Menning

Reynir breyski

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 24. nóvember 2017 20:30

Heimildamyndin um Reyni Örn Leósson, Reynir sterki, hefur verið í bígerð síðan um aldamótin þegar leikstjórinn Baldvin Z viðraði hugmyndina fyrst við seinni eiginkonu Reynis. Síðan hafa liðið 17 ár, nokkrir miðilsfundir og óvæntur fundur í kjallara á Reykjanesi og nú er þessi einlæga og áhrifamikla mynd orðin að veruleika.

Var að gleymast

Í lok myndarinnar segist Baldvin hafa ráðist í verkið vegna þess að saga Reynis var að gleymast, sem er undarlegt en jafnframt satt. Reynir komst í heimsmetabækur fyrir aflraunir sínar sem eru svo lygilegar að bæði kraftajötnar og töframenn klóra sér í hausnum yfir þeim. Hann gleymdist þó fljótlega eftir að hann dó árið 1982 aðeins 43 ára að aldri. Mögulega vegna þess að Íslendingar öðluðust aðra kraftajötna sem afrekuðu margt og náðu heimsfrægð, eins og til dæmis Skúla Óskarsson, Jón Pál Sigmarsson og Magnús Ver Magnússon.

Kraftur Reynis var hins vegar af allt öðrum meiði. Snemma kom í ljós að hann bjó yfir miklum fítonskrafti sem hann sýndi ekki með hefðbundnum lóðalyftingum heldur með því að slíta keðjur, handjárn og koma sér úr erfiðum aðstæðum líkt og töframenn gera jafnan. Reynir var ekki tröllslega vaxinn eins og margir aflraunamenn eru, heldur lágvaxinn og knár. En þyngdirnar sem hann lyfti og styrkleiki keðjanna sem hann sleit var mun meiri en seinni tíma menn gátu fengist við.

Myndin fjallar þó aðeins að hluta um þessar aflraunir og heimsmet. Bróðurparturinn fjallar um Reyni sem manneskju og að einhverju leyti um samfélagið sem hann þreifst í, eða þreifst ekki í réttara sagt. Tvö hjónabönd, barnamergð, framhjáhald, drykkja, peningavandamál, ofbeldi og fleira kemur við sögu og kafað er djúpt inn í þessa margslungnu persónu.

Ganga nærri sér

Fjölskylda Reynis gaf leyfi fyrir og tók þátt í gerð myndarinnar eftir að hafa rætt við Reyni sjálfan í gegnum miðil. Stór hluti af myndinni fjallar um hið yfirnáttúrulega og Reynir sjálfur sagðist hafa fengið aflið frá Jesú sjálfum. Viðtölin við fjölskyldumeðlimina eru hjartað og sálin í myndinni því þau eru svo einlæg og hispurslaus bæði um kosti Reynis og galla. Hér er verið að segja mjög erfiðar sögur og viðtalsefnin ganga mjög nærri sér. Hið eina sem er sagt í hálfsögðum vísum eru frásagnir af kynferðisofbeldi, bæði af Reyni sem þolanda og geranda.

Annar styrkleiki myndarinnar er allt myndefnið frá þessum tíma sem fannst í kjallara á Suðurnesjum, aragrúi af filmum. Mikið af myndefninu kom úr kvikmynd sem Reynir sjálfur framleiddi snemma á áttunda áratugnum þegar hann dreymdi um að verða heimsfrægur fyrir aflraunir sínar.

Framsetningin á myndefninu, viðtölunum, ljósmyndum og blaðaúrklippum er listilega vel gerð og nokkuð óhefðbundin og virkar hrá. Bæði framsetningin og hin ótrúlega en jafnframt gleymda saga gera það að verkum að áhorfandinn er ekki viss um að hann sé að horfa á alvöru heimildamynd eða skáldsögu setta fram í heimildamyndastíl.

Niðurstaða

Reynir sterki er mynd sem missir aldrei dampinn og heldur athygli áhorfandans allan tímann. Ef einhver galli er á myndinni þá er hann hversu stutt hún er því mann langar til þess að kafa enn dýpra í líf þessa manns og heyra fleiri sögur. Þetta er ekki saga af sigrum, að minnsta kosti ekki stórum sigrum, heldur harmsaga manns sem fann sig ekki í samfélaginu. Að hluta til vegna eigin breyskleika og að hluta til vegna ytri aðstæðna. Áhorfandinn er líka skilinn eftir með eina risastóra spurningu sem sennilega enginn getur svarað nema Reynir sjálfur: Var þessi kraftur raunverulegur eða ekki?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 3 dögum

Organisti Blönduóskirkju á tónleikum í Akureyrarkirkju

Organisti Blönduóskirkju á tónleikum í Akureyrarkirkju
Menning
Fyrir 3 dögum

Njóttu lista með Önnu og Unnari í kvöld

Njóttu lista með Önnu og Unnari í kvöld
Menning
Fyrir 4 dögum

Söngperlur ABBA í flutningi okkar fremstu söngdíva

Söngperlur ABBA í flutningi okkar fremstu söngdíva
Menning
Fyrir 5 dögum

Rúnar Eff tekur ábreiðu af lagi Michael Jackson

Rúnar Eff tekur ábreiðu af lagi Michael Jackson
Menning
Fyrir 6 dögum

SKÚLPTUR 2018 – Sköpunarkraftur Gerðar Helgadóttur leiðarstef

SKÚLPTUR 2018 – Sköpunarkraftur Gerðar Helgadóttur leiðarstef
Menning
Fyrir 6 dögum

Bókin á náttborði Heiðu Bjarkar

Bókin á náttborði Heiðu Bjarkar
Menning
Fyrir 1 viku

Manstu eftir rokklögunum sem allir gítarleikarar þurftu að kunna fyrir útileguna?

Manstu eftir rokklögunum sem allir gítarleikarar þurftu að kunna fyrir útileguna?
Menning
Fyrir 1 viku

Brain Police hita upp fyrir Guns N´ Roses: „Spilum það sem fólk vill heyra“

Brain Police hita upp fyrir Guns N´ Roses: „Spilum það sem fólk vill heyra“