forstjóri eftir tuttugu ár voru starfsmenn orðnir tæplega 500. Þetta er búið að vera eins og maraþon. Þegar maður hefur klárað maraþon þarf maður að hvíla sig. Það var kominn tími til þess.

Um áramótin ætla ég að ákveða hvað ég geri, hvort ég opna kannski til dæmis kortasafn eða fer aftur í fyrirtækið að vinna eða stofna kannski bara nýtt fyrirtæki. Satt best að segja hef ég ekki hugmynd um hvað ég mun taka mér fyrir hendur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Hetja Bayern sökuð um að gera grín að haltrandi leikmanni Arsenal

Hetja Bayern sökuð um að gera grín að haltrandi leikmanni Arsenal
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Ísraelar hefndu sín í nótt: Hvað gera Íranir núna?

Ísraelar hefndu sín í nótt: Hvað gera Íranir núna?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Högg í maga enskra stórliða

Högg í maga enskra stórliða
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Léttist um 74 kíló með því að hætta einu sem flestar mæður gera

Léttist um 74 kíló með því að hætta einu sem flestar mæður gera
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu
433
Fyrir 15 klukkutímum

Evrópudeildin: Ensku liðin bæði úr leik – Roma henti Milan úr keppni

Evrópudeildin: Ensku liðin bæði úr leik – Roma henti Milan úr keppni
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku